Bætur Vinnumálastofnun segir að málið muni skýrast í næstu viku.
Bætur Vinnumálastofnun segir að málið muni skýrast í næstu viku. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is „Við erum rétt að átta okkur á þessari niðurstöðu, við erum að sitja yfir því hvernig hún mun birtast í verklagi og endurmati.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

„Við erum rétt að átta okkur á þessari niðurstöðu, við erum að sitja yfir því hvernig hún mun birtast í verklagi og endurmati. Það er ljóst að við verðum að meta hvert mál fyrir sig,“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, um niðurstöðu Hæstaréttar í máli VR gegn Vinnumálastofnun í gær. VR og einn félagsmaður þess höfðaði mál gegn Atvinnuleysistryggingasjóði, Tryggingasjóði, sjálfstætt starfandi einstaklingi, íslenska ríkinu og Vinnumálastofnun vegna styttingar á tímabili atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Styttingin var talin óheimil enda skerti hún bótarétt félagsmanna í VR sem þáðu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sóttu um slíkar bætur 1. janúar 2015 og eftir það.

Óvíst hversu margir fá bætur

„Það eru auðvitað einhverjir sem kunna að hafa orðið fyrir skaða og fá hann bættan, en það er ekki öruggt að það séu einhver hundruð manna. Það þarf að setjast yfir það,“ segir Gissur. Hann segir jafnframt að Vinnumálastofnun sé byrjuð að yfirfara hverjir gætu átt von á bótum. „Við munum reyna að flýta þessari vinnu eins og kostur er,“ segir Gissur og bætir við að vænta megi svara í næstu viku um fjölda og upphæðir. Þá mun Vinnumálastofnun funda með velferðarráðuneytinu á næstu dögum. „Við eigum eftir að fara yfir þetta með ráðuneytinu sem ber ábyrgð, að hluta til, á þessari lagasetningu og meta hver kostnaðurinn er.“

Áminning um vönduð vinnubrögð við lagasetningu

Hann segir að stofnunin sé byrjuð að áætla hvernig hún muni tækla málið og segir niðurstöðu Hæstaréttar vera áminningu um vandaðri vinnubrögð. „Þetta er svo sem sérstakt mál og kannski áminning um að það er nauðsynlegt að vanda sig við lagasetningu.“