Hreyfivika á Akranesi Anna Bjarnadóttir og Dóra Björk Scott á Akrafjalli.
Hreyfivika á Akranesi Anna Bjarnadóttir og Dóra Björk Scott á Akrafjalli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Lokahnykkur Hreyfiviku UMFÍ er um helgina og eru aðstandendur átaksins ánægðir með undirtektirnar. „Þetta hefur gengið frábærlega vel,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi hjá UMFÍ.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Lokahnykkur Hreyfiviku UMFÍ er um helgina og eru aðstandendur átaksins ánægðir með undirtektirnar. „Þetta hefur gengið frábærlega vel,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi hjá UMFÍ. „Í þessari átaksviku í Evrópu eru flestir viðburðir skráðir á Íslandi auk þess sem við höfum verið fyrirmynd hvað varðar að fá stóra bakhjarla fyrir verkefnið og hugmyndir úr grasrótinni.“

Fjölbreytni á Akranesi

Íþróttabandalag Akraness hefur boðið upp á mjög fjölbreytta dagskrá alla vikuna. Þar má nefna gönguferðir, göngu á línu, hlaupaæfingar, kraftlyftingar, vatnsleikfimi, sjósund, samflot, hreyfistjórn, körfubolta og fleira.

Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri ÍA, segir að vel hafi gengið vegna sameiginlegs átaks flestra aðildarfélaga. Allir hafi gefið vinnu sína og frítt hafi verið á alla viðburði. Hún hafi haldið úti síðu á Facebook, Hreyfivika á Akranesi, og þar hafi hún sett reglulega inn myndir og fleira. „Það var til dæmis fullt í fimleika fyrir fullorðna, eins í samflotinu og hreyfistjórnun var mjög vinsæl,“ segir hún. „Akranes er mikill hjólabær og hjólakynningu hjá hjólahópnum var vel tekið.“ Hildur bætir við að þrjár gönguferðir á Akrafjall hafi verið vinsælar og skemmtilegt hafi verið að sjá hvað margir hafi viljað reyna sig í kraftlyftingum. Klifurfélagið hafi boðið upp á klifuræfingar og sennilega hafi ekki víða annars staðar verið boðið upp á að ganga á línu.

Fjölbrautaskólinn á Akranesi er heilsueflandi framhaldsskóli og kominn í frí. Hildur segir það miður, því á næsta ári vilji hún höfða meira til skólanna, en nægur tími sé til þess að finna lausn á því. „Áhuginn er mikill og við erum rétt að byrja,“ segir hún.

Sabína áréttar að UMFÍ hafi það alltaf að leiðarljósi að allar vikur séu hreyfivikur. Öflugir boðberar um allt land hafi gert þessa hreyfiviku sérstaka, þar sem í boði hafi verið yfir 400 viðburðir. Að loknu átakinu fari nöfn boðberanna í pott og verðlaunahafar verði dregnir út í næstu viku. „Allir boðberar eiga því möguleika á að vinna glæsileg verðlaun,“ segir hún.