Fugl Mandarínandarsteggur á Húsavík. Tegundin er ekki algeng hér á landi en flækist þó stundum hingað á vorin.
Fugl Mandarínandarsteggur á Húsavík. Tegundin er ekki algeng hér á landi en flækist þó stundum hingað á vorin. — Ljósmynd/Höskuldur Erlingsson
Urður Egilsdóttir urdur@mbl.is „Þetta er fallegur og skrautlegur fugl sem gaman er að berja augum,“ segir Yann Kolbeinsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, en tvær mandarínendur hafa undanfarið sést á Húsavík.

Urður Egilsdóttir

urdur@mbl.is

„Þetta er fallegur og skrautlegur fugl sem gaman er að berja augum,“ segir Yann Kolbeinsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, en tvær mandarínendur hafa undanfarið sést á Húsavík.

Öndin er meðalstór trjáönd, ættuð frá Austur-Asíu og er skyld hinni norðuramerísku brúðönd. Karlfuglinn er afar litskrúðugur og þekkist auðveldlega. Hann hefur rauðan gogg, stóra hvíta flekki yfir augunum og rauðleitt andlit. Brjóstið er fjólublátt með tveimur lóðréttum röndum og á bakinu eru tvö appelsínugul „segl“. Kvenfuglinn er með hvítan hring kringum augun og strípu sem liggur niður og aftur með auga en fölari að neðan.

Öndin var flutt til Evrópu áður fyrr þar sem hún var höfð til skrauts í skrúðgörðum og öðru slíku.

Að sögn Yann er í dag til villtur stofn mandarínandarinnar sem er komin af fuglum úr dýragörðum sem hafa sloppið. Stofninn er einnig enn mjög vinsæll í einkasöfnum um Evrópu. „Við erum að fá hingað til lands flækinga annars vegar frá þessum villta stofni í Evrópu en líka eins og þessar tvær sem eru hérna á Húsavík úr einkasöfnum.“ Parið sem finnst þar er merkt en Náttúrufræðistofan hefur ekki enn sett sig í samband við eigendurna.

Flækjast hingað reglulega

Endurnar hafa fram til þessa ekki verið þekktir varpfuglar hér á landi en flækjast reglulega hingað til lands. Yann segir að algengast sé að steggir sjáist hér á landi og að aðeins ein kolla hafi sést að hans vitund. Að hans sögn er mjög misjafnt hvað þeir komi hér við lengi. „Þeir koma hérna á vorin og oftast eru þeir hér aðeins í nokkra daga en það hefur alveg komið fyrir að þeir séu hér fram á sumarið.“

Yann nefnir að nokkrir fuglaáhugamenn hafi komið til Húsavíkur til þess að berja endurnar augum en einnig til að sjá hið auðuga fuglalíf sem er þar.

Öndin var eitt sinn nokkuð útbreidd í heimkynnum sínum en henni hefur fækkað mikið vegna útflutnings og eyðingar skóglendis en villtar mandarínendur verpa í þéttum skógi í nágrenni við grunn vötn, votlendi eða tjarnir.