Algengasti aldur þeirra sem koma á meðferðardeild Stuðla er 15 ár, þangað koma börn allt niður í 13 ára og hlutfall þeirra sem eru á 18. ári hefur hækkað.

Algengasti aldur þeirra sem koma á meðferðardeild Stuðla er 15 ár, þangað koma börn allt niður í 13 ára og hlutfall þeirra sem eru á 18. ári hefur hækkað. Yfirleitt eru þar sex ungmenni til meðferðar í senn, meðalmeðferðartími er átta vikur, en getur orðið allt að 12 vikur. Strákar eru um 70% þeirra sem njóta meðferðarinnar og segir Funi kynjamun á vanda ungmennanna.

„Staða stelpnanna í fíkniefnaheiminum er oft önnur en hjá strákunum. Þær eru í miklu meiri hættu á að vera misnotaðar til að fjármagna neysluna, strákarnir eru meira í afbrotum. Það er sárt að horfa upp á stúlkur sem koma hingað og eru undir hælnum á fullorðnum einstaklingum í fíkniefnaheiminum. Það getur verið mjög flókið viðureignar; við reynum að fá barnið til að átta sig á skaðsemi slíkra samskipta. Oft þurfum við að fá lögreglu í lið með okkur og stundum þarf að setja nálgunarbann á þessa einstaklinga. Það eru vissulega dæmi um drengi í þessari stöðu, en þetta á fyrst og fremst við um stúlkur.“