Mark Agla María Albertsdóttir fagnar marki sínu gegn KR með Katrínu Ásbjörnsdóttur og Maríu Evu Eyjólfsdóttur, í Frostaskjólinu í gærkvöld.
Mark Agla María Albertsdóttir fagnar marki sínu gegn KR með Katrínu Ásbjörnsdóttur og Maríu Evu Eyjólfsdóttur, í Frostaskjólinu í gærkvöld. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bikarinn Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Þetta er bara geggjað,“ sagði Hrafnhildur Björnsdóttir, fyrirliði Tindastóls, sem var annað tveggja 1. deildarliða til að komast áfram í 8-liða úrslit Borgunarbikarsins í knattspyrnu í gær.

Bikarinn

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Þetta er bara geggjað,“ sagði Hrafnhildur Björnsdóttir, fyrirliði Tindastóls, sem var annað tveggja 1. deildarliða til að komast áfram í 8-liða úrslit Borgunarbikarsins í knattspyrnu í gær. Tindastóll sló út úrvalsdeildarlið Fylkis með 2:1-sigri.

Athygli vekur að Tindastóll skoraði í gær fyrstu tvö mörk sín á tímabilinu, en liðið hafði tapað fyrstu þremur leikjunum í 1. deildinni og situr þar á botninum. Fylkir komst þar að auki yfir í leiknum í gær, með marki Ragnheiðar Erlu Garðarsdóttur úr vítaspyrnu á 27. mínútu:

„Við vorum alveg grimmar gegn þeim og leyfðum þeim ekki að vera eitthvað mikið meira með boltann en við. Við jöfnuðum metin einhverjum fimm sekúndum eftir að þær skoruðu, en eftir að við komumst svo yfir í seinni hálfleiknum sóttu þær á fullu og fengu mörg færi,“ sagði Hrafnhildur, en Madison Cannon jafnaði metin fyrir Stólana og Eva Banton skoraði sigurmarkið þegar rúmur hálftími var til leiksloka.

„Þetta er fyrsti leikurinn sem við vinnum og það er bara geggjað að hafa náð því. Þetta kemur okkur vonandi í gang,“ sagði Hrafnhildur.

Hitt 1. deildarliðið sem leikur í 8-liða úrslitunum er HK/Víkingur sem sló út 2. deildarlið Fjölnis, með 2:1-sigri. Margrét Eva Sigurðardóttir tryggði sigurinn með marki á 90. mínútu.

Stjarnan og Valur unnu bæði örugga sigra í rimmum við úrvalsdeildarlið. Katrín Ásbjörnsdóttir heldur áfram að raða inn mörkum og skoraði tvö mörk í 5:1-sigri Stjörnunnar á KR í Vesturbænum.

Valur hafði betur gegn FH, 4:0, þar sem öll mörkin komu í seinni hálfleik. Anisa Guajardo skoraði tvö markanna en Valskonur léku án fyrirliðans Margrétar Láru Viðarsdóttur sem meiddist í hné á dögunum. Vonir standa til að meiðslin séu ekki alvarleg.

Endurheimtu Thelmu Björk

„Þetta spilaðist mjög vel. Við vorum bara óheppnar að skora ekki í fyrri hálfleik því við fengum til þess dauðafæri á fyrstu 25 mínútunum,“ sagði Málfríður Erna Sigurðarsdóttir, sem bar fyrirliðabandið í fjarveru Margrétar, en hún skoraði þriðja mark Vals í gær.

„Við duttum aðeins niður í seinni hluta fyrri hálfleiks en rifum okkur upp eftir hlé. Við gerðum það mjög vel. FH-liðið liggur svolítið neðarlega, en við náðum að halda breidd í okkar spili og þannig draga þær aðeins út,“ sagði Málfríður, ánægð með að geta farið í landsleikjahléið á góðum nótum eftir misjafnt gengi Vals á leiktíðinni:

„Það er mjög gott. Við fengum líka Thelmu Björk Einarsdóttur til baka úr meiðslum, en hún kom inn á í seinni hálfleik. Hún kom þvílíkt sterk inn. Það er jákvætt að einhver sé nú að koma úr meiðslum, en ekki öfugt,“ sagði Málfríður.

ÍBV komst áfram með naumum sigri á 1. deildarliði Selfoss, 1:0. Eina markið skoraði Cloé Lacasse tæpum tuttugu mínútum fyrir leikslok. Grindavík kom sér áfram með öruggum sigri á 1. deildarliði Sindra austur á Höfn, 5:2, eftir að hafa skorað þrjú mörk á fyrstu 17 mínútu leiksins. Loks unnu Haukar 3:0-sigur á Þrótti Reykjavík. Marjani Hing-Glover skoraði fyrstu tvö mörkin með mínútu millibili, rétt fyrir leikhlé.

Stórleikur 16-liða úrslitanna er hins vegar á Kópavogsvelli í dag þar sem bikarmeistarar Breiðabliks taka á móti efsta liði Pepsi-deildarinnar, Þór/KA, kl. 16. Þar ræðst hvert verður áttunda liðið í pottinum þegar dregið verður næsta miðvikudag.