Viðhaldsskýlið Icelandair mun geta sinnt stórum aðgerðum í skýlinu.
Viðhaldsskýlið Icelandair mun geta sinnt stórum aðgerðum í skýlinu.
Nýtt viðhaldsskýli á vegum Icelandair verður tekið í notkun síðar á þessu ári og verður fullbúið í lok árs með öllum hliðarbyggingum. Þetta segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri ITS.

Nýtt viðhaldsskýli á vegum Icelandair verður tekið í notkun síðar á þessu ári og verður fullbúið í lok árs með öllum hliðarbyggingum. Þetta segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri ITS.

„Við höfum verið að vaxa mikið og þetta eru í raun viðbrögð við því,“ segir Jens en skýlin munu taka á móti öllum vélum Icelandair, þar á meðal nýju MAX-vélunum. Jens segir að skýlið muni verða útbúið nýjustu tækni en þó sé þetta fyrst og fremst aukinn húsakostur. „Við munum reyna að hafa það eins nútímalegt og kostur er á en þetta er í raun og veru stækkun á núverandi aðstöðu,“ segir Jens. Kostnaður við verkið er áætlaður þrír milljarðar en skýlið hefur verið í vinnslu undanfarið ár.

Nýja skýlið mun gera Icelandair kleift að framkvæma fleiri stórar aðgerðir á vélum félagsins, „stóra breytingin er sú að við höfum alltaf bara getað verið með eina vél inni í þessum stærri aðgerðum, þetta mun gefa okkur kost á að vera jafnvel með 2-3 vélar inni á sama tíma,“ segir Jens. Hingað til hefur ákveðnum verkefnum á vegum Icelandair verið sinnt af erlendum aðilum, sérstaklega í Kanada og Evrópu. Jens segir að með byggingu skýlisins muni verkefnin flytjast til landsins. „Við erum að flytja verkefni hingað heim sem áður var sinnt af erlendum aðilum,“ segir Jens. Hann segir að nú þegar hafi fyrirtækið ráðið til sín fjöldann allan af starfsfólki. „Við erum að ráða margt fólk í tengslum við byggingu skýlisins, þegar allt er tekið saman tel ég að það muni skapast töluvert af störfum í kringum þetta,“ sagði Jens. aronthordur@mbl.is