Jónína Jónsdóttir var fædd í Reykjavík 14. mars árið 1952. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu föstudaginn 19. maí 2017.

Jónína ólst að mestu upp í Háagerði 83 í Reykjavík hjá foreldrum sínum, Jóni Þórðarsyni og Sigurveigu Þóru Kristmannsdóttur, sem nú eru látin. Systkini hennar eru Agnar, f. 1939, maki Jóna Gunnarsdóttir, Erla, f. 1944 (látin 2012), maki Jón B. Hafsteinsson, Þórný, f. 1948, maki Skafti Stefánsson, Magnús Þór, f. 1962, maki Margareta Blom.

Jónína var gift Guðmundi H. Guðmundssyni, f. 1953, og eignuðust þau fjögur börn. Þau eru: Eva Dögg, f. 1977, Anna Úrsúla, f. 1985, Sólrún Helga, f. 1988, og Guðmundur Jóhann, f. 1993. Maki Evu er Einar Valmundsson, þau eiga eina dóttur, Klöru Dís, tveggja ára, og sambýlismaður Önnu er Finnur Ingi Stefánsson og þau eiga Fanndísi Heru þriggja ára.

Jónína byrjaði ung að starfa að tollamálum hjá Ríkisendurskoðun og hafði lokið prófi í Tollskólanum og var tollendurskoðandi hjá Tollstjóranum í Reykjavík þegar hún lét af störfum á síðasta ári.

Útför Jónínu verður gerð frá Neskirkju í dag, 29. maí 2017, klukkan 13.

„Sóla mín, þú mátt fá allt sem ég á.“

Þetta sagði hún mamma oft við mig. Þessi orð finnast mér vera svo lýsandi fyrir móður mína. Hún var óeigingjörn og hjartahlý. Hún var einlæg í umhyggju sinni og hjálpsemi hennar átti engan endi. Hvort sem það var að bora upp gardínustöng, lita á manni hárið aftur og aftur eða mála fyrir mann mynd í ákveðnum litum.

Hún var þolinmóð, ráðagóð og lausnamiðuð. Verkfræðingur, sáttasemjari og sálfræðingur í einum pakka.

Það sem ég mun sakna mest eru hlátursköstin sem við í fjölskyldunni fengum við eldhúsborðið – hvernig við grétum úr hlátri og gerðum grín hvert að öðru og óförum okkar sitt á hvað. Hún hló oft svo mikið að það komu engin hljóð, hún bara hristist öll og tárin runnu.

Hún kenndi mér að elska. Ég lærði að blóta. Hún kenndi mér svo margt sem ég geri á hverjum degi. Hún kenndi mér hvernig á að vera vinur, að naglalakka mig og að skipta um dekk á bíl.

Þegar systir mín spurði mig hvernig maður lifir án mömmu sinnar átti meira að segja ég, sem allt veit, engin svör. Við verðum að læra að lifa með þig í brjósti okkar. Við gerum það öll saman.

Þín

Sólrún.

Elsku besta mamma mín.

Í dag er nákvæmlega vika síðan þú fórst en ég er alveg jafntýnd og þá. Allar þessar spurningar, öll þessi reiði og þessi gífurlegi klumpur sem liggur yfir brjóstkassanum og leyfir mér ekki að anda djúpt heldur stingur hann mig í hvert einasta sinn sem ég reyni það.

En ég er búin að vera sterk, mamma, alveg eins og þú kenndir mér enda sterkasta kona sem ég hef kynnst. Það var ekkert sem þú gast ekki, þú veigraðir þér aldrei við neinu og lést sem allt væri ekkert mál. Þannig óluð þið mig upp, sterka og sjálfstæða, stundum kannski of sjálfstæða að þínu mati.

Ég gat aldrei falið neitt fyrir þér, þú þekktir mig algjörlega. Hvort sem þú tróðst í mig mat af því að ég var að verða pirruð, eða fórst með mér í göngutúr til að tala um hlutina og oft áður en ég áttaði mig á því sjálf. Þú varst alltaf hreinskilin við mig sama hvað og það var þinn helsti kostur. Þú varst líflínan mín og okkar allra, kletturinn í okkar fjölskyldu sem og annars staðar, sama hvar þá varst þú límið.

Þú varst með einn innilegasta hlátur sem fyrirfinnst. Best var þegar brandarinn var á milli þín og pabba og þú hlóst með tárin í augunum og pabbi gat ekki hætt heldur vegna þess að þinn hlátur var svo smitandi. Þú varst með svartan húmor sem við elskuðum öll. Hann var svo skemmtilega klikkaður, bara svona eins og þú sjálf. Honum fylgdi mikið blót sem pabbi hefur tuðað yfir í gegnum árin en samt sem áður erum við öll frekar mikið lík þér þegar kemur að því að blóta. Finnur hefur reynt að siða mig til síðan Fanndís kom til og það hefur aðeins batnað en það skiptir litlu máli þar sem hún var alltaf hjá þér.

Þú varst áhugamaður um íþróttir og stundum sátuð þið pabbi á sunnudögum og skiptuð á milli stöðva og horfðuð á handbolta hvaðanæva úr heiminum, á sloppunum eins og venjan var. Það skipti ekki máli hvaða íþrótt ég stundaði, þú mættir á nánast hvern einasta leik. Hafðir alltaf tröllatrú á mér og hvattir mig áfram með Notre Dame-lukkupeningnum.

Eftir að Fanndís fæddist þá varstu hennar uppáhald. Þið voruð svo skemmtilegar vinkonur sem máluðuð saman, bjugguð til ævintýraveröld undir borðinu eða bara tuðuðuð hvor í annarri. Hún var komin með þessa tröllatrú sem ég hafði líka, að þú gætir gert allt. Skipti ekki máli hvort það þyrfti að sauma eða þvo einhverja bletti í Eskihlíðinni þá vildi hún fara með allt til ömmu Jónínu, hún myndi redda hlutunum.

Ég sakna þín alveg ógurlega og ég veit ekki hvernig ég mun fara að í framtíðinni án þín, það verður ekkert eins. Krakkarnir og pabbi hugsa það sama, við hræðumst öll tilveruna án þín.

Fanndís er búin að spyrja mikið um þig í sinni barnslegu einlægni. Hún spurði mig af hverju amma Jónína þurfti eiginlega að fara til himna? Svar mitt var að amma Jónína væri besta amman og þess vegna þurfti Guð að fá hana til sín til að passa alla litlu englana sem eru hjá honum. Hún var mjög sátt við þetta og var bara nokkuð roggin af þér, henni ömmu sinni.

Ég elska þig ávallt.

Þín

Anna.

Elsku fallega mamma mín er farin og ég veit ekki hvenær eða hvort ég næ andanum á ný né hvernig ég mun eiga að geta haldið áfram. Mér líður eins og ég sé enn í bílnum með Klöru Dís á leiðinni til þín eins og við vorum morguninn sem þú fórst. Ég er enn þar, föst í tíma og allt sem hefur gerst síðan er ekki raunverulegt.Ég er týnd í þoku og veit ekki hvar skal stíga.

Þú varst besta vinkona mín og varst ávallt til staðar fyrir mig, sama hvað það var. Hlustaðir á mig án þess að dæma og ávallt leiðbeindir þú mér í rétta átt. Ég trúi enn ekki heppni minni að hafa fengið þig sem móður.Þú varst yndislegasta, fallegasta, hjartahreinasta, fyndnasta, duglegasta kona í heimi og langbesta amma sem nokkur getur óskað sér. Ég missi andann er ég hugsa til þess að Klara Dís mín fái ekki að njóta þín lengur, hún elskar þig meira en orð fá lýst. Hún hleypur um og kallar á þig og alltaf er hún sér strætó þá heyrist „amma Nína, strætó með Klöru Dís“ eða finnur til litina sína og kallar á þig því þú, mamma mín, varst óstöðvandi og gerðir allt með ömmustelpunum þínum sem tilbáðu þig. Klara Dís er enn of lítil til þess að skilja hvar þú ert en ég mun tala um þig við hana alla daga að eilifu, aldrei munt þú gleymast. Eigingirni mín vill ekki sleppa þér því við áttum svo mikið eftir og við erum öll svo týnd án þín því að þú hefur alltaf verið límið og sú sem er með svörin við öllu. Hver á að leiðbeina mér núna með allt sem ég leitaði til þín með. Ég hef ávallt elskað þig heitt og verið óhrædd við að segja þér það sem ég er þakklát fyrir. Ég mun ávallt elska þig óendanlega mikið. Fólk segir að sársaukinn minnki, sem ég á erfitt með að trúa því að í hvert sinn er ég reyni að draga andann þá er eins og einhver setjist á brjóstkassann á mér. Ég á erfitt með að horfa á fólk gleðjast og njóta lífsins því að mér finnst að lífið eigi að stöðvast því að mitt hefur stöðvast en ég veit að þú hefðir látið mig heyra það ef ég ríf mig ekki upp og brosi framan í heiminn því ég á yndislegan eiginmann sem þú dýrkaðir og litla krullhærða demantadís sem þarfnast mín, ég er að reyna það, elsku mamma mín. Ég mun reyna mitt besta að vera sú manneskja sem þú ólst mig upp sem, ég mun reyna að gera mitt besta í að ala upp hana Klöru Dís mína eins vel og þú ólst þín börn upp, ég mun reyna að gera mitt besta í að bjóða fjölskyldunni heim og eiga með þeim yndislegar stundir eins og þú lifðir fyrir. Ég mun reyna að gera mitt besta í að njóta lífsins eins og ég veit að þú vildir að við gerðum. Ég mun aldrei ná að komast með tærnar þar sem þú varst með hælana sem móðir en ég mun ávallt reyna mitt besta í að gera þig stolta og ég lofa að passa upp á alla.

Ég kveð þig, elsku fallega mamma mín, með fallegu barnabæninni sem þú varst að kenna henni Klöru Dís minni og kenndir mér. Ég elska þig alla leið til tunglsins og til baka, endalaust.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Þín elskandi dóttir,

Eva.

Nína systir og mín besta vinkona er horfin í einu vetfangi og enginn tími til að kveðja.

Þú sem varst límið í fjölskyldunni, mundir alla afmælisdaga og að hringja í fólk, hélst fjölskyldunni saman jafnt í gleði og í sorg.

Við systur höfum fylgst að gegnum lífið, búið í nálægð hvor við aðra. Fyrst í Háagerðinu (heima), síðan í Seljahverfinu þangað til Nína og Mummi ákváðu að gerast KR-ingar en Nína var nú alltaf gamall Víkingur enda hafði hún spilað handbolta með Víkingi, já þau fluttu vestur fyrir læk.

Síðan sameinuðumst við aftur í sveitinni í Merkurhrauni.

Við höfum brallað mikið saman, fórum oft í sumarbústaði bara tvær með krakkana og oft var mamma líka með í för.

Nína var mín litla systir svo að hennar yngsta barn Guðmundur er jafn gamall og mín elstu barnabörn.

Þau elskuðu hana svo mikið eins og öll mín barnabörn og þau þurftu mikið að heimsækja Nínu í sveitinni, hún var svo skemmtileg og góð.

Elsku Nína, mikið á ég eftir að sakna símtalanna okkar þar sem talað var um alla heima og geima; börnin, barnabörnin, lífið og allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman síðan við hættum að vinna.

Þú varst alltaf í góðu sambandi við börnin þín, þau voru þér líka allt, sem og litlu englarnir þínir Fanndís Hera og Klara Dís sem þú elskaðir að passa og vera með.

Síðasta daginn sem við vorum saman sýndir þú mér hvað þú hefðir keypt fyrir þær til að leika sér með í ömmu og afa húsi.

Elsku Nína, þakka þér fyrir að hafa verið mér svo góð systir og vinkona í gegnum lífið allt. Kæra fjölskylda; Mummi minn, Eva Dögg, Anna Úrsúla, Sólrún Helga, Mummi yngri og tengdasynir.

Guð gefi ykkur styrk til að takast á við mikinn missi og ylja ykkur við góðar minningar.

Blessuð sé minning þín, kæra Nína.

Þórný.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann er ég hugsa um hana Nínu frænku. Ég gæti örugglega skrifað heila bók um öll okkar ævintýri. Allar skemmtilegu ferðirnar sem farnar voru á gulu Vívunni, þar sem sungið var hástöfum „Ég langömmu á...“, „Bjarnarstaðarbeljurnar“ og síðan farið í „frúin í Hamborg“. Það var alltaf mikið fjör og endalaust gaman með Nínu.

Þegar Nína bjó í Teigaselinu var ég alltaf hjá henni þar sem stutt var á milli heimila okkar. Það voru ófá skiptin sem dansaður var „Fugladansinn“ tímunum saman og 45 snúninga platan eyddist næstum því upp. Þegar ég fór síðan að vinna á leikskóla og var þar að dansa „Fugladansinn“, hugsaði ég undantekningalaust til Nínu.

Stundirnar og ferðirnar okkar saman voru margar. Ekki má gleyma ferðinni út í Flatey en þar vorum við með öllu matarlausar í heila viku. Það var víst engin búð í eyjunni. Nína greip því til þess ráðs að stökkva um borð í ferjuna Baldur til þess að versla. Þar var reyndar einungis til sælgæti, svo að hún verslaði fangið fullt af því. Þá vildi ekki betur til en svo að þegar hún var í þann mund að borga lagði Baldur frá bryggju. Nína stökk af stað en ferjan fjarlægðist bryggjuna hratt. Úr varð að tveir hásetar tóku hvor undir sína höndina á henni og fleygðu henni upp á bryggju, með fangið fullt af sælgæti. Ferðinni var bjargað og við lifðum á sælgæti alla þessa viku. Á hverju kvöldi var síðan soginn einn biti af blokksúkkulaði áður en lagt var á stað inn í draumalandið. Þegar upp var staðið varð úr þessu hreint stórkostleg og með öllu ógleymanleg ferð.

En sterkasta minning mín er hversu gefandi Nína var. Alltaf tilbúin að hjálpa og hlusta á mann hvernig sem á stóð hjá henni. Það voru ófá skiptin sem hún gat komið með spaugilegu hliðina á málinu eða gaf manni góð ráð. Því er missirinn okkar mikill þegar einhver er hrifsaður frá manni svona snöggt og maður stendur eftir dofinn.

Elsku yndislega frænkan mín. Takk fyrir allar yndislegu minningarnar sem þú hefur gefið mér. Ekki má heldur gleyma því hvað þú hefur gefið börnunum mínum. Þau hugsa svo fallega til þín og sakna þín svo sárt, enda eiga þau ekkert nema yndislegar minningar um þig. Elsku Nína, við söknum þín óendanlega mikið.

Hugur okkar er hjá ykkur, elsku fjölskylda, því mikill er ykkar missir.

Bryndís og fjölskylda.

Ferjan hefur festar losað.

Farþegi er einn um borð.

Mér er ljúft af mætti veikum

mæla nokkur kveðjuorð.

Þakka fyrir hlýjan huga,

handtak þétt og gleðibrag,

þakkir fyrir þúsund hlátra,

þakkir fyrir liðinn dag.

(Jón Har.)

Hjartkær frænka og vinkona er kvödd. Lokin komu óvænt og snöggt, á einu augabragði er farsælu og góðu lífshlaupi lokið, allt-allt of fljótt.

Við stór kaflaskil í lífinu streyma minningar fram og margs er að minnast, jafn samtvinnað og líf okkar hefur verið alla ævi. Allar minningarnar, sem raðast eins og perlur á bandi. Á þessu perlubandi minninganna skína sumar perlur skærar en aðrar. Þar skín perlan hennar Nínu einna skærast og fallegast. Nína frænka sem var svo gegnheil og traust, svo hress og kát. Já, minningar eru margar og margskonar, bæði í gleði og sorg. Aldrei var haldið upp á viðburði í fjölskyldunni án þess að við værum þar saman. Hún gerði mikið til að styrkja böndin í stórfjölskyldunni, alla afmælisdaga mundi hún og sendi kveðju og ef henni fannst hafa liðið of langt á milli símtala hringdi hún og byrjaði alltaf á að segja: „Halló, halló, þetta er tilkynningarskyldan úr Vesturbænum, er ekki allt í góðu?“ Þá var tryggð hennar og elskulegheit við móður mína ótrúleg. Vikulega fór hún í heimsókn til hennar í Sóltún og saman áttu þær góðar stundir þar, fengu sér kaffi og sérrí og hlógu mikið saman.

Að leiðarlokum er því margs að minnast og margt að þakka. Ég kveð kæra frænku mína og bið henni blessunar á leið til nýrra heimkynna. Ég sakna hennar svo sárt. Samúðarkveðjur sendi ég allri stórfjölskyldu Nínu. Hún elskaði ykkur öll svo mikið. Hugur minn og hjarta er hjá ykkur og ég samhryggist innilega.

Edda Árnadóttir.

Harmafregn. Það orð kom í hugann þegar fregnir bárust af andláti Nínu fænku. Áfallið er stórt og harmurinn mikill því að Nína átti stóran sess í hjörtum okkar allt frá því að við munum fyrst eftir okkur.

Hún gætti okkar þegar við vorum börn og hjálpaði til við heimilisstörf. Oft hefur verið hent gaman að því í gegnum tíðina hversu iðin hún var við þrif og þvotta. Eins og góðar minningar sem verða að gamansögum lífsins urðu sögurnar af Nínu og þrifunum stór partur af bernskuminningum okkar systra. Sögurnar af því þegar við vorum teknar úr fötunum fyrir kvöldmat og fötin fóru hrein út á snúru um leið og kvöldverðurinn var borinn á borð. Sagan af því þegar hún makaði skyri um allt andlit barnsins til þess að taka af því ljósmynd, sem er uppáhaldsbarnaljósmynd fullorðinnar konu í dag, sem einu sinni var þetta barn. Sagan af því þegar hún sló garðinn rifbeinsbrotin og margar, margar fleiri sögur sem ljúft er að ylja sér við og eiga það flestar sameiginlegt að kalla fram bros. Þá er okkur minnisstætt hve mikið við dáðumst að þessari flottu frænku okkar sem kunni svo marga enska dægurlagatexta og söng hún af hjartans lyst með útvarpinu.

Nína var glaðvær, hrókur alls fagnaðar á mannamótum og hafði sannan áhuga á sínu fólki. Fólki sem stóð henni nær sem fjær. Hún mundi alla afmælisdaga og ávallt gladdi það að fá falleg skilaboð eða hringingu á afmælisdegi. Segja má að hún hafi tekið að sér hlutverk ættmóður og sinnti því vel. Hún hvatti til ættarmóta, heimsótti ættingja á spítala og fylgdist með heilsu þeirra og líðan. En fyrst og fremst var hún Nína frænka góð manneskja sem ekkert aumt mátti sjá og vildi öllum vel.

Hún var mikil fjölskyldumanneskja, bjó börnum sínum fallegt og gott heimili ásamt Mumma sínum. Og litlu ömmustelpurnar hennar voru henni afar kærar. Andlitið ljómaði allt þegar hún talaði um þær eða hélt á þeim í fanginu og ástin var gagnkvæm, ástin sem tengir ömmu og ömmubörnin er falleg og hlý líkt og sólarlag á vori.

Þessi fátæklegu orð sem rituð eru til þess að heiðra minningu Nínu ná á engan hátt að lýsa því hversu væn hún var og hve djúp spor hennar eru í öllu okkar lífi.

Elsku Mummi, Eva, Anna, Sólrún og Mummi yngri, tengdabörn og barnabörn, missir ykkar er mikill og harmurinn stór. Um leið og við þökkum samfylgdina sendum við ykkur öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi tár þeirra sem gráta Jónínu Jónsdóttur verða að hafi minninga.

Aldrei gleymd, ávallt geymd

þín minning ætíð lifir.

Berglind, Jóhanna, Sigurveig og fjölskyldur.

Sannir vinir eru með því dýrmætasta sem maður getur eignast á lífsleiðinni og með þeim býrðu til minningabrot sem bæði ylja sálinni og geta lýst upp svartasta myrkur. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga slíkan vin í Evu Dögg, elstu dóttur Jónínu sem yfirgaf jarðvist þessa langt fyrir aldur fram á fallegum maídegi. Við Eva Dögg höfum haldist í hendur í gegnum lífið frá því á fyrsta ári okkar þegar við byrjuðum saman í leikskóla. Ég og Eva urðum í raun eins og viðbót við fjölskyldu hvor annarrar. Þetta var góður tími og hugurinn reikar óneitanlega til hans við hið sviplega fráfall Jónínu. Tárin leka niður kinnarnar er ég hugsa til og syrgi hana Nínu, góðu yndislegu Nínu. Hún tók alltaf á móti mér með hlýjum faðmi og fallegu brosi og hvernig hún með natni sinni hafði hemil á okkur vinkonunum í öllum okkar uppátækjum er mér með öllu óskiljanlegt. Nína var þannig kona að manni leið ávallt vel í návist hennar, hún gaf af sér og hlúði að fólkinu í kringum sig. Einhvern veginn fannst mér á óútskýranlegan hátt Nína gera allt betra, meira að segja þessir litlu hlutir sem virðast í fyrstu vera hversdagslegir nú en voru stórmál í barnæsku. Þannig fannst mér t.a.m. ristaða brauðið alltaf betra þegar hún smurði og setti svo ostinn á. Þá kemur einnig upp í hugann að Nína ók eitt sinn um á bifreið með hringlaga rúðu, sem mér fannst stórmerkilegt sem barni, nánast yfirnáttúrulegt. Nína sá líka hvað einfaldleikinn getur verið gefandi og fallegur, öðrum kosti hefði hún eflaust ekki leyft okkur Evu Dögg að gista helgi eftir helgi undir borðstofuborðinu sínu, að búa til okkar ævintýraland.

Frá því að fregnin um andlát Nínu barst mér hefur ein minning verið mér einkar kær og vaxið með degi hverjum. Það var þegar mér veittist sá heiður að fara með Kaplaskjólsfjölskyldunni í sumarbústað í Munaðarnesi og eiga með þeim góðar ánægjustundir. Á heimleiðinni kenndi Nína mér og Evu Dögg textann við lagið Maístjarnan eftir Nóbelsskáldið, sem við sungum linnulaust og hástöfum alla leiðina heim með Nínu skælbrosandi í framsætinu. Engin ferð er nefnilega of löng með góðum vinum.

Elsku hjartans Eva Dögg, Anna, Sóla, Mummi, Guðmundur og fjölskyldur, það eru erfiðir tímar enda er missir ykkar mikill, en minningin um einstaka konu mun ávallt lifa. Hvíl í friði, mín kæra Nína, og hafðu þakkir fyrir allt.

Elín Björg Harðardóttir.

Elsku Nína mín, ég hreinlega trúi þessu ekki að þú sért farin, áttir svo margt eftir að dúllast með litlu sætu dúllurnar þínar Fanndísi Heru og Klöru Dís.

Mínar yndislegu minningar um hana Nínu mína eru bíltúrar austur á firði á gulu Vífunni (yellow submarine) og Munaðarnesið fræga. Þar sem þú tókst okkur Dísu systur og Jónsa frænda gjarnan með, þar var farið í leiki og spilað fram á kvöld og haft gaman.

Kaffisoparnir í bústaðnum ykkar þar sem þið hjónakornin dunduðuð ykkur í gróðrinum.

Elskaði að horfa á handboltann með þér, elsku besta Nína mín, þegar hún Anna var að spila því spennan var svo mikil og oft fékk maður höndina þína og var haldið fast í því spennan var svo mikil.

Á eftir að sakna þín, elsku Nína, því þú gerðir lífið svo miklu skemmtilegra.

Elsku Mummi, Eva Dögg, Anna Úrsúla, Sólrún Helga, Guðmundur Jóhann og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Katrín Björk.

Ég er svo lánsöm að hafa fengið að vera heimalningur hjá frábæru fjölskyldunni á Kapló frá fyrsta skóladegi þegar ég og Anna Úrsúla lentum saman í bekk í Grandaskóla. Á Kapló var mér alltaf tekið opnum örmum og þar var aldrei lognmolla. Það var alltaf ævintýri að koma á Kapló þar sem voru fjögur fjörug og skemmtileg börn en þrátt fyrir fjölmennt heimili þá var ég alltaf velkomin að gista og það voru ófáar helgarnar sem ég fékk að gista á Kapló og þá dekraði Nína við okkur alltaf með „huggó puggó kvöldi“. Uppskrift að huggó puggó kvöldi var góð bíómynd og svo kom Nína inn í herbergi með bakka fullan af kræsingum fyrir okkur dekurrófurnar. Nína kenndi okkur ógrynni af söngvum og leikjum og ósjaldan sungum við saman „Ó, mamma gef mér rós í hárið á mér því tveir litlir strákar eru skotnir í mér“ og afmælisveislurnar á Kapló voru einstakar þar sem meðal annars var farið í leikinn Bimm bamm bimm bamm, látbragðsleiki, sungið og dansað, allt undir dyggri stjórn Nínu. Ég man svo vel eftir því að eitt árið ákvað ég að mér fyndist súkkulaðikökur ekki góðar, Nína hlustaði á rök mín gegn súkkulaðikökum með miklum áhuga, tók þessum dyntum í mér með bros á vör og bakaði sérstaka rjómatertu fyrir mig þegar Anna mín hélt upp á afmælið sitt. Nína hafði alveg sérstakt lag á því að tala við börn án þess að setja sig á háan hest. Það voru mörg málefni brotin til mergjar við eldhúsborðið á Kapló þar sem Nína hlustaði alltaf af mikilli athygli á það sem við höfðum að segja, aðstoðaði okkur að komast til botns í málunum og lét manni alltaf líða sem miklum jafningja.

Elsku Mummi, Eva Dögg, Anna, Sóla, Mummi, Einar, Finnur, Fanndís Hera og Klara Dís. Hugur minn er hjá ykkur og minning um skemmtilega, uppátækjasama, hlýja og dásamlega konu lifir. Það verður svo sannarlega farið í Bimm bamm bimm bamm í komandi barnaafmælum hjá okkur vinunum.

Ykkar vinkona,

Eva Margrét.

Kær vinkona látin, þvílíkur missir, þvílíkar sorgarfréttir.

Hversu stór getur manneskja verið? Nína var stór í allri merkingu þess orðs. Hávaxin og glæsileg, mikill persónuleiki með óendanlega stórt og gefandi hjarta. Hún var skemmtileg, hjartahlý, listræn, uppátækjasöm og óútreiknanleg. Hún var límið í hópnum.

Við „stelpurnar“ erum þakklátar fyrir að hafa átt samleið með Nínu í yfir 40 ár og brallað saman margt og mikið. Við erum alltaf „stelpurnar“ þrátt fyrir að vera allar komnar á sjötugsaldurinn. Við komum saman með börnin okkar við ýmis tækifæri þegar þau voru yngri og höfum fylgst með í gegnum árin hvernig þeim hefur farnast. Nína var mikil fjölskyldukona; Mummi og krakkarnir áttu hug hennar allan og litlu stelpurnar tvær voru hennar yndi.

Seinni árin höfðum við meiri tíma fyrir okkur sjálfar og fórum reglulega í húsmæðraorlof, bæði innanlands og utan. Það var hlegið, sungið, spilað, grátið, rifist og lífsins gátan leyst. Nína var stíf á sínum skoðunum og stóð fast á sínu varðandi menn og málefni. Óendanlega skemmtilegt og sem endranær var Nína hrókur alls fagnaðar í þessum ferðum. Nína var alltaf komin fyrst á fætur, búin að laga kaffi, lét renna í heita potta og fór ofan í til að athuga hvort þetta væri okkur hinum boðlegt, nuddaði og naglalakkaði, kom með litla pakka handa hverri og einni, var sérfræðingurinn okkar ásamt Sellu að grilla, sá spaugilegar hliðar á öllu. Þegar ein af okkur flutti úr bænum þá hélt Nína dagbók um alla saumaklúbba og samverustundir, skreytti með myndum og sendi á hópinn, allar skyldu vera með þó það væri ekki nema í anda.

Nú er komið að leiðarlokum – alltof fljótt – og Nínu verður saknað óendanlega.

Elsku Mummi stóri og Mummi litli, Eva Dögg, Anna Úrsúla, Sóla, ömmustelpurnar litlu og tengdasynirnir – megið þið öðlast styrk á þessari erfiðu stundu.

Hvíl í friði, biðjum góðan Guð og englana að vaka yfir henni.

Kveðjum með orðunum hennar og Doris, sem hún greip mjög oft til: „Que sera sera...“.

Saumaklúbburinn Flókó;

Guðbjörg Sesselja (Sella), Ragnheiður,

Sigurveig Salvör

(Hía), Soffía, Guðrún

og makar.

Kæra Nína, síðast þegar við „gömlurnar“ skrifuðum þér og notuðum þetta orð var þegar við óskuðum þér til hamingju með 65 ára afmælið þitt, en nú er skarð fyrir skildi. Sumar okkar hafa þekkt þig frá því í Breiðagerðisskóla en aðrar frá því í Réttó og hefur vinskapur okkar haldist öll þessi ár.

Þegar við hittumst allar síðast fyrir rúmri viku varst þú svo kát og hress og lífsglöð eins og alltaf, þannig að tíðindin um andlát þitt komu eins og reiðarslag og eru okkur áminning um að ekkert er öruggt í þessum heimi, ekki einu sinni næsti dagur.

Gömlurnar notuðum við ekki vegna þess að við værum gamlar í okkar huga, heldur vegna þess hversu vinskapur okkar er gamall. Svokallaðir saumaklúbbar héldu vinskapnum gangandi og var þá hist yfir „fermingarhlaðborði“ og lítið saumað heldur rifjaðar upp gamlar stundir og skipst á upplýsingum um hvað væri í gangi í okkar persónulega lífi. Þú varst hrókur alls fagnaðar og var ómetanlegt að hafa þig þegar rifjaðar voru upp gamlar stundir því minni þitt var með eindæmum gott og frásagnarhæfileikar skemmtilegir.

Seinni árin vorum við hættar að nenna að baka og missa svefn af öllu sykurátinu og kaffidrykkjunni heldur fórum í staðinn út að borða, á kaffihús eða jafnvel í bíó.

Undanfarin 15 ár höfum við farið í nokkrar borgarferðir til útlanda saman og styrktu þessar ferðir vinskapinn enn frekar. Alltaf gaman, ekkert vesen og allir sáttir.

Þín verður sárt saknað og mikið vantar þegar þú ert ekki með lengur, elsku Nína, en minningin um þig mun lifa með okkur.

Hugur okkar er hjá ykkur öllum. Mummi, Eva Dögg, Anna Úrsúla, Sólrún og Mummi yngri, að ógleymdum litlu ömmustelpunum, við vottum ykkur samúð vegna ykkar mikla missis.

„Gömlurnar“

Erna Björk, Helga,

Ingibjörg, Marta,

Svava og Vilborg.

Engan hefði grunað það þegar Jónína Jónsdóttir kvaddi samstarfsfólk sitt með virktum í nóvember sl. þegar hún fór á eftirlaun eftir 46 ára starf hjá hinu opinbera, að tæpum sex mánuðum síðar myndum við fá þær sorgarfréttir að hún væri öll.

Í kaffisamsæti sem haldið var henni til heiðurs lék hún á als oddi, rifjaði upp gamlar sögur og, með sínum hressandi og beitta talanda, sagði hún frá ýmsu skemmtilegu. Þar kvöddum við lífsglaðan samstarfsfélaga sem virtist vera staðráðinn í því að taka starf eftirlaunaþegans með trompi.

Jónína hóf störf hjá Ríkisendurskoðun árið 1970, fluttist til Ríkistollstjóra árið 1990 og síðar til Tollstjóra árið 2000. Megnið af starfsferlinum starfaði hún við endurskoðun og var einn af reynslumestu og nákvæmustu endurskoðendum á sviði tollendurskoðunar sem völ var á. Hún var þeirri náttúru gædd, eflaust sökum keppnisskapsins sem virtist hafa verið henni í blóð borið, að geta tekist á við stór og erfið verkefni sem aðrir þorðu lítt að hreyfa við, ekki síst ef þeir sáu fram á það að verkefnið útheimti bæði þrautseigju og langlundargeð. Sökum lundarfarsins og sterks vinnusiðferðis sökkti hún sér oft ofan í mjög flókin úrlausnarefni og lét ekki staðar numið fyrr en rétt niðurstaða fékkst. Hún var samstarfsfólki sínu haukur í horni þegar kom að þekkingu á starfinu og fyrir henni var borin mikil virðing enda framúrskarandi starfsmaður á allan hátt.

Hún var hress og skemmtilegur vinnufélagi sem gat haft sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, en alltaf var hún málefnaleg og stutt í glens og grín. Íþróttir voru hugðarefni hennar enda íþróttakona frá blautu barnsbeini. Hún var viðræðugóð og drífandi félagi sem fór ekki manngreinarálit og þar af leiðandi átti hún sér góðan hóp samstarfsfólks sem naut þess að eiga í samskiptum við hana.

Þegar sorgin ber að dyrum, eru það minningarnar sem geta dregið mann áfram og við sem kynnumst Jónínu í gegnum starf hennar eigum hafsjó af góðum minningum um skemmtilega og klára konu sem mikill missir er að og hennar verður sárt saknað.

Guðmundi, börnunum og öðrum aðstandendum viljum við senda okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd samstarfsfólks hjá Tollstjóra,

Guðbjörn, Matthías,

Málfríður og Sveinn.