Á toppnum Hilmar Árni Halldórsson sækir að varnarmanni Fjölnis í gærkvöld þar sem Stjörnumenn unnu góðan sigur á Fjölnismönnum og eru einir á toppi Pepsi-deildarinnar þegar fimm umferðum er lokið.
Á toppnum Hilmar Árni Halldórsson sækir að varnarmanni Fjölnis í gærkvöld þar sem Stjörnumenn unnu góðan sigur á Fjölnismönnum og eru einir á toppi Pepsi-deildarinnar þegar fimm umferðum er lokið. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Grafarvogi Björn Már Ólafsson bmo@mbl.is Stjarnan byrjaði betur gegn Fjölni á Extra-vellinum í Grafarvogi í gærkvöldi þegar liðin mættust í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla.

Í Grafarvogi

Björn Már Ólafsson

bmo@mbl.is

Stjarnan byrjaði betur gegn Fjölni á Extra-vellinum í Grafarvogi í gærkvöldi þegar liðin mættust í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla. Eftir aðeins fimm mínútna leik kom Guðjón Baldvinsson liðinu yfir eftir stoðsendingu frá Jósef Kristni. Jósef átti heldur betur eftir að koma meira við sögu í leiknum.

Fjölnismenn voru ekki jafngrimmir og Stjörnumenn. Þeir sköpuðu sér þó talsvert af hálffærum en gekk illa að skapa sér hættuleg marktækifæri. Framlína Stjörnunnar var sterk og ógnaði marki Fjölnis endurtekið í fyrri hálfleik.

Í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum þar til Hólmbert Aron Friðjónsson kláraði leikinn með tveimur mörkum á skömmum tíma. Bæði mörkin komu eftir stoðsendingar frá Jósef sem þannig lagði upp öll mörk liðsins. Fjölnismenn klóruðu í bakkann þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Þá þyngdist sókn þeirra og freistuðu þeir þess að jafna leikinn en vörn Stjörnunnar stóðst áhlaupin ágætlega.

Mættu hreinlega ekki til leiks

Það er himinn og haf á milli Fjölnisliðsins í gær og þess liðs sem vann FH í umferðinni á undan. Eins og Ágúst Þór Gylfason, þjálfari liðsins, sagði eftir leikinn þá mættu Fjölnismenn hreinlega ekki til leiks og voru undir í allri baráttu inni á vellinum. Báðir kantmenn liðsins voru teknir af velli eftir um klukkutíma leik. Með varamönnunum kom smá ferskur blær en hvergi nærri nóg til að snúa leiknum við. Fjölnismenn sýndu það í síðasta leik gegn FH að liðið getur gert frábæra hluti en þeim tókst ekki að sýna sparihliðarnar á heimavelli í gær.

Stjörnuliðið heldur áfram að safna stigum og er áfram á toppi deildarinnar eftir fimm umferðir. Það er erfitt að segja til um það hver styrkleiki liðsins sé því allir leikmenn liðsins áttu góðan leik í gær, allt frá Haraldi markverði fram að Guðjóni Baldvinssyni fremst. Sóknarlína liðsins var stórkostleg í gær og fékk hún góða aðstoð frá sóknarbakverðinum Jósef Kristni. Engin meiðsl eru á hópnum enn sem komið er en ef eitthvað annað en jákvætt ætti að segja um liðið mætti nefna að því er enn ósvarað hvernig breiddin er í liðinu þar sem Rúnar Páll hefur notast við sama byrjunarlið í öllum leikjunum.