[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Á þeim 20 árum sem Stuðlar, meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga, hafa starfað hafa 813 börn og ungmenni notið þar meðferðar. Að auki hafa 1.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Á þeim 20 árum sem Stuðlar, meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga, hafa starfað hafa 813 börn og ungmenni notið þar meðferðar. Að auki hafa 1.875 börn vistast þar á lokaðri deild, svokallaðri neyðarvistun sem er skammtímaúrræði. Ástæðurnar eru margvíslegar, en fjölþættur vandi þar sem saman koma neysla og ýmis áhættuhegðun er sú algengasta. „Hver sem ástæðan kann að vera fyrir meðferðinni eiga þessir krakkar margt sameiginlegt,“ segir Funi Sigurðsson, forstöðumaður Stuðla. „Yfirleitt hafa þau þrifist illa í skólakerfinu og alls staðar er einhverskonar fjölskylduvandi, misalvarlegur. Þessir krakkar búa allir yfir styrkleikum og það er okkar verkefni að hjálpa þeim að finna þá.“

Á föstudaginn voru 20 ár frá því að Stuðlar tóku til starfa og á þeim tíma hefur ýmislegt breyst í meðferð ungmenna í vanda, að sögn Funa. Hegðunarvandi sem áður þótti ástæða meðferðar á Stuðlum er nú oft meðhöndlaður með MST-fjölkerfameðferðinni sem er yfirleitt veitt á heimili viðkomandi ungmennis. Vegna þess hefur þeim fækkað sem koma í meðferð á Stuðla. „Meðferðin er meira á grundvelli samvinnu nú en áður. Tengingin við samfélagið er meiri og við leggjum áherslu á að krakkarnir séu virkir úti í samfélaginu og tengist t.d. vinnustað eða skóla á meðan þeir eru hjá okkur,“ segir Funi.

Neysla, afbrot og útigangur

Hann segir að vandi ungmennanna sem nú komi á Stuðla sé miklu alvarlegri og flóknari en áður var. „Þetta geta verið flókin mál; neysla, afbrot, útigangur, slæmur félagsskapur og slæleg skólaganga. Svo er neyslan miklu alvarlegri og meiri en hún var áður, þau eru í harðari efnum og mörg í daglegri neyslu.“

Funi segir að nálgast þurfi fíknivanda út frá mörgum hliðum. „Við reynum að búa til tilveru fyrir þau sem er annar valmöguleiki við það sem þau eru í núna. Sýna þeim að það er til eitthvað jákvætt og gott sem tengist ekki neyslunni.“

Auk meðferðardeildar er lokuð deild á Stuðlum, svokölluð neyðarvistun, þar sem hámarksdvöl er 14 dagar. „Þar er oft verið að finna út úr því hver næstu skref í þeirra lífi ættu að vera. Í sumum tilvikum eru þau vistuð þar til að vernda þau og samfélagið fyrir hegðun þeirra,“ segir Funi.

Ekki hægt að hjálpa öllum

Undanfarið ár hefur 2-3 mánaða bið verið eftir meðferð á Stuðlum. Funi segir að slík bið geti haft slæm áhrif, ef þörfin er brýn er ungmennið neyðarvistað tímabundið.

Hann segir árangur meðferðarinnar á Stuðlum ekki hafa verið mældan kerfisbundið, en það standi núna til. „Það eina sem við höfum til að byggja á er tilfinning. Við heyrum oft í krökkunum mörgum árum eftir að þau hafa verið hjá okkur. Einn hafði t.d. samband við okkur fyrir stuttu og sagði að þó hann hefði ekki áttað sig á því á sínum tíma, þá gerði hann sér grein fyrir því núna hvað við hefðum verið að reyna að gera fyrir hann.“ Getið þið hjálpað öllum? „Nei. Mörgum hjálpum við, hjá öðrum tekst að planta einhverjum fræjum sem við vonum að verði að einhverju. En stundum tekst þetta alls ekki; það er erfitt að horfa upp á.“