Frú Jónína Erna Guðlaugsdóttir húsmóðir fæddist í Reykjavík 15. nóvember 1933. Hún lést 20. maí 2017 á Hjúkrunarheimilinu Ísafold.

Hún var dóttir hjónanna Guðlaugs A. Magnússonar gullsmiðs, f. 15. desember 1902 í Svínaskógi á Fellsströnd, d. 13. nóvember 1953, og Maríu Hermannsdóttur húsmóður, f. 4. september 1905 á Ketilseyri við Dýrafjörð, d. 15. maí 2001. Bræður Jónínu voru Reynir Guðlaugsson, 1930-2001, Óttar Hermann Guðlaugsson, 1931-1991, og Magnús Haukur Guðlaugsson, 1943-2013.

Jónína giftist eftirlifandi eiginmanni sínum Ágústi Kristmanns forstjóra, 15. júní 1952. Ágúst er fæddur í Vestmannaeyjum 17. febrúar 1931, sonur hjónanna Inga Kristmanns, 1905-1974, og Sigríðar Þorgilsdóttur, 1906-1991. Börn Jónínu og Ágústs eru: 1) Ingi Kristmanns f. 1951 giftur Hrefnu Þórarinsdóttur, f. 1947. Börn Inga eru Jónína gift Ara Gunnarssyni og Ágúst giftur Maríu Benediktsdóttur. Börn Hrefnu og fósturbörn Inga eru Elsa Blöndal gift í Bandaríkjunum með þrjú börn, Birna Blöndal býr einnig í Bandaríkjunum, á einn son, og Gylfi Blöndal býr í Reykjavík með unnustu sinni, eiga þau eitt barn. 2) María Kristmanns, f. 1954. Börn Hinrik Jósafat, giftur Maríu Vertikova, og Ágúst Ingi. 3) Guðlaugur Kristmanns, f. 1957 giftur Evu Garðarsdóttur, f. 1957. Sonur Guðlaugs, Pétur, giftur Áslaugu Hólmgeirsdóttur og María Cristina dóttir Guðlaugs og Evu. 4) Sigríður Kristmanns, f. 1958. Börn Haraldur Ingi, Kristján Ernir, unnusta Lea Nyvang, Rögnvaldur Óðinn og Erna Jóna. Barnabarnabörnin eru níu; Svavar Ingi, Lena Margrét, Ragna Mist Jónínubörn, Ásta Marý, Ingi og Sara Dögg Ágústsbörn, Alexander Jósafat Hinriksbarn, Guðlaugur Geir og Ríkharður Pétursbörn.

Jónína fæddist og ólst upp í hjarta Reykjavíkur. Hún fæddist á Hverfisgötunni, fjölskyldan flutti síðar á Guðrúnargötuna og þaðan á Fjölnisveg 10, sem var griðastaður fyrir ættingja og vini. Þangað kom ungur Verzlunarskólanemi, skólabróðir Óttars bróður hennar, og stal hjarta gullfallegrar og ungrar einkadótturinnar á heimilinu. Jónína og Ágúst hófu sinn búskap á Fjölnisveginum, þar fæddust börnin Ingi, María og Guðlaugur, þegar fjölskyldan stækkaði fluttu ungu hjónin á Kleppsveg 46, þar fæddist Sigríður. Síðar flutti fjölskyldan í Hvassaleiti 45, þar sem þau bjuggu í 22 ár. Árið 1983 fluttu þau síðan í Eskiholt 10, Garðabæ, þar sem þau bjuggu þar til fór að líða á ævikvöldið, þá fluttu þau í Kirkjulund 12, Garðabæ, en af heilsufarsástæðum var viðdvölin þar stutt. Ágúst hefur dvalið á Hjúkrunarheimilinu Ísafold sl. tvö ár, eftir langan aðskilnað hlotnaðist þeim sú blessun að sameinast á ný á Ísafold, þar dvöldu þau saman í tvær vikur áður en hún lést.

Útför frú Jónínu Ernu fer fram frá Garðakirkju, Álftanesi, í dag, 29. maí 2017, klukkan 15.

Elsku Jónína frænka er nú farin þangað sem við förum öll að lokum. Og þótt slík ferð sé hluti af lífinu þá eru ferðalokin alltaf jafnóvænt og skilja eftir sig söknuð. Ég mun sakna mjög Jónínu frænku, t.d. í heimsókn hjá Jónu móðurömmu Kjartansdóttur, en þær systradætur héldu nánu sambandi í gegnum áratugina af þeirri fjölskyldurækni sem einkennir enn tuttugustu aldar Íslendinga – ekki síst þá sem mótuðu menningu gamla Íslands og gömlu Reykjavíkur.

Enda var Jónína frænka Reykjavíkurdama fram í fingurgóma, háttvís og menntuð af þeirri hámenningu sem reykvísk borgarastétt ræktaði sérstaklega vel á fyrri hluta og um miðja 20. öld, ekki síst eftir sjálfstæðið 1944. Íslensk iðn- og borgaramenning fléttaðist, ásamt heimsmenningunni, inn í athafnasemi fjölskyldunnar, sem taldi frumkvöðla á mörgum sviðum, bæði í íslenskri hönnun, iðnaði og verslun, og allt hafði þetta áhrif á Jónínu frænku, ekki síst í gegnum Gull- og silfursmiðjuna Ernu, sem var stofnuð af föður Jónínu, Guðlaugi A. Magnússyni og heildverslunina Snyrtivörur hf., stofnuð af eiginmanni Jónínu, Ágústi Kristmanns.

Heilir fjórir ættliðir hafa fært áfram til dagsins í dag fornt handverk Guðlaugs A. Magnússonar, föður Jónínu frænku og Gull- og silfursmiðjunnar Ernu, sem hann stofnaði snemma á síðustu öld.

Gull- og silfursmiðjan Erna er nú rekin undir forystu Ásgeirs frænda Reynissonar, bróðursonar Jónínu frænku, en Erna framleiddi fyrsta íslenska silfurborðbúnaðinn í níu útgáfum, m.a. Reykjavíkurmynstrið, Renaissance- og Vormynstrið, auk íslensku jólaskeiðarinnar úr silfri, barnaskeiðar; Grettisbeltið, Njáluarmbandið, Þríkrossinn, Íslandsskeiðina og óteljandi aðra sígilda, íslenska gull- og silfurmuni.

Ágúst Kristmanns eða Gústi frændi, eiginmaður Jónínu frænku, hóf síðan innflutning á erlendum snyrti- og lúxusvörum í gegnum heildsöluna Snyrtivörur hf. sem hann stofnaði – en Gulli frændi – eða Guðlaugur Kristmanns, sonur Jónínu og Gústa, rekur nú eitt stærsta fyrirtæki landsins á því sviði, Artica hf.

Og þannig lágu margir þræðir í menningu og atvinnulífi landsins til Jónínu frænku, sem ólst upp á þeim tíma sem íslenskt þéttbýli þróaðist úr landbúnaðarsamfélagi til borgaramenningar og Reykjavík óx úr bæ í borg.

Kæru Gústi, Ingi, Maja, Sigga og Gulli – auk barna ykkar og stórfjölskyldu: Guð gefi þér og ykkur styrk við missi Jónínu þinnar, móður ykkar, ömmu og frænku. Bless elsku Jónína frænka, ég á eftir að sakna þín, Guð gefi þér góða ferð.

Ragnar Halldórsson.