Magnús Geir Þórðarson
Magnús Geir Þórðarson
Eftir Magnús Geir Þórðarson: "Staða RÚV er sterk, áhorf og hlustun er góð og viðhorfskannanir benda til meiri ánægju almennings með þjónustu RÚV en áður hefur mælst."

RÚV er almannaþjónustumiðill í eigu íslensks almennings og vill upplýsa, fræða og skemmta á hverjum degi. En hvað þýðir það árið 2021? Hvernig tryggjum við að RÚV þjóni öllum Íslendingum þar sem þeir vilja og þegar þeir vilja á næstu árum? Hvernig tryggjum við öfluga og óhlutdræga upplýsingaveitu fyrir alla? Hvernig tryggjum við þjónustu við nýjar kynslóðir í sífellt tvístraðra samfélagi? Hvernig ræktum við íslenska menningu og tungumál? Þessar og fleiri spurningar lágu til grundvallar þegar hafist var handa við að móta stefnu RÚV til 2021, sem við kynntum með stolti á ráðstefnunni Fjölmiðlun til framtíðar á dögunum.

Hvað gerðum við?

Í stefnumótunarvinnunni undanfarið ár var samtalið opnað upp á gátt. Á annað þúsund manns svöruðu kalli um þátttöku í opinni vefgátt, netkannanir og vinnustofur voru haldnar með starfsfólki, stjórnendum og stjórnarmönnum, rætt var við fulltrúa fyrirtækja og stofnana í næsta umhverfi RÚV, svo sem úr mennta- og menningargeiranum, við sjálfstæða framleiðendur og aðra fjölmiðla. Afraksturinn er stefna sem er í miklum samhljómi við það sem gerist annars staðar enda var byggt á ítarlegum gögnum og greiningum á lykilbreytingum í ytra umhverfi og tækni. Þetta eru spennandi tímar sem fela í sér margs konar áskoranir.

Fjölmiðlun á fleygiferð

Á liðnum fimm árum hefur orðið sannkölluð umbylting í alþjóðlegum fjölmiðlaheimi. Aðgangur að erlendu afþreyingarefni er nánast takmarkalaus en efni á íslensku, um íslenskt samfélag og samhengi, er af skornum skammti. Samfélagsmiðlar eru orðnir fjölmiðlar, streymisveitur kollvarpa viðskiptalíkönum áskriftarmiðla og ofgnótt er af mistraustum fréttum. Þessi breyting hefur svo áhrif á óskir almennings um þjónustu. Ný stefna RÚV til 2021 snýst ekki síst um að útskýra hvernig RÚV ætlar að takast á við þetta verkefni, á sama tíma og við stöndum vörð um almannaþjónustuhlutverkið, að upplýsa, fræða og skemmta. Til viðbótar viljum við efla RÚV sem uppbyggilegt hreyfiafl í samfélaginu, sem opinn vettvang hugmyndaþróunar, til samstarfs og uppbyggilegrar samfélagsumræðu sem skilar áþreifanlegu virði til einstaklinga sem og samfélagsins alls. Stefnan felur þó ekki í sér stærra RÚV, langt í frá, heldur mun skarpari forgangsröðun innan þess ramma sem fyrir liggur.

Staða RÚV

Staða RÚV er sterk, áhorf og hlustun er góð og viðhorfskannanir benda til meiri ánægju almennings með þjónustu RÚV en áður hefur mælst. Engu að síður leggur RÚV upp í þessa ferð eftir hartnær áratug af samfelldum niðurskurði. Engum dylst að ýmislegt hefur látið undan, eins og óhjákvæmilegt er. En með samstilltu átaki starfsmanna og stjórnenda hefur hins vegar tekist að halda úti metnaðarfullri almannaþjónustu og rekstur er í jafnvægi. Við höfum á undanförnum misserum forgangsraðað og breytt ýmsu í starfsemi RÚV. Það miðar alltaf að því að gera betur, að bæta þjónustuna. Þannig tryggjum við að RÚV sé að veita trausta og áhugaverða almannaþjónustu sem er í takt við tímann og óskir almennings.

Helstu stefnuáherslur til 2021

Ný stefna RÚV inniber fjölda stefnumiða og aðgerða. Í stuttri grein er aðeins hægt að stikla á þeim helstu en m.a. verður lögð áhersla á að RÚV nái til allra aldurshópa og því verður þjónusta við yngra fólk (15-29 ára) bætt með þróun nýrra miðlunarleiða og dagskrárefnis. KrakkaRÚV verður eflt og fest í sessi. Þróaður verður nýr spilari sem eykur efnisframboð utan hefðbundinnar útsendingar í þeim tækjum sem fólk vill helst nota. RÚV vill efla enn sköpun og miðlun íslenskrar menningar, m.a. með stórsókn íslensks leikins efnis og í þeim tilgangi er RÚV myndir formfest í skipulagi félagsins. Nýtt, nútímalegt fréttastúdíó gerir fréttaþjónustu snarpari og vikulegur fréttaskýringaþáttur hefur göngu sína haustið 2017. Þetta er í takt við aukna áherslu á snarpa og hraða fréttaþjónustu í bland við dýpri rýni sem krefst tíma og þolinmæði. Við leggjum áherslu á að efla ritstjórnir sem starfa jöfnun höndum fyrir alla miðla RÚV. Á sama tíma verður samtalið við þjóðina galopnað með opnum hugmyndadögum þar sem óskað verður eftir hugmyndum að dagskrárefni frá framleiðendum og almenningi. Þá vill RÚV auka samstarf við menningarstofnanir og skapandi greinar auk annarra fjölmiðla, m.a. með því að gera aðstöðu, tæki og þjónustu sína aðgengilega sjálfstæðum framleiðendum. Aðalmyndver RÚV, hið eina sinnar tegundar hér á landi, verður t.a.m. gert aðgengilegt. Með þessu vill RÚV leggja sitt af mörkum til þess að viðhalda fjölbreyttri fjölmiðlun á Íslandi. Á komandi árum verður almenningi enn fremur gefinn kostur á auknu stafrænu aðgengi að þeim dýrmæta menningararfi samtímasögunnar sem RÚV fangar á hverjum degi og varðveitir í safni sínu. Til að nýjar stefnuáherslur nái fram að ganga verður þjálfun og endurmenntun starfsfólks efld markvisst með RÚV- skólanum ásamt því sem aukinn kraftur er settur í hugbúnaðarþróun og sprotaverkefni.

Kjarni stefnu RÚV til 2021 ert þú

Hjartað í nýrri stefnu RÚV er íslenskur almenningur í öllum fjölbreytileika sínum. Þegar fólk notar það sem RÚV gerir, eða nýtur þess, skapast virði – og það er takmark okkar: að vera þjóðinni verðmæt. Ný stefna RÚV setur þig í öndvegi og fjárfestir þannig í framtíðinni. Nánari upplýsingar um stefnuáherslur RÚV og fjölmargar aðgerðir, sem þeim fylgja, er hægt að kynna sér ítarlega á www.RUV.is/2021 og við hvetjum alla til að kynna sér áherslurnar og fylgja RÚV áfram inn í spennandi tíma.

Höfundur er útvarpsstjóri.

Höf.: Magnús Geir Þórðarson