Barátta Grétar Sigfinnur Sigurðarson og Jeppe Hansen í baráttu í Laugardal í gær.
Barátta Grétar Sigfinnur Sigurðarson og Jeppe Hansen í baráttu í Laugardal í gær. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Stefán Stefánsson ste@mbl.is Sóknarleikur var í hávegum hafður en öllu minni áhersla var á varnarleik þegar Þróttur fékk Keflavík í heimsókn í gærkvöld er 5. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, hófst.

Í Laugardal

Stefán Stefánsson

ste@mbl.is

Sóknarleikur var í hávegum hafður en öllu minni áhersla var á varnarleik þegar Þróttur fékk Keflavík í heimsókn í gærkvöld er 5. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, hófst. Það fór samt svo að Þróttur vann 2:0 og tók þar með efsta sæti deildarinnar af Fylki.

Þróttur hóf leikinn með látum og fékk færi á fyrstu mínútu en Keflavík sitt á þriðju mínútu. Keflvíkingar þurftu að gera breytingu á 5. mínútu þegar fyrirliðinn Jónas Guðni Sævarsson meiddist og þurfti að fara útaf.

Eftir flotta sókn Suðurnesjamanna á 14. mínútu geystust Þróttarar í sókn og upp úr hornspyrnu Hlyns Haukssonar skallaði Hreinn Ingi Örnólfsson í markið af stuttu færi.

Þróttur var meira í sókn í fyrri hálfleik enda sóknarhugurinn mikill en taflið snerist við í hálfleik og fram eftir síðari hálfleik voru gestirnir mun ágengari þegar þeir náðu að þrýsta vörn Þróttar sífellt aftar. Hættan fólst í að Þróttur náði snöggri sókn og úr einni slíkri á 81. mínútu innsiglaði Oddur Björnsson sigur Þróttar.

Haukar og Grótta gerðu 1:1-jafntefli í Hafnarfirði. Elton Barros kom Haukum yfir um miðjan fyrri hálfleik með sínu þriðja marki í sumar, en Ásgrímur Gunnarsson jafnaði metin snemma í seinni hálfleik eftir sendingu Ingólfs Sigurðssonar.