Páll Hjaltason.
Páll Hjaltason.
Páll Hjaltason arkitekt hefur unnið að endurhönnun gömlu Áburðarverksmiðjunnar svo hún henti undir starfsemi RVK Studios. Verksmiðjan var í mörgum húsum og kallar Páll þennan hluta „gamla braggann“.

Páll Hjaltason arkitekt hefur unnið að endurhönnun gömlu Áburðarverksmiðjunnar svo hún henti undir starfsemi RVK Studios. Verksmiðjan var í mörgum húsum og kallar Páll þennan hluta „gamla braggann“. Á mynd hér fyrir ofan er sýnt þversnið af bragganum. Til glöggvunar á stærðinni hefur þar verið teiknuð inn farþegaþota.

Gætu þurft mikinn mannskap

Páll segir húsið um 3.200 fermetra og með 13 metra lofthæð í sal.

„Þetta gæti orðið mjög stór vinnustaður. Kvikmyndagerðarfólkið talar um að allt að 200 manns geti starfað við verkefnin,“ segir Páll.

Páll segir aðspurður að framkvæmdir þurfi ekki að taka langan tíma. Það þurfi enda ekki að byggja húsin heldur aðeins að innrétta þau. „Ég hef verið að endurskipuleggja vélahúsið sem er utan á bragganum þar sem kvikmyndaverið verður. Þar verður innréttað skrifstofuhúsnæði,“ segir Páll um vesturhlutann.

Þök hönnuð fyrir sprengingar

Það þurfi meðal annars að skipta um lagnir og leggja ljósleiðara svo svæðið henti undir starfsemina.

Páll bendir á að þakið á sumum byggingunum sé ekki áfast þeim, heldur liggi þökin á þyngd sinni. Sú hönnun hafi tekið mið af hættunni á sprengingum í gömlu Áburðarverksmiðjunni. Það hafi verið talið betra að þakið lyftist upp en að veggir þrýstust út við sprengingu.

Hann segir heildarmynd svæðisins munu skýrast þegar búið er að vinna tillögur upp úr vinningstillögunni sem kynnt var í fyrrahaust.

Hann segir borgina sjá fyrir sér að norðurhluti svæðisins þróist fyrst. Ákveðin kaflaskil verði með því að Íslenska gámafélagið fari 2022.

„Þróunarsvæðið mætti vel lengi vera að byggjast upp. Hér mætti lengi hafa lóðir og aðstöðu fyrir fyrirtæki til að flytja hingað. Þegar hér er kominn kjarni með sambærilegri starfsemi er gott að geta bætt í hópinn. Það styrkir það sem fyrir er. Þá er ágætt að vera ekki búinn að klára uppbygginguna.“