[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, var ræðukóngur Alþingis að þessu sinni. Þetta vekur athygli því hann var nýliði á þingi. Kolbeinn talaði í 933 mínútur samtals.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, var ræðukóngur Alþingis að þessu sinni. Þetta vekur athygli því hann var nýliði á þingi.

Kolbeinn talaði í 933 mínútur samtals. Hann flutti 125 ræður og gerði 196 athugasemdir eins og það kallast á ræðulista Alþingis.

Fast á hæla Kolbeins kom flokkssystir hans Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir en hún var einmitt ræðudrottning síðasta löggjafarþings.

Stjórnarandstaðan á níu af tíu þingmönnum á „topp 10“ listanum. Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og þingmaður Viðreisnar, er sá eini í stjórnarliðinu sem nær inn á listann. Venjan hefur verið sú að þingmenn stjórnarandstöðunnar eiga oftar erindi í ræðustól Alþingis en stjórnarþingmenn.

Vinstri græn eiga eins og oft áður flesta þingmenn á listanum eða fjóra. Margfaldur ræðukóngur undanfarinna áratuga, Steingrímur J. Sigfússon, var hársbreidd frá þvi að komast á listann að þessu sinni. Hann talaði í 491 mínútu og varð í 11. sæti. Væntanlega þarf að fara langt aftur í tímann til að finna löggjafarþing þar sem Steingrímur er ekki á „topp 10.“ Steingrímur hefur setið lengst allra núverandi þingmanna á Alþingi eða í 34 ár.

Þegar listinn yfir þá þingmenn sem skemmst töluðu er skoðaður skera þeir sig nokkuð úr, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Páll Magnússon. Reyndar töluðu tveir kjörnir þingmenn skemur en þeir félagar, píratarnir Eva Pandóra Baldursdóttir og Gunnar Hrafn Jónsson. En þau tvö gátu ekki sótt þingfundi í langan tíma og eru því ekki talin hér með.

Samkvæmt yfirliti Alþingis voru þingræður í vetur alls 3.902 og athugasemdir 3.653. Þingmenn töluðu í samtals 320 klukkustundir. Meðallengd þingræða var 3,6 mínútur.

Vegna alþingiskosninganna í október í fyrra hófst 146. löggjafarþingið óvenjuseint. Af þeim sökum eru ræðurnar færri en oftast áður. Þegar 145. löggjafarþinginu var frestað í júníbyrjun í fyrra hafði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir „forystuna“ en hún hafði þá talað í 26 klukkustundir. sisi@mbl.is