Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, endaði í 56.-64. sæti á Volvik Championship-mótinu í golfi, sem er hluti af LPGA-mótaröðinni, en mótinu lauk í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum í gærkvöld.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, endaði í 56.-64. sæti á Volvik Championship-mótinu í golfi, sem er hluti af LPGA-mótaröðinni, en mótinu lauk í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum í gærkvöld.

Ólafía lék lokahringinn á 70 höggum eða tveimur höggum undir pari og lék hringina fjóra á samtals þremur höggum undir pari. Ólafía fékk fimm fugla og þrjá skolla á nokkuð skrautlegum hring. Hún fékk aðeins par í þrígang á fyrri níu holunum, en par á öllum nema tveim holum á seinni níu. Þriðji hringurinn á mótinu reyndist Ólafíu erfiður en hún lék hann á 75 höggum eða þremur höggum yfir parinu en fyrstu tvo hringina lék hún á 69 og 71 höggi. Ólafía fer upp um 10 sæti á stigalista mótaraðarinnar eftir mótið í gær og er komin upp í 116. sæti.

Shanshan Feng frá Kína hrósaði sigri á mótinu en hún lauk keppni á 19 höggum undir pari. Minje Lee frá Ástralíu og Sung Hyung Park frá S-Kóreu urðu jafnar í öðru sætinu en þær luku keppni á 18 höggum undir pari.

gummih@mbl.is