Vinnubrögð vegna borgarhjóla vekja spurningar

Vinnubrögðin hjá Reykjavíkurborg halda áfram að vekja furðu. Nú hefur verið greint frá því að síðar í þessum mánuði verði gestum og gangandi boðið að stíga á borgarhjól. Slíkt fyrirkomulag má finna víða um heim og er því ekkert einsdæmi. Gegn gjaldi er hægt að taka hjól á einum stað til að komast leiðar sinnar og skilja eftir á öðrum.

Margir munu eflaust fagna þessari nýjung í borginni. Ekki stendur þó öllum á sama eins og fram kemur í fréttaskýringu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins nú um helgina. Þar segir Stefán Helgi Valsson, sem rekur Reykjavík Bike Tours og býður upp á hjólaferðir og hjól til leigu, að allt að 90% samdráttur verði hjá hjólaleigum við tilkomu borgarhjóla sem þessara.

Í greininni finnur Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins JCDecaux á Íslandi, sem rekur biðskýlin fyrir strætisvagna í borginni, að því að ekki hafi verið haldið útboð. Borgin hafi fyrir rúmu ári auglýst eftir áhugasömum rekstraraðilum, en ekkert hafi verið vitað um hvað til stæði að hjólin yrðu mörg eða hvenær ætti að láta til skarar skríða. Einar sagði að fyrirtækið hefði ekki viljað vera með á þessu stigi, en myndi taka þátt í útboði þegar þar að kæmi.

Útboðið fór aldrei fram. Þess í stað var tilkynnt að samið hefði verið við flugfélagið WOW. Verða hjólastöðvarnar átta alls.

Einar segir þetta sérstakt þar sem hjólastöðvarnar séu allar í borgarlandi. Á næsta ári hyggist borgin einmitt bjóða út rekstur strætóskýlanna, sem nú er í höndum JCDecaux, með þeim rökum að hún sé að láta eftir borgarland.

Í fréttaskýringunni koma fram þau svör frá borginni að enginn þeirra fjögurra aðila, sem funduðu með borginni vegna auglýsingarinnar í fyrra hafi verið tilbúinn að leggja fram bindandi tilboð. Í haust hafi hins vegar tveir aðilar haft samband. WOW var annar þeirra og í kjölfarið hafi verið samið við flugfélagið.

Margt hefur aflaga farið í þessu ferli. Hjá borginni hafa menn greinilega ekki velt því fyrir sér hvaða áhrif það hefði á þau fyrirtæki sem fyrir eru að opinbert bolmagn yrði notað til að gera nýjum keppinauti kleift að hasla sér völl með því að tryggja honum aðgang að stöðum í borginni þar sem jafnan er margt um ferðamanninn.

Þá getur borgin varla ætlast til þess að fyrirtæki geri bindandi tilboð í verkefni sem er óljóst og óskilgreint. Það getur ekki verið afsökun fyrir því að halda ekki útboð að þau fyrirtæki sem þá gáfu sig fram hafi ekki verið tilbúin að skuldbinda sig.