Á flugi yfir Þýskalandi Jónas og Styrmir í fisvélinni með viðurkennd skírteini upp á vasann.
Á flugi yfir Þýskalandi Jónas og Styrmir í fisvélinni með viðurkennd skírteini upp á vasann.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fimm íslenskir flugáhugamenn flugu þremur fisflugvélum yfir hluta Þýskalands og Póllands fyrir skömmu og hugsanlega eru þeir fyrstu Íslendingarnir sem fá leyfi hjá þarlendum yfirvöldum til þess.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fimm íslenskir flugáhugamenn flugu þremur fisflugvélum yfir hluta Þýskalands og Póllands fyrir skömmu og hugsanlega eru þeir fyrstu Íslendingarnir sem fá leyfi hjá þarlendum yfirvöldum til þess.

Jónas Sturla Sverrisson segir að félagarnir hafi viljað láta á það reyna hvort íslensk fis-skírteini þeirra væru viðurkennd í Evrópu en fyrst og fremst hafi verið um skemmtiferð að ræða. „Við leigðum þrjár vélar í Þýskalandi og flugum frá Berlín til Bremen og þaðan yfir til Póllands meðfram Eystrasaltsströndinni þar sem við tókum góðan hring áður en við fórum aftur til baka,“ segir Jónas.

Fisvél er venjuleg flugvél, þó þannig að heildarþyngd vélarinnar með manni og mús, farþegum, eldsneyti, nesti og öðru, má ekki fara yfir 450 kg. Einnig þarf að vera hægt að lenda henni á 65 km hraða eða hægar.

Fyrstu skírteinin í fimm ár

Landslagið á Íslandi er fjölbreytt og segir Jónas að því hafi verið mikil viðbrigði að fljúga yfir flatt og fullnýtt ræktarlandið á meginlandinu. Á Íslandi er mikið ónotað svæði þannig að menn geta nánast lent þar sem þeir vilja, en reglurnar séu stífari ytra, mönnum sé gert að fljúga beint á milli staða en ekki með útúrdúrum eins og algengt sé heima. „Aðalatriðið er að þó að Þjóðverjarnir séu stífir tóku þeir mark á pappírum okkar, allt gekk upp og við fengum að fljúga,“ segir Jónas. Þeir þurftu meðal annars að framvísa talstöðvarskírteinum, sem eru almennt ekki notuð hérlendis. „Póst- og fjarskiptastofnunin hafði ekki gefið út svona skírteini í fimm ár,“ segir hann.

„Það var merkilega lítil flugumferð í Póllandi en okkur var ávallt vel tekið þar sem við komum. Á einum vellinum bauðst okkur að læra á eina af sjö Antonov An-2 flugvélum sem þar voru, fyrir aðeins 3.000 evrur. Hugsanlega fara einhverjir okkar til baka síðar og taka tilboðinu.“

Í ferðinni voru auk Jónasar Styrmir Ingi Bjarnason, Óli Öder, Sveinn Kjartansson og Gylfi Árnason. Þjóðverjinn Walter Kussmaul bættist síðan í hópinn ytra og var þeim til halds og trausts. Eftir að hafa sýnt fram á að þeir kynnu að fljúga og fengið fræðslu um Ikarus C42 vélarnar, sem þeir leigðu, var tekið á loft og flugu þeir samtals í rúma 11 tíma. „Lengsti leggurinn var rúmlega þrír tímar,“ segir Jónas og telur að þeir hafi rutt brautina fyrir aðra Íslendinga hvað þetta varðar. „Við vitum að minnsta kosti ekki um aðra sem hafa flogið með íslensk fisflugsréttindi um Evrópu.“

Flugið gekk vel og allt gekk upp. Jónas segir það hafa verið áhugavert að fljúga yfir Berlín og einkum alþjóðaflugvellina Tegel og Schönefeld. „Þetta var svolítið sérstakt. Fisvélar mega hvorki lenda á né fara í gegnum stjórnsvæði Reykjavíkurflugvallar né Akureyrarflugvallar nema sótt sé um það með sólarhringsfyrirvara, en þarna vorum við frjálsir sem fuglinn.“

Þeir flugu almennt í 1.500 til 2.000 fetum þó einstaka sinnum hafi þurft að hækka flugið til að fara yfir stjórnsvæði, og lentu hvergi í vandræðum. Þegar þeir flugu yfir Tegel gleymdi Þjóðverjinn sér og talaði þýsku við flugumferðarstjórann í flugturninum. „Honum var svarað á þýsku og fyrir vikið misstum við hinir af mikilvægum fyrirmælum en það bjargaðist. Sýnir samt hvað samskiptin skipta miklu máli,“ segir Jónas.

Félagarnir eru komnir á bragðið og ætla að færa sig sunnar í álfuna á næstunni. „Við ætlum að láta á það reyna hvernig gengur að fá leigðar vélar á Ítalíu og fljúga þar um,“ segir Jónas.