[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýski bikarinn Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar hennar hjá Wolfsburg urðu þýskir bikarmeistarar í knattspyrnu kvenna eftir 2:1-sigur liðsins gegn Sand í úrslitaleik bikarkeppninnar í Köln á laugardaginn.

Þýski bikarinn

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar hennar hjá Wolfsburg urðu þýskir bikarmeistarar í knattspyrnu kvenna eftir 2:1-sigur liðsins gegn Sand í úrslitaleik bikarkeppninnar í Köln á laugardaginn. Sara Björk varð þar af leiðandi fyrsta íslenska knattspyrnukonan til þess að verða þýskur bikarmeistari.

Sara Björk var í byrjunarliði Wolfsburg, en henni var vísað af velli með rauðu spjaldi í uppbótartíma leiksins.

„Þetta var hörkuleikur eins og eiginlega allir leikir hafa verið á tímabilinu. Við gerðum jafntefli við þær í fyrri leik liðanna í deildinni og unnum svo öruggan sigur í seinni leiknum. Það er hins vegar alltaf þannig að þegar út í bikarúrslit er komið getur þú ekki bókað sigur þó að lið þitt sé sterkara á papprírnum. Við komumst í 2:0 og ég hélt að þetta væri komið hjá okkur, en þá verðum við einum leikmanni færi og fáum svo mark á okkur strax í kjölfarið. Mér er svo vísað af velli í uppbótartíma og við spilum tveimur færri í smástund. Við náðum sem betur fer að halda þetta út og takast ætlunarverk okkar,“ sagði Sara Björk um þróun leiksins í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Fyrra gula spjaldið var fyrir brot sem ég framdi ekki og seinna gula spjaldið var fyrir einhvern pirring af minni hálfu. Ég held að dómarinn hafi ekki vitað að ég væri á spjaldi og mér finnst ólíklegt að hún hefði spjaldað mig ef hún hefði vitað það. Þetta skiptir hins vegar engu máli fyrst við unnum og urðum bikarmeistarar,“ sagði Sara Björk um rauða spjaldið.

„Það var vel fagnað í gærkvöldi og kærkomið að ná að sleppa okkur aðeins eftir langt og strangt keppnistímabil. Wolfsburg er stórt félag og við stefndum að þessu í upphafi keppnistímabilsins, en það voru vonbrigði að komast ekki lengra í Meistaradeild Evrópu. Við tökum bara þrennuna á næstu leiktíð,“ sagði Sara Björk sem var í rútu á leiðinni til Wolfsburg frá Köln þegar Morgunblaðið ræddi við hana.

Sara Björk gekk til liðs við Wolfsburg frá Rosengård fyrir þessa leiktíð og hún sér svo sannarlega ekki eftir því. Sara Björk telur sig hafa bætt sig á sínu fyrsta keppnistímabili og hún er sátt við frammistöðu sína og árangur liðsins.

„Það eru fleiri krefjandi leikir í Þýskalandi en í Svíþjóð og ég þurfti á því að halda að fá nýja og meiri áskorun fyrir þessa leiktíð. Mér finnst ég hafa bætt mig mikið jafnt og þétt á þessu keppnistímabili, allt í senn fótboltalega, líkamlega og andlega. Ég held að ég hafi aldrei verið í jafn góðu líkamlegu og andlegu formi og núna. Við náðum okkar markmiðum hér heima fyrir og ætlum svo að gera enn betur í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Nú einbeiti ég mér að því að standa mig vel með íslenska landsliðinu og ég er mjög bjartsýn á að við getum gert góða hluti í Hollandi í sumar,“ sagði Sara Björk um tímabilið og framhaldið.