[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Fasteignafélagið Heimavellir hyggst afla frekara hlutafjár með skráningu á hlutabréfamarkað síðar á árinu, á fjórða ársfjórðungi, til þess að styðja við vöxt félagsins, að sögn Guðbrands Sigurðssonar framkvæmdastjóra. Stjórnendur félagsins stefna að því að kaupa 400 íbúðir á næstu 18-24 mánuðum, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Það á nú um tvö þúsund íbúðir.

Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka, benti á að um yrði að ræða fyrstu skráningu frá fjármálahruninu 2008 þar sem fyrirtæki aflar aukins hlutafjár. Þetta kom fram á Kauphallardögum Arion banka.

Tekjur jukust um milljarð

Heimavellir er stærsta almenna leigufélag landsins. Félaginu var komið á fót árið 2014 og hefur fyrst og fremst vaxið með kaupum á eignasöfnum og sameiningum við leigufélög. „Við höfum ekki verið að kaupa eignir á markaði,“ sagði hann. Leigutekjur námu 1,5 milljörðum króna í fyrra og jukust um milljarð á milli ára.

Um þessar mundir eru hluthafar um 80. Viðskiptafélagarnir Tómas Kristjánsson og hjónin Finnur Reyr Stefánsson og Steinunn Jónsdóttir eru stærstu hluthafar Heimavalla með 23% hlut í gegnum þrjú félög á þeirra vegum.

Guðbrandur sagði að félagið eigi erindi í Kauphöll og að eðlismunur væri annars vegar á starfsemi fasteignafélaga sem leigja út íbúðir og hins vegar þeirra sem leigja út atvinnuhúsnæði, eins og fasteignafélögin þrjú sem fyrir eru í Kauphöllinni.

Hann sagði að leiguverð og íbúðaverð hafi haldist í hendur frá árinu 2011 til 2014 en þá hafi fasteignaverð hækkað mun skarpar en leiguverð. „Leiguverð mun ekki fara í sömu hæðir og fasteignaverð en að sama skapi mun það ekki fara í sömu dali og íbúðaverð,“ sagði Guðbrandur.

Á árunum fyrir hrun bjuggu 13-14% íbúa landsins í leiguhúsnæði en eftir fjármálahrunið 2008, þegar margir misstu heimili sín, fjölgaði hratt á leigumarkaði. „Undanfarin ár hefur hlutfallið haldist stöðugt í 22-23% og við reiknum ekki með að það verði mikil breyting á því hlutfalli,“ sagði hann.

Vaxtartækifæri Heimavalla liggja meðal annars í því að leigja þeim sem eru á eftirlaunaaldri í meira mæli. Eins og sakir standa eru 28% leigjenda 20-29 ára og 30% eru 30-39 ára. Bróðurpartur leigjenda er því undir fertugu, eða 58%. Hlutfall viðskiptavina á aldrinum 40-49 er 18%, hlutfall þeirra sem eru á aldrinum 50-59 er 12%, 60-69 ára er 8% og þeir sem eru sjötugt og eldri eru 5%.

„Þjóðin er að eldast hratt. Á næstu 20 árum mun þeim sem eru 68 ára og eldri fjölga um 30.000,“ sagði hann.

Um er að ræða hóp sem oft á stærri heimili og mun minnka við sig. „Ef það eru 1,5 á hverju heimili að meðaltali þarf íbúðum að fjölga um 900 á ári fyrir þennan hóp,“ sagði hann.

Kynslóðirnar sem fæddar eru á árunum 1955-1960 og síðar eigi „verulega“ betri lífeyriséttindi en þeir sem eldri eru.. „Þau munu því hafa meiri fjárráð,“ sagði hann.

Tveir risar

Landslagið á almenna leigumarkaðnum hefur breyst hratt, að sögn Guðbrands. Á fáeinum árum hafa risið tvö stór leigufélög. Heimavellir á um tvö þúsund íbúðir og Almenna leigufélagið á um 1.400, að hans sögn. Að öðru leyti byggist markaðurinn fyrst og fremst á einstaklingum sem mögulega eigi eina til fimm íbúðir. Áætlað er að almenni leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu telji 16.500 íbúðir
Stærsta leigufélagið
» Heimavellir eru stærsta almenna leigufélag landsins og á um tvö þúsund íbúðir.
» Félaginu var komið á fót árið 2014 og hefur fyrst og fremst vaxið með kaupum á eignasöfnum og sameiningum við leigufélög
» Það stefnir á hlutabréfamarkað síðar á árinu og hyggst afla fjár til frekari vaxtar.
» Hluthafar eru 80.