Þessa dagana fer fram hefðbundin umræða um þinglok, hvenær þau geti orðið og hvað þingið geti afgreitt fyrir sumarfrí. Þegar litið er yfir þingmálalistann má draga þá ályktun að litlu breytti þó að þingið færi í frí strax í dag.

Þessa dagana fer fram hefðbundin umræða um þinglok, hvenær þau geti orðið og hvað þingið geti afgreitt fyrir sumarfrí. Þegar litið er yfir þingmálalistann má draga þá ályktun að litlu breytti þó að þingið færi í frí strax í dag. Þar er fátt að finna sem varðar verulega hagsmuni almennings og sennilega mun ódýrara fyrir skattgreiðendur ef afgreiddum málum fjölgar ekki frá því sem orðið er.

Það mál sem fengið hefur hvað mesta athygli þingmála að þessu sinni er svokölluð fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022, en þar er einkum rætt um hvort hækka eigi skatta á eina atvinnugrein.

Óvíst er hvernig fjármálaáætlunin verður túlkuð í því sambandi. Fjármálaráðherra hefur verið ófáanlegur til að hætta við skattahækkanirnar og aðrir leyfa honum jafnvel að komast upp með það með minniháttar lagfæringum á orðalagi.

Annars gerir fjármálaáætlunin ráð fyrir verulegum útgjaldaauka á næstu árum, þó að vinstri grænir nái að vísu að toppa þá aukningu með tillögum sínum.

En þegar þessi mesta hægri stjórn Íslandssögunnar, eins og sumir vilja kalla núverandi ríkisstjórn, hefur ekki aðra sýn á fjárlög ríkisins til næstu ára en embættismennirnir rétta henni, má segja að það væri bættur skaðinn ef afgreiðsla frestaðist og þingmenn gætu tekið sér gott sumarfrí til að velta fyrir sér tilganginum með þátttöku í stjórnmálum.