— Morgunblaðið/RAX
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR), segir það kunna að verða skoðað hvort Hegningarhúsið henti undir nýjan Landsrétt.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR), segir það kunna að verða skoðað hvort Hegningarhúsið henti undir nýjan Landsrétt.

Landsréttur mun taka til starfa um næstu áramót í bráðabirgðahúsnæði í Kópavogi. Þurfti lagabreytingu til að rétturinn gæti starfað utan Reykjavíkur.

Halldóra fjallaði um Hegningarhúsið á Skólavörðustíg í fyrirlestri í Ráðhúsinu nýverið. Þar sagði hún Hegningarhúsið bjóða upp á mikil tækifæri. Til skoðunar væri að efna til einhvers konar hugmyndasamkeppni um notkun hússins. Velti hún því svo upp hvort húsið gæti hentað fyrir Landsrétt. Þá að því gefnu að byggt yrði við húsið.

Nú væri unnið við lagnir og inntök á húsinu en á næsta ári yrði ytra byrðið tekið í gegn.

Tækifæri í bakgarðinum

Halldóra segir aðspurð að þetta sé aðeins einn af mörgum möguleikum sem verði kannaðir. Við Hegningarhúsið sé bakgarður sem bjóði upp á ýmsa möguleika.

„Þegar við gerum frumathugun fyrir Landsrétt, í kjölfar þarfagreiningar, munum við skoða nokkra kosti. Það eru alltaf skoðaðir fleiri en einn kostur.“

Halldóra bendir svo á að millidómstigið verði til framtíðar í Reykjavík. Það verði meðal annars kannað hvort í miðborginni sé húsnæði, í eigu ríkisins, sem væri hægt að breyta svo það henti undir Landsrétt. Einnig verði möguleikar á nýbyggingu skoðaðir.