Steinn Jónsson fæddist á Eskifirði 22. október 1918. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Uppsölum, Fáskrúðsfirði, 25. maí 2017. Foreldrar hans voru Guðrún Sigurlín Bóasdóttir, f. 14.4. 1886, d. 29.7. 1929, og Jón Steinsson, f. 22.8. 1887, d. 20.6. 1937. Við lát móður sinnar var Steinn sendur í fóstur að Dölum í Fáskrúðsfirði til ömmu sinnar, Guðbjargar Marteinsdóttur, og seinni manns hennar, Höskuldar Stefánssonar, sem þar bjuggu. Þar ólst Steinn upp við hefðbundin sveitastörf.

Steinn kvæntist Stefaníu Maríu Árnadóttur, f. 9.1. 1935. Hún er dóttir Árna Daníelssonar, f. í Sandvíksseli 23.3. 1901, d. 3.6. 1978, og Gyðu Steindórsdóttur, f. í Nesi í Norðfirði 26.2. 1901, d. 20.3. 1960.

Steinn og Stefanía eiga fjögur börn, þau eru 1) Guðrún Sigríður, f. 7.3. 1959, gift Vilhelm Jónssyni og eru dætur þeirra a) Hulda María, sambýlismaður Sean Ryan, börn Aníta Guðrún, Saga María og Vilhelm Leonard. b) Ester, sambýlismaður Marteinn Dagsson, dætur Amanda Ósk og Telma Dögg.

2) Gyða, f. 27.2. 1962, sambýlismaður Einar Páll Harðarson, og eru dætur þeirra Aníta Ósk og Íris Eva. 3) Guðbjörg, f. 4.6. 1965, gift Hans Jörgen Einarssyni, eru börn þeirra Steinunn, Einar Jörgen, Anna Karen og Eygló, gift Braga Bjarnasyni, eiga þau þrjú börn, Bjarna Dag, Hildi Evu og Elmar Andra.

4) Jón, giftur Svandísi Steingrímsdóttur, eru börn þeirra Steinn og Katrín María.

Steinn stundaði nám við Alþýðuskólann á Laugum 1937-38, lauk mótornámskeiði í Neskaupstað 1943 og lauk meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1946. Steinn hóf sjómannsferil sinn 1941. Eftir stýrimannaprófið var hann á ýmsum bátum og togurum í flestum störfum og síðar skipstjóri, m.a. á togurunum Vetti og Guðrúnu Þorkelsdóttur fram til 1967 er hann kom í land. Hann hóf störf hjá Verðlagsstofnun (síðar Samkeppnisstofnun) 1968 og vann þar til starfsloka. Steinn sat tvö kjörtímabil í hreppsnefnd Eskifjarðar og nokkur ár í skólanefnd.

Útför Steins fer fram í Eskifjarðarkirkju í dag, 3. júní 2017, og hefst athöfnin kl. 11.

Á uppstigningardaginn kvaddi þetta jarðlíf Steinn Jónsson, eða Denni eins og hann var alltaf kallaður, 98 ára gamall. Hjálpsemi, traust, réttlæti, heiðarleiki, hæverska og kímnigáfa eru þau orð sem fyrst koma upp í huga okkar þegar við hugsum til góðs föður og tengdaföður.

Þú fylgdist vel með heimsmálunum og íþróttum og sinntir fjölmörgum áhugamálum af krafti. Hestamennska, spilamennska, garð- og kartöflurækt, berjatínsla, veiðiskapur, útivist og prjónaskapur síðustu árin, allt átti þetta hug þinn. Þú varst víðlesinn og fróður, sérstaklega í Íslendingasögum, og við minnumst góðra stunda við stofuborðið á æskuheimilinu okkar í Hátúninu þar sem við nutum leiðsagnar þinnar. Þar áttum við ávallt skjól hjá þér og mömmu og þangað gátum við komið með vini okkar til lengri eða skemmri tíma. Þar var og er alltaf pláss fyrir alla.

Börnin okkar voru ávallt í miklu uppáhaldi hjá þér og þú naust hverrar stundar með þeim.

Þú hafðir mikinn áhuga á hestamennskunni og fórst í margar skemmtilegar ferðir með vinum og félögum. Eftirminnileg er ferðin þegar þú, 86 ára gamall, fórst ríðandi fram og til baka frá Eskifirði á hestamannamót í Skagafirði og settist aldrei inn í bíl á leiðinni. Á veturna skipulagðir þú ferðirnar, skoðaðir landakort af kostgæfni, pantaðir gistingu, fékkst hagapláss og talaðir við staðkunnuga. Að því búnu tilkynntir þú ferðafélögum þínum ferðaáætlunina sem auðvitað var alltaf samþykkt.

Sem sjómaður upplifðir þú marga atburði sem kröfðust bæði áræðni og dugnaðar af þér og þínum mönnum. Ber þar hæst björgunarleiðangur þegar togarinn Egill Rauði frá Neskaupstað strandaði undir Grænuhlíð. Við systkinin gerðum okkur ekki grein fyrir því hversu mikið björgunarafrekið var fyrr en við löngu seinna lásum blaðagrein sem lýsir þessum atburði. Þá bjargaðir þú ásamt áhöfn þinni á mótorbátnum Sindra 14 manna áhöfn af þýsku saltskipi við Garðskagavita.

Þú varst víkingur til vinnu, talaðir aldrei um eigið ágæti en minntist oft á hvað þú varst alltaf heppinn með mannskap. Þér var tíðrætt um það að maður ætti aldrei að vera með hendur í vösum og horfa á aðra vinna heldur að leggja hönd á plóginn. Þú varst mikill jafnaðarmaður og liðsheildin gekk fyrir hjá þér.

Sveitin þín í Dölum í Fáskrúðsfirði stóð hjarta þínu alltaf næst og þangað var oft farið til Sigrúnar og Ella. Þá voru líka farnar margar ferðir í Hraunkot í Lóni til Frissa bróður þíns. Þarna voru skapaðar dýrmætar minningar og mynduð náin tengsl við frændfólk, enda varstu mjög ættrækinn. Í þessum ferðum kenndir þú okkur nöfn á öllum bæjum og fjöllum og varst alltaf jafn undrandi þegar við mundum þau ekki í næstu ferð.

Elsku pabbi og tengdapabbi, þú áttir langa, góða og gifturíka ævi. Dýrmætar minningarnar streyma fram, þær munu lifa með okkur öllum um ókomna tíð. Það verður sárt að koma heim í Hátún og hitta þig ekki aftur í því hlýja og góða umhverfi sem þið mamma sköpuðu saman, en við lofum að passa vel upp á mömmu.

Hvíl í friði.

Guðrún og Vilhelm,

Gyða og Einar Páll, Guðbjörg og Hans, Jón og Svandís.

Elsku afi minn, mikið var sárt að fá þessar fréttir af andláti þínu fimmtudaginn 25. maí. En þetta er víst gangur lífsins, eins sárt og það er. Ég á þér svo margt að þakka. Ég væri ekki á kafi í hestamennskunni í dag nema því þú kynntir hana fyrir mér og mikið sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að fara með þér í hesthúsin þegar ég var lítil. Ég var svo stolt af sjálfri mér þegar ég var lítið krakkarassgat og mokaði allt hesthúsið sjálf, brosið fór ekki af mér. Ég man þegar ég var alltaf að spyrja um að fá að prófa hina og þessa hestana sem þú áttir og þú sagðir að ég þyrfti að vera eldri til að fá að fara á bak á þeim ein. Þegar ég var orðin 13 ára fékk ég að fara ein á Andvara í fyrsta skipti, þá fannst mér ég vera orðin svo stór. Hann var einn af uppáhaldshestum þínum og var nú ekki beint barnahestur. Ég gat setið hann í reiðtúr sjálf og ég var með stjörnur í augunum.

Ég man þegar að ég fór með þér að girða út á Sigmundarhúsum, ég var 10 ára þá. Þá fórum við gangandi frá bænum með staura upp í hlíðina, sem var nú smá spölur og frekar bratt. Ég tók einn staur undir sitthvora höndina og þú tvo og verkfærakassann, mér fannst ég hafa svo mikið hlutverk og orðin svo fullorðin. Við vorum þarna allan daginn og tókum reglulegar nestispásur og drukkum orkudrykki. Þú sagðir að ég mætti ekki segja ömmu hvað við drukkum marga því ég var orðin svo æst og komin með munnræpu.

Þegar ég var í grunnskóla átti ég stundum að skrifa sögu um það sem gerðist í gamla daga. Alltaf fannst mér það frábær hugmynd að hringja í afa og skrifa úr æsku hans. Auðvitað varst þú alltaf boðinn og búinn að segja mér frá sjálfum þér og á ég margar sögur frá þér. Ég gleymi því ekki þegar ég kom í skólann einn daginn og búin að skrifa sögu um að þú hefðir ekki átt skó á sumrin og hefðir gengið um berfættur í sveitinni. Það sem krökkunum í bekknum fannst þetta merkilegt og það var mikið talað um það í bekknum að afi hennar Esterar hefði ekki átt skó á sumrin.

Mér þótti mér alltaf vænt um það þegar þú heyrðir stundum í mér eftir að ég spilaði handboltaleiki og spurðir mig hvernig hefði gengið, því þú hafðir fylgst með mér í sjónvarpinu. Þú sagðir mér alltaf að æfa vel og borða hafragraut í morgunmat því ég yrði svo sterk af því, og að sjálfsögðu borðaði ég vel af hafragraut.

Telma dóttir mín sem er orðin fjögurra ára er komin með hestadelluna, hún er farin að fara á hestbak. Hún spyr mig reglulega þegar við erum að brasa uppi í hesthúsum: „Gerði afi Denni þetta svona, mamma?“ Hún spyr mikið um þig.

Afi minn, ég hef alltaf litið upp til þín og hugsa oft um þig þegar ég er uppi í hesthúsum eða að ríða út.

Ég er þér óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið þessa hestadellu frá þér. Þetta er líf mitt og yndi í dag.

Nú kveð ég þig með miklum trega og sorg í hjarta. Þú verður alltaf fyrirmyndin mín í lífinu og ég veit að nú ertu kominn á vit ævintýranna og ert aftur farinn að ríða út á Stormi þínum.

Takk fyrir að gefa mér allar þessa minningar, gleði, ást og hlýju.

Ester Vilhelmsdóttir.

Elsku afi.

Mér finnst svo ótrúlega skrítið að hugsa til þess að þú sért farinn, en ég er svo ótrúlega heppin að eiga margar og fallegar minningar um þig. Mínar fyrstu minningar um þig eru úr hesthúsinu, þegar ég var að fara með þér þangað. Ég hætti mér nú aldrei langt frá þér því að ég var alltaf hálfhrædd við þessar risastóru skepnur. Þú varst sjaldan ánægðari en þegar þú varst á hestbaki og þú hafðir alveg óendanlega þolinmæði gagnvart mér og mínu litla hjarta. Þú varst alveg ótrúlega góður afi, sagðir alltaf já ef maður bað þig um eitthvað. Þú varst aldrei reiður og við krakkarnir máttum nánast allt. Eitt skipti þegar ég var svona um 10 ára sátum við að borða kvöldmat með ykkur ömmu og mér verður á að prumpa, og mamma lítur á mig og segir reið „Hulda María svona gerir maður ekki við matarborðið,“ þá fórst þú að hlæja, knúsaðir mig og sagðir „Hulda mín, það er engin synd þó að búkurinn leysi vind,“ þú varst alltaf með kímnigáfuna í lagi. Aðeins einu sinni man ég eftir að þú varst reiður við mig og skammaðir mig og þá vissi ég líka að ég hefði gert eitthvað alvarlegt af mér. Þú varst alltaf til í að spila og kenndir mér að spila Ólsen Ólsen og Kasínu og seinna kenndirðu stelpunum mínum það líka. Ég man alltaf þegar ég sat og fékk að fylgjast með ykkur spila Manna, þá bankaðirðu alltaf fast í borðið svo að glumdi í þegar þú settir út spil og þetta fannst mér alveg rosalega flott að geta og ég æfði mig og æfði, því að mig langaði svo að geta bankað svona í borðið eins og afi þegar ég var að spila. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir hvað við fengum að hafa þig lengi hjá okkur og að stelpurnar mínar Aníta Guðrún og Saga María eiga eftir að muna eftir þér alla tíð. Allar sögurnar sem þú sagðir okkur frá því hvernig hlutirnir voru öðruvísi þegar þú varst lítill og bjóst hjá ömmu þinni í Dölum, t.d. þegar Saga María kom í nýjum strigaskóm og þá sagðirðu okkur frá því að þú hefðir aldrei átt neina skó á sumrin þegar þú varst lítill, þá voruð þið alltaf berfættir krakkarnir og svo í sauðskinnsskóm á veturnar og í vel þæfðum ullarsokkum. Svipurinn á stelpunum mínum var æðislegur, þær voru svo hissa og þetta er eitthvað sem þær munu aldrei gleyma. Eins þegar þú varst að kenna þeim að brjóta ullarsokkana í hælbrot svo auðveldara væri að klæða sig í þá og sagðir okkur að svona hefði amma þín alltaf fært þér ullarsokkana þína á morgnana. Núna brýtur Aníta ullarsokkana sína alltaf svona. Allar þessar sögur eru ómetanlegur lærdómur fyrir bæði mig og stelpurnar mínar og ég ylja mér við að þær munu muna þetta alla tíð, eftir langafa sem átti enga skó á sumrin og var alltaf til í að spila. Vilhelm minn er svo lítill að því miður mun hann ekki muna eftir þér en við munum vera dugleg að segja honum og ófædda barninu sögur af þér, hversu skemmtilegur og yndislegur afi og langafi þú varst. Þín er sárt saknað elsku afi, hvíldu í friði.

Hulda María Vilhelmsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku langafi.
Þú hefur verið besti langafi sem hægt er að hugsa sér. Mín heitasta ósk er að þú hefðir ekki þurft að fara frá okkur. Mér finnst svo leiðinlegt að þú hafir ekki getað eytt síðustu mánuðunum hér á Eskifirði með okkur. Þín er sárt saknað hér og við elskum þig öll. Ég næstum grét við að skrifa þetta en ég veit að þú ert á betri stað. Vonandi hittumst við aftur þegar ég kem til þín. Hvíldu í friði.
Ástarkveðja,
Saga María.