Þorsteinn Arnalds
Þorsteinn Arnalds
Eftir Þorstein Arnalds: "Niðurstaða dómnefndarinnar er lítið rökstudd og illa unnin og má fullyrða að rökstuðningur dómsmálaráðherra taki rökstuðningi nefndarinnar langt fram."

Alþingi samþykkti á fimmtudag tillögu dómsmálaráðherra um skipun fimmtán dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra taldi fleiri hæfasta en dómnefnd, sem lagði mat á hæfni umsækjenda. Sumir hafa gagnrýnt ákvörðun ráðherra og þá helst á þeim forsendum að hann hafi ekki rökstutt ákvörðun sína nógu vel. Er þá meðal annars vísað til þess að dómnefndin hafi skilað 117 síðna greinargerð en ráðherra tveggja síðna. Fyrir utan að ráðherra styðst við þessa ítarlegu greinargerð nefndarinnar er eilítill galli á þessari röksemdafærslu: Niðurstaða dómnefndarinnar er ekki byggð nema með óbeinum hætti á þessari löngu greinargerð.

Tillaga dómnefndarinnar er byggð á því að gefa einkunnir fyrir þá þætti sem metnir voru til hæfni. Einkunnirnar voru síðan vegnar saman með tilteknum hætti til að komast að niðurstöðu. Ekki hefur komið fram hvernig einkunnir voru gefnar en vægi einstakra matsþátta hefur komið fram, sem og lokaeinkunn umsækjenda (sjá t.d. vef Kjarnans 30. maí sl.). Vegna þessa er vert að hafa eftirfarandi í huga:

1. Í rökstuðningi nefndarinnar er umsækjendum raðað með tilliti til nokkurra hæfniþátta. Þessari röðun virðist síðan hafa verið breytt í einkunn, sem vegin er með öðrum einkunnum til að mynda lokaeinkunn. Af lokaeinkunnum að ráða, sem eru á bilinu 3,5 til 7,4, má ímynda sér að einkunnagjöf hafi verið á hefðbundnum kvarða 0-10. Hvernig kvarðinn er notaður fyrir einstaka matsþætti gæti haft úrslitaáhrif á lokaeinkunn og lokaröðun umsækjenda. Ekki er rökstutt í áliti nefndarinnar hvernig einkunnir eru gefnar.

2. Nefndin ákveður að gefa hverjum hæfniþætti tiltekið vægi. Vægi hæfniþátta gæti haft úrslitaáhrif á endanlega röðun umsækjenda. Svo „skemmtilega“ vill reyndar til að heildarvægi hæfniþátta er 105%! Nefndin rökstyður ekki hvers vegna hver hæfniþáttur fær það vægi sem raun ber vitni.

3. Dómnefndin velur að dæma 15 umsækjendur „hæfasta“ á grundvelli röðunar samkvæmt einkunnagjöf sinni. Sá hæfasti er með einkunnina 7,35, sá fimmtándi hæfasti er með 5,48 og sá sextándi með 5,45. Það munar sem sagt 0,03 á fimmtánda, sem er einn þeirra hæfustu, og þeim sextánda, sem er það ekki. Þetta er sextíu sinnum minni munur en á þeim hæfasta og þeim fimmtánda hæfasta. Sé horft til einkunna með einum aukastaf eru þeir sem eru í 14.-16. sæti allir með 5,5 í einkunn. Ef einkunnir væru gefnar í heilum og hálfum tölum, eins og algengt er í skólakerfinu, væru þeir sem eru í 12.-18. sæti allir með einkunnina 5,5. Erfitt er að sjá að á grundvelli einkunnagjafar nefndarinnar séu rök fyrir því að draga mörk við 15. sæti.

Vert er að taka undir að skriflegur rökstuðningur dómnefndar er ítarlegur og vandaður, enda segist dómsmálaráðherra hafa byggt niðurstöðu sína á honum. Lokaniðurstaða nefndarinnar er hins vegar lítið rökstudd og illa unnin og óhætt að fullyrða að rökstuðningur dómsmálaráðherra taki rökstuðningi nefndarinnar langt fram. Því ber að fagna að dómsmálaráðherra hafi staðið í fæturna í þessu máli og lagfært ágalla í málsmeðferð nefndarinnar.

Höfundur er tölfræðingur.

Höf.: Þorstein Arnalds