Táknmyndir Inga Lísa Middleton við verk sín á vegg Ljósmyndasalar Þjóðminjasafnsins.
Táknmyndir Inga Lísa Middleton við verk sín á vegg Ljósmyndasalar Þjóðminjasafnsins. — Morgunblaðið/Ófeigur
Þorgerður Anna Gunnarsdóttir thorgerdur@mbl.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

thorgerdur@mbl.is

„Því lengur sem ég bý úti því meira hugsa ég heim,“ segir Inga Lísa Middleton, ljósmyndari og kvikmyndagerðarkona, um ljósmyndasýningu sína, Hugsað heim, sem opnuð verður í Þjóðminjasafninu í dag, laugardaginn 3. júní.

Inga Lísa er með mastersgráðu í ljósmyndun frá The Royal College of Art í London og hefur búið lengi þar í borg. Hún segir heimþrána og nostalgíuna aukast með tímanum og að þaðan komi hugmyndin að sýningunni.

„Ég syng líka í íslenska kórnum hér í London og við syngjum mikið af ættjarðarlögum, sem magnar tilfinninguna,“ segir Inga Lísa en hún kemur reglulega til landsins til að taka myndir og vinna að öðrum verkefnum.

Notar aðferð fyrsta ljósritsins

Inga Lísa fór að gera tilraunir með Cyanotype-tæknina sem fundin var upp af breska vísindamanninum og stjörnufræðingnum John Herschel árið 1842. „Þetta er eiginlega fyrsta ljósritið. Hann notaði sólarljósið til að fjölfalda skrif sín,“ segir Inga Lísa og kveðst nota þessa gömlu aðferð til að vinna ljósmyndirnar á sýningunni. Aðferðinni lýsir hún þannig að hún málar ljósnæma upplausn eftir uppskrift Herschel á vatnslitapappír og leggur svo negatívu á flötinn. Hún segir sólarljósið upphaflega hafa verið notað til að framkalla myndirnar en sjálf noti hún útfjólubláa lampa því ekki sé stanslaus sól í London.

Gaman að prenta í höndunum

„Við gerum svo mikið í tölvunni svo það er rosalega gaman að prenta svona í höndunum,“ segir Inga Lísa. Að lokum segist hún skola myndirnar í vatni þannig að blái cyan-liturinn birtist. „Mér fannst þetta vera einskonar nostalgíulitur eða Íslandsblús. Ljós hérna heima er líka svolítið hart og blátt svo mér fannst þetta smellpassa.“

Inga Lísa segir sýninguna hafa verið svolítið á flakki, en hún var í sendiráði Íslands í London í fyrra og nú er hún í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. „Sýningarnar eru settar upp á mismunandi hátt en þó alltaf með sama þema,“ segir hún, en sýningin verður í Þjóðminjasafninu fram á haust.

Táknmyndir fyrir Ísland

„Myndirnar eru einskonar táknmyndir fyrir Ísland. Hver ljósmynd hefur tvennskonar merkingu, ljóðræna og praktíska. Fossarnir eru tignarlegir og ljóðrænir en svo eru þeir líka orkugjafi. Hvönnin minnir mann á lykt og græna lit íslenska sumarsins en hún er líka lækningajurt,“ segir Inga Lísa um þema sýningarinnar.

Hún segir það mikinn heiður að fá að sýna í Þjóðminjasafninu og að sér þyki gaman að fleiri sýningar með sama þema séu á safninu á sama tíma, en ljósmyndasýningin Fuglarnir, fjörðurinn og landið eftir Björn Björnsson verður einnig opnuð í dag, laugardag.

Þegar Inga Lísa er spurð að því hvort hún fari ekki bara að flytja heim til Íslands segist hún ekki sjá það fyrir sér í náinni framtíð. „Ef ég byggi hérna heima á Íslandi hefði ég sjálfsagt ekki gert svona myndir. Fjarlægðin gerir fjöllin blá,“ segir hún að lokum.