Fordæmi Loftslagsmál eru ekki einkamál einstakra ríkja og telur utanríkisráðherra Ísland geta lagt sitt af mörkum.
Fordæmi Loftslagsmál eru ekki einkamál einstakra ríkja og telur utanríkisráðherra Ísland geta lagt sitt af mörkum. — Morgunblaðið/Ómar
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is „Ákvörðun Trumps um að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu hefur vakið mikla athygli um allan heim og er ekki góð.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

„Ákvörðun Trumps um að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu hefur vakið mikla athygli um allan heim og er ekki góð. Þetta er ekki neitt fagnaðarefni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra en bendir jafnframt á að þrátt fyrir ákvörðun forsetans ætli fjöldi ríkja og borga innan Bandaríkjanna að halda sig við markmið samkomulagsins.

„Ljósið í myrkrinu er kannski hinn mikli frumkvöðlakraftur Bandaríkjanna og vilji fjölda ríkja, borga og fyrirtækja að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Ákvörðun forsetans er engu að síður bakslag í hinni alþjóðlegu samvinnu í loftlagsmálum.“

Spurður hvort Ísland geti brugðist við með einhverju móti segir Guðlaugur mestu máli skipta að ganga fram með góðu fordæmi. „Við höfum staðið okkur mjög vel með notkun á endurnýjanlegri orku og lagt mikla áherslu á að sækja okkar markmið samkvæmt Parísarsamkomulaginu.“

Sigurður Ingi Jónsson, formaður Framsóknarflokksins, tekur undir orð Guðlaugs Þórs og segir það reiðarslag í loftlagsmálum að stærsta hagkerfi heims skuli segja sig frá markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þetta sé áhyggjuefni fyrir allan heiminn.

„Núna reynir enn frekar á staðfestu Íslendinga í umhverfismálum. Samband ungra framsóknarmanna ályktaði í vetur um rafbílavæðingu landsins og það er einn þáttur sem líta þarf til, auk fjölda annarra,“ segir Sigurður Ingi og minnir á mikilvægi þess að draga úr kolefnisspori landsmanna t.d. með því að neyta íslenskrar framleiðslu.

„Enn og aftur sannar íslenskur landbúnaður gildi sitt, enda mikilvægt að kaupa vörur sem ekki þarf að flytja langar leiðir á markaði. Auðvitað framleiðum við ekki allt hér en við eigum að nýta það sem við getum framleitt. Þá þurfum við einnig að efla skógrækt t.d. með bændum landsins.“

Tækifæri fyrir Kína

Ingrid Kuhlman, félagi í París 1,5, sem er baráttuhópur um að Ísland standi við gefin loforð í Parísarsamkomulaginu, segir ákvörðun Donalds Trump vera mikið áhyggjuefni en um leið tækifæri fyrir aðrar þjóðir að stíga fram og taka forystu.

„Kínverjar og Evrópusambandið hafa sent frá sér yfirlýsingar vegna ákvörðunar Trumps og ljóst að bæði ríki ætla sér að taka forystu í loftlagsmálum,“ segir Ingrid og bendir á að milljónir starfi við grænan iðnað m.a. í Bandaríkjunum og því mikið í húfi efnahagslega fyrir ríki að heltast ekki úr lestinni.

„Ísland þarf að spýta í lófana þótt margt sé vel gert hér á landi. Við mengum t.d. of mikið miðað við höfðatölu,“ segir Ingrid.

Loftlagsmál
» Bandaríkin hafa sagt sig frá
Parísarsamkomulaginu.
» Fjöldi borga og ríkja í Bandaríkjunum hafa lýst því yfir að þau muni standa við
samkomulagið.
» Evrópusambandið og Kína vilja taka forystu í loftlagsmálum enda mikið í húfi.
»Margt þarf að gera betur á
Íslandi þó að margt sé vel gert.