Nýstúdent Pétur Úlfarsson er aðeins 18 ára gamall og er sannkallað undrabarn í tónlist.
Nýstúdent Pétur Úlfarsson er aðeins 18 ára gamall og er sannkallað undrabarn í tónlist. — Morgunblaðið/Ófeigur
Katrín Lilja Kolbeinsdóttir katrinlilja@mbl.is Pétur Úlfarsson er aðeins 18 ára gamall en hefur þrátt fyrir það útskrifast sem stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og má því segja að hann sé vel á undan sínum jafnöldrum.

Katrín Lilja Kolbeinsdóttir

katrinlilja@mbl.is

Pétur Úlfarsson er aðeins 18 ára gamall en hefur þrátt fyrir það útskrifast sem stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og má því segja að hann sé vel á undan sínum jafnöldrum. Afar óvenjulegt þykir að nemendur útskrifist á þessum aldri. Pétur útskrifaðist af tónlistarbraut með framhaldspróf í bæði söng og fiðluleik, en það var engin tilviljun að hann ákvað að feta þessa braut. Frá unga aldri hefur hann fengist við tónlist og var aðeins rétt tæplega fjögurra ára gamall þegar hann hóf nám í Suzuki-tónlistarskólanum í Reykjavík, þar sem hann lærði á fiðlu.

Sjö ára gamall hóf hann að syngja með Drengjakór Reykjavíkur og söng með honum í nokkur ár. Átta ára hóf hann píanónám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lagði stund á það í fjögur ár, ásamt því að halda fiðlunáminu áfram, og hefur frá árinu 2012 notið handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur, kennara við skólann. Haustið 2009, þá tæplega tíu ára, hóf Pétur söngnám sitt við Söngskólann í Reykjavík og naut þar handleiðslu stórsöngvarans Garðars Thors Cortes. Árið 2011 unnu þeir saman í fyrsta óperuverki Íslensku óperunnar í Hörpu, þegar sýningin Töfraflautan eftir Mozart var sett upp í Eldborgarsalnum. Varð Pétur, þá aðeins 11 ára gamall, fyrsti drengurinn til þess að fara með aukahlutverk í verkinu, en hlutverkið hafði fram að því ávallt verið falið stúlkum. Fór hann með hlutverk eins drengjanna sem aðstoðuðu prinsinn, í túlkun Garðars Thors. Pétur sagði við það tilefni, í samtali við Bítið á Bylgjunni, að hlutverkið væri erfitt en mjög skemmtilegt.

Hann var þó síður en svo hættur, en árið 2013 söng hann sem drengjasópran á Mahler- og Bernstein-tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu, ásamt því að hafa sungið einsöng með hljómsveitinni og tekið þátt í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Bohéme & Carmen. Þann 12. nóvember í fyrra hélt Pétur svo framhaldsprófstónleika í Salnum, tónlistarhúsi Kópavogs, sem voru vel sóttir. Í samtali við Morgunblaðið segir Pétur að það hafi ekki annað komið til greina en að fara á tónlistarbraut í menntaskóla. „Svona fyrst maður hefur verið í þessu svona lengi.“

Að sögn Péturs hefur honum alltaf gengið vel í tónlistinni. Ásamt því að hafa tekið þátt í uppsetningu söngverka hjá bæði Íslensku óperunni og Sinfóníuhljómsveit Íslands hér heima hefur Pétur sótt tónlistarhátíðir víðs vegar um Evrópu og í Bandaríkjunum. En hvernig skyldi hann sjálfur sjá framtíðina fyrir sér? „Ég er svo sem bara 18 ára, það er nægur tími til þess að velta því fyrir sér,“ segir Pétur að lokum.