Ung að árum F.v. Guðrún (sú lægri á myndinni) ásamt systur sinni Magneu sem var elst í systkinahópnum, Guðrún árið 1908, lengst til hægri eru Guðrún og Bjarnveig vinkona hennar sem var frá Hnífsdal.
Ung að árum F.v. Guðrún (sú lægri á myndinni) ásamt systur sinni Magneu sem var elst í systkinahópnum, Guðrún árið 1908, lengst til hægri eru Guðrún og Bjarnveig vinkona hennar sem var frá Hnífsdal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar bókmenntaelítunni og háskólasamfélaginu þótti vinsældir Guðrúnar frá Lundi keyra um þverbak upphófust harmakvein um meinta menningarhnignun þjóðarinnar, sem læsi gamla sveitarómana sér til óbóta.

Þegar bókmenntaelítunni og háskólasamfélaginu þótti vinsældir Guðrúnar frá Lundi keyra um þverbak upphófust harmakvein um meinta menningarhnignun þjóðarinnar, sem læsi gamla sveitarómana sér til óbóta. Talað var um „kellingabókmenntir“, reyfararusl og þar fram eftir götunum. Upp úr aldamótum fór skáldkonan smám saman að fá uppreisn æru í bókmenntalegu tilliti. Ný Guðrúnar-bylgja gekk í garð og í dag, 3. júní, þegar 130 ár eru frá fæðingu hennar, opna þær Marín Guðrún Hrafnsdóttir og Kristín Sigurrós Einarsdóttir sýninguna Kona á skjön um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Ævintýralegar vinsældir Guðrúnar frá Lundi breyttu engu um að íslenska bókmenntaelítan og háskólasamfélagið fitjuðu upp á nefið og flokkuðu bækur hennar með erlendum afþreyingarbókmenntum og reyfararusli. Vel að merkja – ef á annað borð var látið svo lítið að minnast á þær í opinberri umræðu. Ástarvellur, kaffibollaþvaður og guðmávita hvaða lýsingar lærðir menn viðhöfðu um metsölubækur þessarar rosknu og hógværu sveitakonu, sem kvaðst einungis skrifa sér til ánægju. Í viðtölum síðar meir þegar stór hluti þjóðarinnar las allt sem frá henni kom af fádæma áfergju, baðst hún hálfpartinn afsökunar á því að skrifa svona mikið, en sagði að sér þætti afskaplega vænt um áhuga lesenda.

„Gagnrýnisraddirnar voru sérstaklega háværar á 7. og 8. áratug liðinnar aldar. Fyrstu tíu árin eða svo eftir að Dalalíf í fimm bindum, Afdalabarn og Tengdadóttirin í þremur bindum, höfðu komið út, var ekki mikið amast við henni. Fyrstu dómar voru jákvæðir og allir hældu henni fyrir sagnagáfu og persónusköpun,“ segir langömmubarn skáldkonunnar, Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur, sem ásamt Kristínu Sigurrós Einarsdóttur, leiðsögumanni og kennara, hafði veg og vanda af sýningunni Kona á skjön - Sýning um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi, sem opnuð verður í dag, 3. júní, á Sauðárkróki, en þá eru 130 ár frá fæðingu skáldkonunnar.

Boðið í eldhússkrókinn

Þær stöllur hafa undirbúið sýninguna um eins árs skeið og víða leitað fanga, en hún er hluti af lokaverkefni Marínar Guðrúnar í hagnýtri menningarmiðlun í Háskóla Íslands. „Við segjum sögu Guðrúnar á 19 textaspjöldum, sem við gerum okkur far um að setja fram á skemmtilegan hátt þannig að frásögnin höfði bæði til þeirra sem þekkja verk Guðrúnar og sögu og hinna sem minna vita. Mesti galdurinn var velja úr öllum þeim heimildum sem við höfðum úr að moða. Töluvert hefur varðveist af persónulegum munum Guðrúnar, til dæmis sauðskinnsskór, saumavél, skyrta og svunta við peysuföt, sem því miður eru glötuð. Einnig hversdagslegir hlutir eins og kaffikanna og -bollar, útsaumaðir dúkar og þvíumlíkt sem við fengum að láni hjá barnabörnum hennar, Byggðasafni Skagafjarðar og fleiri söfnum fyrir norðan,“ segir Marín Guðrún.

Sjálf lagði hún til fjaðurpenna langömmu sinnar, sem hún fékk að gjöf frá ömmu sinni, dóttur Guðrúnar, fyrir margt löngu. „Guðrún var reyndar þekkt fyrir að skrifa með blýanti sem hún nýtti upp til agna. Fjaðurpennann notaði hún allra fyrst þegar hún hóf að skrifa, en þau handrit eru týnd. Gamlar ljósmyndir og munir úr eigu Guðrúnar gerðu okkur svo kleift að útbúa stofu og eldhúskrók í sýningarrýminu í líkingu við heimili hennar á Sauðárkróki.“

Þá verða á sýningunni lifandi myndir; sjónvarpsviðtal við skáldkonuna frá 1972 og upplestrar úr bókum hennar í útvarpinu. Sýningarhöfundar hafa um nokkurra ára skeið haldið námskeið og verið með fyrirlestra um ævi og störf skáldkonunnar. „Við kynntumst þegar Kristín Sigurrós bauð okkur ættingjunum í fyrstu rútuferðina sem hún efndi til á söguslóðir Guðrúnar; um Fljótin, út á Skaga og um Sauðárkrók. Báðar erum við mjög áhugasamar um að halda minningu hennar á lofti og rétta hennar hlut,“ segir Marín Guðrún og víkur talinu aftur að langömmu sinni og arfleifð hennar:

Metsöluhöfundur í áratugi

„Ég var sjö ára þegar hún lést og man lítið eftir henni að öðru leyti en því að hún kom mér fyrir sjónir sem sú hægláta og þægilega kona sem hún var. Guðrún var 52ja ára þegar hún og maður hennar, Jón Þorfinnsson, brugðu búi og fluttust til Sauðárkróks. Börnin þrjú voru flogin úr hreiðrinu, Jón mikið að heiman við smíðavinnu og því fékk hún loks næði til að skrifa. Mig grunar að hjá henni hafi kviknað draumur um útgáfu þegar frændi hennar, heildsali í Reykjavík, spurði hvort hann mætti fara með eitt handritið til útgefanda. Handritið flakkaði milli forlaga í nokkur ár, en loks birtist Afdalabarn sem framhaldssaga í Nýju kvennablaði við miklar vinsældir. Þegar þar var komið sögu afréð Gunnar Einarsson hjá Leiftri, stofnandi Ísafoldarprentsmiðju, að gefa út Dalalíf á árunum 1946-1951, og Afdalabarn 1950.“

Þessar bækur og allar bækur Guðrúnar næstu árin nutu þvílíkra vinsælda að annað eins hafði ekki þekkst. Guðrún var ekki einnar eða tveggja bóka höfundur heldur naut hún metvinsælda samfellt í tvo áratugi. Bækurnar voru efstar á lista hvort sem litið var til sölu eða útlána í bókasöfnum. „Smám saman spunnust umræður um að menningu þjóðarinnar færi hnignandi, þjóðin lægi bara í léttvægum sveitasögum og hefði ekki lengur áhuga á að lesa gömlu þjóðskáldin eða nýju, framúrstefnuskáldin sem veltu sér upp úr síðari heimsstyrjöldinni og öllu því hræðilega í breyttum heimi eftirstríðsáranna. Þetta þótti merki þess að Íslendingar væru ekki með á nótunum um það sem var að gerast í stíl, stefnum og straumum,“ segir Marín Guðrún og bætir við að mikið óþol hafi myndast gagnvart Guðrúnu og öðrum vinsælum kvenrithöfundum sem komu fram á sjónarsviðið á þessum tíma.

Í rannsóknum sínum hefur hún komist að raun um að þeir sem lásu Laxness, sökktu sér líka niður í bækur Guðrúnar frá Lundi. „Sumir vildu bara ekki viðurkenna það, ekki frekar en kannski núna að fólk þykist ekki horfa á ameríska sápuþætti í sjónvarpinu – eða fara í Costco,“ segir hún hlæjandi, en tekur fram að vitaskuld eigi bækur Guðrúnar ekkert skylt við fyrrnefnd fyrirbæri. Viðbrögðin séu bara svolítið af sama meiði.

„Gríðarlegt valdaójafnvægi var í umræðunni. Annars vegar voru raddsterkir fræðimenn sem fundu bókum hennar flest til foráttu, og hins vegar þeir sem elskuðu þær og dáðu, en höfðu enga rödd, engan vettvang til að tjá skoðanir sínar líkt og til dæmis núna á samfélagsmiðlum og kommentakerfum. Sýningunni er ætlað að spegla umræðuna eins og hún raunverulega var, þar á meðal „kellingabókaumræðuna“, og eins og hún hefur þróast frá aldamótum, þegar farið var að meta Guðrúnu frá Lundi og verk hennar að verðleikum.“

Ný Guðrúnar-bylgja

Þótt bækur Guðrúnar hafi ekki fundið sér stað í bókahillum stássstofanna á öllum heimilum, áttu þær sinn stað í hjarta þorra landsmanna. „Þökk sé Dagnýju Kristjánsdóttur, Helgu Kress og fleiri fræðikonum, sem haldið hafa kvennabókmenntum á lofti, fékk Guðrún uppreisn æru í bókmenntalegu tilliti. Ný Guðrúnar-bylgja gekk í garð. Hún var tekin fyrir í áföngum í ástarsögum og kvennabókmenntum í Háskóla Íslands, skrifaðar um hana lærðar BA- og MA-ritgerðir og bækur hennar endurútgefnar. Árið 2006 fékk hún í fyrsta skipti inni í Íslensku bókmenntasögunni, heilan kafla upp á sex blaðsíður,“ segir Marín Guðrún. Sjálf hefur hún lagt sitt af mörkum, til dæmis þegar þau Guðjón Ragnar Jónasson og heimamenn í Fljótunum stóðu fyrir tveimur málþingum um skáldkonuna í Ketilási árin 2010 og 2011. „Ferðir Kristínar eru líka mjög skemmtilegar og þar er á ferðinni sannkölluð menningartengd ferðaþjónusta í Skagafirði.“

Marín Guðrún er þeirrar skoðunar að bækur Guðrúnar frá Lundi séu vel skrifaðar og uppbyggðar, þótt stíllinn sé ekki lærður. „Hún skrifar mikið í talmálsstíl, samtöl þar sem hún beitir hvorki sérstökum stílbrögðum né orðskrúði. Persónusköpunin er frábær og hún kunni að segja sögur, oft miklar örlagasögur, sem að mínu mati eru ekki ólíkar hinum stóru, epísku skáldsögum Selmu Lagerlöf. Persónur Guðrúnar lifna við í augum lesandans. Þær eru margar hverjar miklir gallagripir og mannlegur breyskleiki í forgrunni,“ segir Marín Guðrún um sögur metsöluhöfundar í áratugi, sem þótti athyglin einfaldlega óþægileg og vildi helst fá að vera í friði. Feimnin fór aldrei af henni að sögn langömmubarnsins og hún taldi sig aldrei til hóps íslenskra rithöfunda.

Kona á skjön - Sýning um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi, verður opnuð kl. 14 í dag, 3. júní, að Aðalgötu 2 á Sauðárkróki. Opið verður alla daga frá kl. 13-17 í júní og júlí. Aðgangur er ókeypis og heitt á könnunni.