Mér skilst að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu nú orðin sammála um það, að hin svonefnda Borgarlína sé alveg bráðnauðsynleg lausn á öllum samgönguvanda svæðisins.

Mér skilst að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu nú orðin sammála um það, að hin svonefnda Borgarlína sé alveg bráðnauðsynleg lausn á öllum samgönguvanda svæðisins. Eini gallinn er að fyrirséð er að Borgarlínan á eftir að kosta einhvers staðar á milli 150 og upp í 200 milljarða króna miðað við áætlanir, sem þýðir á Vaðlaheiðargengi krónunnar að þær munu líkast til kosta á bilinu 200 til 300 milljarða króna.

Það er sko ekkert slor. Og hvað er verið að reisa fyrir þetta fé? Á heimasíðu Borgarlínu má lesa: „Hryggjastykkið [svo] [á] nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er Borgarlínan – nýtt kerfi almenningssamgangna sem flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið. Þannig myndast samgöngu- og þróunarás sem tengir sveitarfélögin.“ Borgarlínan á sem sagt að verða „raunhæfur valkostur í samgöngum og mun gegna lykilhlutverki við að breyta ferðavenjum.“ Fyrir utan málfræði- og stafsetningarvillurnar segir þessi texti mér ekki neitt annað en að einhver í embættismannakerfi sveitarfélaganna er rosalega spenntur fyrir þessu verkefni.

Erum við að tala um lest? Erum við að tala um einhvers konar „betri“ útgáfu af strætó? Hver veit? Eina sem við vitum er að þetta mun kosta hellingsmikið af peningum og þá hlýtur þetta bara að vera gott, alveg sama hvað verður fyrir valinu.

Fyrir utan kannski það versta, sem er að fjármögnunarhliðin er víst ekki alveg komin. En hey, það skiptir ekki máli, því eins og bankinn minn segir: Þetta er alveg hægt, ef þú hefur plan.

Planið gengur að vísu út á það svona nokkurn veginn að slá víxil hjá okkur skattgreiðendum enn og aftur, í formi hækkaðra skatta, álaga, og svo einhverrar nýsköpunar í skattpíningu sem kallað er „innviðagjald“. Það eina sem mér skilst að standi í vegi fyrir þessum framförum, er að það er víst ólöglegt fyrir sveitarfélögin að byrja að innheimta þetta allt sjálf, nema ríkið komið þeim til aðstoðar.

Er ekki nokkuð rakið að svo verður? Hvað gera menn hjá ríkinu ekki fyrir vini sína í Reykjavíkurborg og nágrenni? Því að hvað gæti verið betri nýting á fjármunum okkar en að sólunda milljörðum í samgöngumáta 19. aldarinnar, einmitt þegar sjálfkeyrandi bílar eru á næsta leiti? Og af hverju taka fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á sveitarstjórnarstigi þátt í þessu? sgs@mbl.is

Stefán Gunnar Sveinsson

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson