Kærkomið Arsene Wenger glaðbeittur eftir að hafa stýrt Arsenal til sigurs í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu karla í sjöunda skipti þegar liðið lagði Chelsea að velli í úrslitaleik keppninnar á Wembley á laugardaginn.
Kærkomið Arsene Wenger glaðbeittur eftir að hafa stýrt Arsenal til sigurs í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu karla í sjöunda skipti þegar liðið lagði Chelsea að velli í úrslitaleik keppninnar á Wembley á laugardaginn. — AFP
Enski bikarinn Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Arsene Wenger færði stuðningsmönnum Arsenal sárabót eftir vonbrigðatímabil í ensku úrvalsdeildinnni í knattspyrnu karla, þegar hann stýrði liðinu til sigurs í ensku bikarkeppinni.

Enski bikarinn

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Arsene Wenger færði stuðningsmönnum Arsenal sárabót eftir vonbrigðatímabil í ensku úrvalsdeildinnni í knattspyrnu karla, þegar hann stýrði liðinu til sigurs í ensku bikarkeppinni. Arsenal vann 2:1-sigur gegn Chelsea í úrslitaleik keppninnar á Wembley á laugardaginn. Alexis Sánchez kom Arsenal yfir í leiknum, en Diego Costa jafnaði metin fyrir Chelesa og Aaron Ramsey skoraði síðan sigurmark Arsenal.

Arsenal varð bikarmeistari í 13. skipti, en liðið skaust þar með framúr Manchester United og varð sigursælasta liðið í sögu keppninnar. Wenger hefur verið við stjórnvölinn hjá Arsenal í sjö af þessum þrettán bikarmeistaratitlum. Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Wenger hjá Arsenal, en samningur hans við félagið rennur út í sumar. Arsenal hafnaði í fimmta sæti deildarinnar á nýafstaðinni leiktíð og leikur því ekki í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð í fyrsta skipti síðan keppnistímabilið 1999/2000.

Málin rædd á stjórnarfundi

Stjórn Arsenal mun hittast á stjórnarfundi á morgun og að öllum líkindum mun fundurinn að mestu leyti snúast um framtíð Wenger hjá félaginu. Bikarmeistaratitillinn verður til þess að Wenger getur mætt beinni í baki en ella á stjórnarfundinn.

„Við vorum frábærir frá fyrstu mínútu í þessum leik. Þetta lið hefur þjáðst, sameinast og svarað á þessu keppnistímabili,“ sagði Wenger í samtali við fjölmiðla eftir sigurinn á laugardaginn.

„Ég er stoltur af því að hafa unnið sjö af þessum bikarmeistaratitlum. Ég er stoltur af því afreki,“ sagði Wenger enn fremur.

„Það er stjórnarfundur á þriðjudag. Á miðvikudag og fimmtudag verður þetta allt skýrara hvað varðar framhaldið,“ sagði Wenger um framtíð sína hjá Arsenal.

Wenger getur mætt keikur á stjórnarfundinn, en þrátt fyrir vonbrigðin á síðasta keppnistbímili er ferilskrá hans hjá Arsenal ekkert slor. Eins og áður segir hefur Wenger sjö sinnum stýrt liðinu til sigurs í enska bikarnum og liðið hefur þrisvar orðið enskur meistari undir hans stjórn. Þá kom Wenger Arsenal í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fyrsta skipti í sögu félagsins þegar liðið tapaði fyrir Barcelona í úrslitaleik keppninnar árið 2006. Hluti stuðningsmanna Arsenal þráir hins vegar fátt heitar en að Wenger stígi frá borði þar sem þeir telja liðið hafa dalað undir hans stjórn undanfarin ár. Það verður spennandi að sjá hvaða ákvörðun stjórn Arsenal tekur í vikunni.