Einar Guðmundsson fæddist í Hamri á Breiðdalsvík 8. febrúar 1952. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 21. maí 2017.

Foreldrar hans voru Guðmundur Tómas Arason, verslunarmaður á Breiðdalsvík, f. 28. febrúar 1923, d. 11. nóvember 2001, og Sigrún Gunnarsdóttir, húsmóðir og verkakona á Breiðdalsvík, f. 5. janúar 1926, d. 10. febrúar 2005. Einar kynntist Jay Chalor Kaewwiset 1988 og hófu þau sambúð 1990. Sonur þeirra er Guðmundur Rúnar Einarsson, f. 4. desember 1990, og á hann einn son, Leon Leví, f. 1. maí 2016. Dóttir Jay frá fyrra sambandi er Selja Janthong, f. 31. janúar 1986. Unnusti hennar er Sigurður Grétar Sigurðsson, f. 12. febrúar 1987. Dóttir þeirra er Jasmín Líf, f. 29. ágúst 2015. Einar og Jay slitu sambúð 2001. Systkini Einars eru: 1) Gunnar Ari, f. 25. ágúst 1950. 2) Björn, f. 11. ágúst 1953. 3) Aðalheiður Guðrún, f. 16. nóvember 1954. 4) Friðrik Mar, f. 25. ágúst 1960. 5) Sigrún, f. 11. október 1969.

Eftir nám í Barna- og unglingaskólanum í Staðarborg stundaði Einar nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi frá Fiskimannadeild vorið 1973. Einar var sjómaður allan sinn starfsaldur og byrjaði á sjónum 16 ára gamall á bátnum Hafdísi SU 24 frá Breiðdalsvík. Eftir fyrra árið í Stýrimannaskólanum var hann stýrimaður og afleysingaskipstjóri á humarbátnum Hauki SU 50 á Djúpavogi hjá Einari Ásgeirssyni. Þegar hann lauk námi vorið 1973 fór hann um borð í skuttogarann Hvalbak SU 300 frá Breiðdalsvík, fyrst sem háseti og síðan sem 2. stýrimaður. Hann lenti í alvarlegu slysi 31. október 1973. Einar vann eftir það um hríð við fiskvinnslu á Breiðdalsvík en fór aftur á sjóinn um leið og hann gat og var þá í áhöfn hjá Einari Ásgeirssyni og Ólafi Helga Gunnarssyni nær óslitið upp frá því.

Útför Einars fer fram frá Heydalakirkju í dag, 3. júní 2017, klukkan 14.

mbl.is/minningar

Missir okkar systkinanna er mikill. Bói okkar, eða Einar eins og mamma kallaði hann alltaf, var yndislegur persónuleiki og er minningabankinn því stór. Bói var skemmtilegt barn, skarpur og uppátækjasamur. Eilítið baldinn og sá eini okkar systkina sem var „sendur“ í sveit. Hann fékk byssu í fermingargjöf sem er bæði táknrænt fyrir hann sem persónuleika og tíðarandann. Sem ungur maður var Bói mikill töffari, vinsæll og vinamargur, sjarmör og kvennagull og hafði gaman af að skemmta sér. Ekkert partý byrjaði fyrr en Bói var mættur. Hann þurfti lítið að hafa fyrir námi, lauk skipstjórnarprófi með glæsibrag og framtíðin blasti við honum. Hann þótti mjög efnilegur skipstjórnarmaður og fékk strax mikla ábyrgð. En svo gripu örlögin í taumana þegar hann lenti í alvarlegu slysi haustið 1973 og lífið tók óvænt aðra stefnu. Bói náði sér ótrúlega vel eftir slysið og var fljótlega aftur kominn á sjóinn. Skipstjórarnir, Einar heitinn Ásgeirsson og Ólafur Helgi Gunnarsson, reyndust honum einstaklega vel og segja má að þeir eigi drjúgan hlut í því að Bói gat áfram haft sjómennskuna sem ævistarf. Einnig sýndu áhafnir Kambarastar og Ljósafells honum mikinn vinskap og tillitssemi. Eftir slys fengum við annan Bóa, heldur hömlulausari en þann „fyrri“. Hann hafði góðan húmor og hafði gaman af að snúa út úr og endurnefna fólk og athafnir. Hann bjó til sín eigin orðatiltæki og var hnyttinn í tilsvörum. Við fjölskyldan brosum í gegnum tárin þegar við rifjum upp hans tungutak og erum byrjuð að skrásetja minnisstæð orðatiltæki.

Hann var fylginn sér, mikill prinsipp-maður og dálítið þrjóskur. Ef honum misbauð eitthvað þá var hann duglegur að segja samferðarfólki sínu frá því öðrum til mismikillar gleði. Hann var alla tíð ákaflega gjafmildur og frændrækinn. Öll fjölskyldan naut þess þegar hann kom með alls kyns varning úr siglingum auk þess sem hann færði fjölskyldu og vinafólki björg í bú af sjónum. Hann var talnaglöggur og minnugur á bæði nýja og gamla tímann. Hann mundi alla afmælisdaga og hringdi þá í afmælisbörnin. Hann var greiðvikinn og lét ekki bíða eftir sér. Þegar leitað var til hans, svaraði hann gjarnan að hann hefði ekki tíma en var samt mættur til aðstoðar eftir fimm mínútur. Bói var mikill kokkur, kannski ekki mikið í heilsufæðinu, en eldaði góðan mat. Hann steikti heimsins bestu kleinur samkvæmt sérstakri leyniuppskrift, bakaði rúllutertur og fleira góðgæti. Bóa þótti afar vænt um æskuheimili sitt og sýndi það með ósérhlífni í þeim verkefnum sem þar þurfti að sinna. Hann var stoltur af ættfólki sínu og í tíðu sambandi við stórfjölskylduna. Hann sá ekki sólina fyrir syni sínum, Selju og barnabörnum. Þá reyndist Jay honum einstaklega vel og áttu þau góðan vinskap.

Elsku Bói okkar, hafðu hjartans þökk fyrir allt með kærri kveðju til allra sem við þekkjum hjá Sameinuðu þjóðunum eins og þú kallaðir þann stað þar sem hinir látnu sameinast. Við kveðjum þig með þínum orðum og biðjum að heilsa eftir Inga T.

Þín systkini,

Gunnar Ari, Björn, Aðalheiður Guðrún,

Friðrik Mar og Sigrún.