Skemmtilegur Leikarinn David Duchovny.
Skemmtilegur Leikarinn David Duchovny. — AFP
Leikarinn David Duchovny er hvað þekktastur fyrir leik sinn í tveimur þáttaröðum. Annars vegar sem Fox Mulder í hinum ódauðlegu X-Files og hins vegar sem hjartahlýi glaumgosinn Hank Moody í Californication.

Leikarinn David Duchovny er hvað þekktastur fyrir leik sinn í tveimur þáttaröðum. Annars vegar sem Fox Mulder í hinum ódauðlegu X-Files og hins vegar sem hjartahlýi glaumgosinn Hank Moody í Californication. Nú hef ég lengi ætlað mér að horfa á X-Files og mun ég gera það við fyrsta tækifæri en Californication er minn uppáhaldssjónvarpsþáttur. Hann er alls ekki allra, enda eru þættirnir ansi óviðeigandi á tíðum og fjalla um málefni sem einhverjum gæti blöskrað. Ég myndi t.d. aldrei horfa á Californication með móður minni, sú tilhugsun ein og sér lætur mér líða kjánalega. Á síðustu árum hefur Duchovny verið að snúa sér að öðru. Hann skrifaði m.a. bókina Holy Cow, sem ég hreinlega varð að lesa, þar sem ég varð svolítið skotinn í manninum eftir að hafa horft á Californication. Holy Cow fjallar um kú sem á heima í Bandaríkjunum og ákveður að flýja til Indlands þegar hún kemst að því hvernig hamborgarar verða til. Skyldi þig vanta eina létta og ljúfa á náttborðið eru margir verri kostir en Heilög kýr. Ég naut þess sérstaklega að lesa kaflann um gelgjuskeið kýrinnar, sem var áhugavert í meira lagi.

Jóhann Ingi Hafþórsson