Það gengur ekki að helmingi færri innflytjendur ljúki framhaldsskóla en nemar af íslenskum uppruna

Mun færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskólum en nemendur af íslenskum uppruna. Aðeins 31% innflytjenda sem innrituðust í framhaldsskóla árið 2004 hafði lokið námi sjö árum síðar eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag. 62% nemenda af íslenskum uppruna höfðu lokið námi á þeim tíma.

Þessar tölur eru ekki góðs viti. Það getur ekki talist eðlilegt að helmingi færri innflytjendur ljúki námi, en nemendur af íslenskum uppruna.

Líklegt er að þennan mikla mun megi að stórum hluta skrifa á skort á íslenskukunnáttu. Mikilvægt er að innflytjendur sem hingað koma á grunnskóla- eða framhaldsskólaaldri læri íslensku og hafi sömu tækifæri og aðrir til að afla sér menntunar. Hér er ekki verið að boða ný sannindi. Í lögum er kveðið á um að nemendur með annað móðurmál en íslensku eigi rétt á íslenskukennslu. Síðan segir: „Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda og að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi.“ Það er hins vegar eitt að setja lög og annað að framfylgja þeim.

Oft er sagt að foreldrarnir flytji til nýs lands til að búa börnum sínum betra líf. Takist það hins vegar ekki og þau flosni upp úr námi og verði utangátta í samfélaginu sé það ávísun á vandamál.

Þess vegna þarf að fara ofan í saumana á því hvers vegna þetta mikla brottfall á sér stað og finna leiðir til úrbóta.