Skáld William Shakespeare samdi Rómeó og Júlíu sem birtist fyrst á prenti 1597.
Skáld William Shakespeare samdi Rómeó og Júlíu sem birtist fyrst á prenti 1597. — AP
Margir hafa velt fyrir sér kynhneigð breska skáldsins William Shakespeare í gegnum tíðina. Nú hefur leikstjórinn Nick Bagnall tekið kenninguna um samkynhneigð skáldsins á næsta stig með því að gera hans frægustu ástarsögu að sögu um tvo karlmenn.

Margir hafa velt fyrir sér kynhneigð breska skáldsins William Shakespeare í gegnum tíðina. Nú hefur leikstjórinn Nick Bagnall tekið kenninguna um samkynhneigð skáldsins á næsta stig með því að gera hans frægustu ástarsögu að sögu um tvo karlmenn. Sýningin verður sett upp í Everyman-leikhúsinu í Liverpool. Þetta kemur fram á vef BBC .

Bagnall segir ekki ólíklegt að Shakespeare hafi samið leikritið fyrir tvo karlmenn enda léku karlar öll kvenhlutverk á tíma skáldsins.

Oscar Wilde setti á sínum tíma, ásamt fleirum, fram þá kenningu að Shakespeare hefði skrifað hlutverk Júlíu sem og annarra kvenna fyrir ungan leikara sem hann var ástfanginn af. „Shakespeare samdi hlutverkið fyrir karlmann. Upphaflega var Júlía leikin af pilti og margir trúa því að Shakespeare hafi verið ástfanginn af þessum pilti og að leikritið hafi verið ástarbréf til hans,“ segir Bagnall.

Í upphaflega verkinu er Rómeó í fyrstu ástfanginn af annarri stúlku en í sýningu Bagnall er hann óviss um kynhneigð sína. Jafnframt er Rómeó hvítur í sýningunni en Júlíus og fjölskylda hans ekki. Með þessu vill Bagnall deila á fordóma gegn samkynhneigð í mismunandi löndum.