Rautt Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, rekur KA-manninn Bjarka Þór Viðarsson, í miðjunni, af velli fyrir að verja með hendi á línunni.
Rautt Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, rekur KA-manninn Bjarka Þór Viðarsson, í miðjunni, af velli fyrir að verja með hendi á línunni. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Akureyri Einar Sigtryggsson sport@mbl.is Eftir ljúfa hveitibrauðsdaga KA-manna í Pepsi-deild karla og góða byrjun er liðið að takast á við sína fyrstu erfiðleika.

Á Akureyri

Einar Sigtryggsson

sport@mbl.is

Eftir ljúfa hveitibrauðsdaga KA-manna í Pepsi-deild karla og góða byrjun er liðið að takast á við sína fyrstu erfiðleika. Tap í síðasta leik gegn Stjörnunni með marki á lokamínútunni var slæmt og á laugardag missti liðið unninn leik niður í jafntefli þegar Víkingar úr Reykjavík skoruðu mark í uppbótartíma.

Logi Ólafsson var að stýra Fossvogspiltum í sínum fyrsta leik. Hann getur ekki annað en verið sáttur með sína menn en þeir börðust fyrir stiginu og hefðu jafnvel getað hirt öll stigin eftir að hafa lent 2:0 undir í leiknum.

Vítaspyrna og rautt spjald

KA var með leikinn í höndunum eftir að hafa skorað tvö mörk á fyrsta þriðjungi seinni hálfleiks. Víkingarnir voru slegnir og KA hefði vel getað bætt við mörkum. Það var síðasta kortérið sem fór með KA-menn. Þeir voru nýbúnir að gera tvær skiptingar þegar Víkingar risu upp eins og Rocky sjálfur. Víkingar fengu vítaspyrnu þegar Bjarki Þór Viðarsson bjargaði á línu fyrir KA-menn. Dómari leiksins var viss með dóm sinn og rak Bjarka útaf með rautt spjald. Bjarki Þór var með höndina við líkamann og fékk boltann í sig. Þessi dómur breytti algjörlega gangi leiksins og verður að teljast harður. Ætla dómarar að fara að dæma hendi og víti á leikmenn í varnarvegg sem fá boltann í sig með hendur á því heilagasta?

Liðin buðu ekki upp á neitt sérstakt í fyrri hálfleiknum en leikurinn snarbreyttist við fyrsta markið. KA-menn tók öll völd á vellinum og þeir skoruðu reyndar þriðja markið beint úr hornspyrnu en voru dæmdir brotlegir. Vladimir Tufigdzic fékk reyndar tvö bestu færin í leiknum og var klaufi að láta Srdjan Rajkovic verja frá sér í bæði skiptin.