Samfélag Greina þarf hvaða hópar geta orðið fyrir félagslegu ranglæti til framtíðar litið, segir María.
Samfélag Greina þarf hvaða hópar geta orðið fyrir félagslegu ranglæti til framtíðar litið, segir María. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Samfélag nútímans breytist mjög hratt og hætt er við að fleiri og nýir hópar verði jaðarsettir. Flóttafólk um gjörvalla Evrópu er gott dæmi um hóp sem kann að lenda á jaðrinum.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Samfélag nútímans breytist mjög hratt og hætt er við að fleiri og nýir hópar verði jaðarsettir. Flóttafólk um gjörvalla Evrópu er gott dæmi um hóp sem kann að lenda á jaðrinum. Til að slíkt gerist ekki þurfa þeir sem málum ráða að móta stefnu og aðstæður sem tryggja að allir geti lifað með reisn og tekið virkan þátt í samfélaginu. Félagsráðgjöf og skyldar greinar standa því andspænis nýjum verkefnum,“ segir María Rúnarsdóttir, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands.

Nú í vikunni stendur yfir hér á landi Evrópuráðstefnu félagsráðgjafa ( IFSW European Conference ) og snarað yfir á íslensku er yfirskriftin Jaðarsetning í síbreytilegu samfélagi . Á ráðstefnunni koma saman rúmlega 550 félagsráðgjafar og aðrir, þar af yfir 300 frá útlöndum, til að ræða margvísleg samfélagsleg málefni, svo sem sjálfbærni samfélaga, sem verður þema næstu tveggja ára í áætlunum alþjóðasamtaka félagsráðgjafa. Alls verða 80 kynningar og málstofur á ráðstefnunni, sem verður í Hörpu.

Virðing fyrir manngildi

„Æ meira er lagt upp úr því í starfi félagsráðgjafa að litið sé til manneskjunnar í samspili við umhverfið; hvernig hægt sé að tryggja öllum aðgengi að heilsusamlegu umhverfi, hreinu vatni, húsnæði, menntun og heilsugæslu. Grundvöllur félagsráðgjafar er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers og eins. Því ber okkur að greina hvaða hópar geta orðið fyrir félagslegu ranglæti til framtíðar litið og marka stefnuna samkvæmt því,“ segir María og heldur áfram.

„Á Íslandi erum við svo heppin að hafa nægt aðgengi að hreinu vatni og aðgengi að heilbrigðisþjónustu er gott. En við þurfum að halda vöku okkar, það er hætt við að sumir hópar, svo sem hælisleitendur, fátækir og verkamenn sem hingað koma frá útlöndum, verði undir í samfélaginu, fái ekki sómasamlegt húsnæði, heilbrigðisþjónustu og annað. Það er hætt við að hópur fólks sem býr við skort fari stækkandi og misskipting í samfélaginu aukist. Það er ekki nóg að dvelja í núinu þegar við tölum um sjálfbært samfélag og félagslegt réttlæti, við verðum að horfa fram í tímann.“

Óskir almennings um velferðarþjónustu eru sífellt að aukast. Í því efni koma margir að málum gerist þess þörf, enda eru þarfir fólks misjafnar og vandinn oft margþættur. Þar nefnir María að þegar hún byrjaði árið 1998 að vinna í Miðgarði, fjölskylduþjónustu Reykjavíkurborgar í Grafarvogi, hafi samstarf félagsþjónustu, skóla og lögreglu verið nýmæli. Stefnan hafi líka verið að auka samstarf við heilsugæsluna, þó það hafi ekki gerst enn. Í velferðarþjónustu sveitarfélaganna sé raunar ágætt að horfa til Danmerkur, þar sem þverfaglegt forvarnasamstarf í þjónustu við börn og fullorðna er ráðandi og hefur skilað góðum árangri.

Bent á færar leiðir

„Félagsráðgjafar eru í lykilhlutverki í mörgum verkefnum. Stóru póstarnir eru auðvitað alltaf málefni barna, húsnæðismál, aðlögun í samfélaginu og að benda fólki á hver er réttur þess – og hvaða leiðir í lífinu eru færar. Þá er aðstoð við flóttafólk æ stærri þáttur í starfi félagsráðgjafa og að því leyti verður mjög gott að kynnast starfssystkinum okkar víða að úr Evrópu og bera saman bækur. Starfið er um margt orðið alþjóðlegt,“ segir María, sem segir velferðarþjónustu og félagsráðgjöf nú standa á nokkrum tímamótum.

„Áherslan á sjálfbærni í félagsráðgjöf er ný fyrir Íslendinga, sem ég tel að taki loftslagsmálin ekki nógu alvarlega. Þar verðum við að horfa á hlutina í stóru samhengi, hvernig við byggjum upp sjálfbært samfélag. Þá þurfum við sem sterkur faghópur að vinna að mannréttindum og virðingu fyrir hverjum og einum; viðhorf eru grundvöllurinn í starfi félagsráðgjafa um allan heim.“