Erna Solberg
Erna Solberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ernu Solberg, Lars Løkke-Rasmussen, Juha Sipilä, Bjarna Benediktsson og Stefan Löfven: "Með samráði og samstarfi viljum við miðla góðum lausnum til annarra svæða í heiminum. Og við viljum læra af góðum lausnum annarra."

Fyrir tveimur árum ákváðum við, ásamt leiðtogum frá öllum heiminum, metnaðarfull þróunarmarkmið fyrir heiminn. Á leiðtogafundunum í New York og París náðum við samkomulagi um að stöðva loftslagsbreytingar, útrýma fátækt og draga úr ójöfnuði.

Eigi okkur að takast að ná þeim tímamótamarkmiðum sem sett voru í loftslagssamkomulagið frá París og áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030, verðum við öll að leggja mikið af mörkum.

Þess vegna kynnum við, forsætisráðherrar Norðurlanda, verkefnið Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum. Með samráði og samstarfi viljum við miðla góðum lausnum til annarra svæða í heiminum. Og við viljum læra af góðum lausnum annarra. Vegna þess að við eigum öll langt í land. Einnig á Norðurlöndum.

Norrænt samstarf á sér langa sögu. Samstarfið hefur gert okkur kleift að skapa þróun í löndum okkar sem tryggir efnahagslegar framfarir en tekur einnig tillit til umhverfis og samfélags. Sú þróun verður að halda áfram.

Í dag eru Norðurlönd eitt samþættasta svæði heims. Með samstarfi tókst okkur að vera fyrst til að aftengja hagvöxt frá loftslagsbreytingum. Í hartnær tvo áratugi hafa samfélög Norðurlanda orðið æ óháðari jarðefnaeldsneyti – þ.m.t. losun gróðurhúsalofttegunda – án þess að það bitni á atvinnu eða velferð. Meðal þeirra lausna sem við viljum miðla til umheimsins má nefna lífvænlegar borgir, endurnýjanlegar orkulindir og markaðslíkön fyrir sjálfbærar orkufjárfestingar.

Norðurlandaþjóðir voru einnig fyrstar til að tengja jafnrétti við hagvöxt. Fjárfestingar í jafnrétti á vinnumarkaði – meðal annars í góðu fæðingarorlofi og vandaðri barnagæslu – hafa skipt sköpum fyrir eitt velstæðasta svæði í heimi. Lausnir sem tryggt hafa mikla atvinnuþátttöku kvenna eiga erindi víðar um heim þar sem jafnrétti þykir ekki sjálfsagður hlutur.

Sama á við um styrkleikastöðu á sviðum velferðar þar sem við höfum fundið nýstárlegar lausnir á viðfangsefnum vegna hækkandi meðalaldurs almennings. Við höfum stuðlað að framleiðslu á hollum, ljúffengum og sjálfbærum matvælum. Sú reynsla gæti nýst annars staðar í heiminum þar sem matvælaframleiðendur þurfa að kljást við allt í senn, umhverfisvanda, næringarskort og ofþyngd.

Með því að miðla af norrænni reynslu getum við lagt okkar af mörkum til að framfylgja metnaðarfullum markmiðum sem leiðtogar heimsins settu sér fyrir tveimur árum. Um leið getum við átt þátt í að auka sóknarfæri norrænna fyrirtækja um allan heim, skapað störf og tryggt áframhaldandi hagvöxt og velferð á Norðurlöndum.

Hagurinn er beggja, Norðurlanda og heimsins.

Erna Solberg er forsætisráðherra Noregs, Lars Løkke-Rasmussen er forsætisráðherra Danmerkur, Juha Sipilä er forsætisráðherra Finnlands, Bjarni Benediktsson er forsætisráðherra Íslands og Stefan Löfven er forsætisráðherra Svíþjóðar.

Höf.: Ernu Solberg, Lars Løkke-Rasmussen, Juha Sipilä, Bjarna Benediktsson, Stefan Löfven