Nýtt hverfi Hugmyndir eru um blandaða byggð með atvinnustarfsemi og íbúðum.
Nýtt hverfi Hugmyndir eru um blandaða byggð með atvinnustarfsemi og íbúðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Framkvæmdir við að breyta gömlu Áburðarverksmiðjunni í kvikmyndaver standa yfir og er stefnt að því að hefja þar framleiðslu fyrir áramót.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Framkvæmdir við að breyta gömlu Áburðarverksmiðjunni í kvikmyndaver standa yfir og er stefnt að því að hefja þar framleiðslu fyrir áramót.

Iðnaðarmenn eru að sjóða í sundur tæki og búnað sem áður var hluti af verksmiðjunni. Með því lýkur kafla í iðnsögu Íslands en um leið hefst nýr kafli í kvikmyndagerðinni.

Hér á síðunni má sjá drög að því hvernig húsakynnin munu líta út.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir áformað að svæðið verði miðstöð skapandi greina. Þá verði þar jafnvel yfir þúsund íbúðir.

Nýtt deiliskipulag í haust

Hann rifjar upp að í fyrrahaust sigraði arkitektastofan Jvantspijker + Felixx í hönnunarsamkeppni um nýtt Gufunes. Hann reiknar með að nýtt deiliskipulag liggi fyrir í haust. Hann segir RVK Studious, Kukl tækjaleigu, Félag kvikmyndagerðarmanna, IRMU leikmyndagerð og ýmis fyrirtæki munu verða frumbyggja í nýja kvikmyndahverfinu. Kvikmyndafólkið vilji taka svæðið í notkun sem fyrst. Fjöldi fyrirtækja vilji hafa þar aðsetur.

Dagur segir Félag kvikmyndagerðarmanna munu verða með skrifstofuhótel í húsnæði þar sem voru skrifstofur Áburðarverksmiðjunnar. Skipulag svæðisins sé á vissan hátt tilraunaverkefni. Mikilvægt sé að fyrirtæki hafi þar rými til að vaxa. Hann segir aðspurður svæðið geta orðið ódýrara en t.d. miðborgin.

„Ef okkur ber gæfu til að leyfa þessu að vera hrátt og öðruvísi án þess að leggja út í dýra bílakjallara eða slíkt á þetta að geta verið það.“

Bátar tengi borgarhluta

Hér fyrir ofan má sjá drög að nýrri bryggju í Gufunesinu. Dagur segir hugmyndir um að sundastrætó sigli þaðan til miðborgarinnar, t.d. að Hörpu. Þá sé í skoðun að koma við í Bryggjuhverfinu og víðar. Hann útiloki t.d. ekki siglingar í Kársnes.

„Við höfum falið umhverfis- og skipulagssviði að kanna raunhæfni bátasamgangna milli miðborgarinnar og Gufuness. Eins og skipulagssamkeppnin um Gufunes dró fram er þetta mjög áhugaverður kostur fyrir þá sem eru að fara frá Gufunesinu í miðbæinn. Siglingin tekur stuttan tíma og þetta er þægilegur og skemmtilegur ferðamáti sem myndi ekki skapa jafnmikla umferð og ef við myndum fara hefðbundar leiðir.

Við ætlum jafnframt að hefja tilraunasiglingar milli Reykjavíkur og Akraness um miðjan júní,“ segir Dagur og víkur að þeim möguleikum sem nýja Akraborgin muni skapa.

„Ef þú getur skutlast með nýju Akraborginni á innan við 30 mínútum og siglt inn í miðborgina og verið þar í seilingarfjarlægð við næstu hjólaleigu, þar sem þú getur rúllað þér út í háskóla eða hvert sem er, þá ertu alls ekki lengra ofan af Skaga en frá ýmsum öðrum nágrannasveitarfélögum borgarinnar,“ segir Dagur B. Eggertsson.