Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fyrirtækið Kræsingar (áður Gæðakokkar) í Borgarnesi er að undirbúa skaðabótakröfu á hendur ríkinu vegna framgöngu Matvælastofnunar gagnvart fyrirtækinu.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fyrirtækið Kræsingar (áður Gæðakokkar) í Borgarnesi er að undirbúa skaðabótakröfu á hendur ríkinu vegna framgöngu Matvælastofnunar gagnvart fyrirtækinu. Magnús Nielsson, stofnandi fyrirtækisins, segir að lögmaður hans hafi falið endurskoðanda að reikna út tjónið. Krafan verði væntanlega send Matvælastofnun en Magnús segist alveg eins eiga von á því að þurfa að sækja bæturnar fyrir dómstólum.

Málið má rekja til þess að í febrúar 2013 lét MAST rannsaka nokkrar vörur frá mismunandi framleiðendum með það fyrir augum að athuga hvort hrossakjöti hefði verið blandað í kjötið. Það var gert í kjölfar umræðu í Evrópu um sölu á kjöti sem hrossakjöti hafði verið blandað saman við.

Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að innihald í tveimur vörum frá Gæðakokkum var ekki í samræmi við innihaldslýsingu. Stofnunin birti tilkynningu um niðurstöðurnar á heimasíðu sinni 27. febrúar 2013 þar sem áhersla var lögð á að ekkert kjöt hefði verið í Nautaböku frá Gæðakokkum. Í framhaldinu kærði Heilbrigðiseftirlit Vesturlands fyrirtækið fyrir blekkingar gagnvart neytendum og fleira. Var fyrirtækið sýknað í héraðsdómi í máli sem af því leiddi. Í kjölfarið höfðaði fyrirtækið mál á hendur Matvælastofnun til viðurkenningar á bótaskyldu vegna þess tjóns sem Kræsingar töldu sig hafa orðið fyrir vegna umræddrar tilkynningar. Vann fyrirtækið málið fyrir héraðsdómi og staðfesti Hæstiréttur niðurstöðuna fyrir skömmu.

Réttlætið nær fram að ganga

Magnús segir að fyrirtækið hafi verið tekið af lífi í fjölmiðlum eftir að tilkynning Matvælastofnunar birtist. Vörur fyrirtækisins hefðu verið teknar úr verslunum og hann þurft að henda þeim. Fyrirtækið hefði orðið fyrir miklum fjárhagslegum skelli og ekki getað tekið þátt í útboðum á matvælum hjá opinberum mötuneytum.

Segist hann hafa getað haldið fyrirtækinu á lífi með því að stórir birgjar ákváðu að ganga ekki að því heldur bíða og sjá niðurstöðu í málarekstrinum. Starfsemin sé þó aðeins brot af því sem var. Velta þess var 132 milljónir árið 2012.

Honum var einnig hafnað þegar hann reyndi að fá sér vinnu við annað. Hann fékk loks vinnu í Staðarskála af því að enginn annar matreiðslumaður sótti um.

„Ég er ánægður með að réttlætið skuli ná fram að ganga. Mér finnst það þó dapurlegt, þegar ég horfi til baka, að sjá að stórum aðilum hafi tekist að koma mér út af markaðnum. Matvælastofnun tekur bara litlu aðilana af lífi til að sýna að hún sé að vinna vinnuna sína en þeir stóru geta keypt sér friðhelgi.“