Bræður Michael og Lincoln standa vel fyrir sínu.
Bræður Michael og Lincoln standa vel fyrir sínu.
Ljósvaki dagsins hefur saknað þáttanna The Prison Break frá því þeir hurfu af skjá Fox-stöðvarinnar fyrir tæpum átta árum.

Ljósvaki dagsins hefur saknað þáttanna The Prison Break frá því þeir hurfu af skjá Fox-stöðvarinnar fyrir tæpum átta árum. Allar fjórar seríur þáttanna eru komnar inn á Sjónvarp Símans og Netflix en nú er sú fimmta farin af stað á Stöð 2, aðdáendum þáttanna til mikillar ánægju. Þegar fjórðu seríunni lauk virtust örlög aðalpersónunnar, hins geðþekka en dularfulla Michaels Scofield, vera ráðin. Nú virðist sem dauði hans hafi verið settur á svið og hann látinn dúsa í fangelsi í Jemen við hræðilegar aðstæður undanfarin átta ár. Nýja þáttaröðin fylgir sömu uppskrift og þær sem á undan komu, þar sem Michael nýtur aðstoðar bróður síns og fólks sem hann kynnist innan veggja fangelsisins. Þegar upp kemst að hann er á lífi fljúga bróðir hans, glæpamaðurinn Lincoln Burrows og fyrrverandi samfangi hans, Benjamin Miles, til Jemen til þess að aðstoða hann við að flýja. Þrátt fyrir að Michael takist að sleppa er þáttunum hvergi nærri lokið, þá hefst æsispennandi eltingarleikur þar sem þeir bræður eru eltir á röndum af öfgamönnum. Það ber að vara fólk við að byrja á þáttunum því afleiðingarnar geta verið svefn af skornum skammti.

Aron Þórður Albertsson

Höf.: Aron Þórður Albertsson