Sigurvegari Helga Kolbrún nældi í tvenn verðlaun sama daginn.
Sigurvegari Helga Kolbrún nældi í tvenn verðlaun sama daginn. — Ljósmynd/ÍSÍ
Í San Marínó Kristján Jónsson kris@mbl.is Ekki er víst að íslenskum íþróttaunnendum sé kunnugt um að Íslendingar séu farnir að gera sig gildandi í bogfimi á alþjóðlegum vettvangi.

Í San Marínó

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ekki er víst að íslenskum íþróttaunnendum sé kunnugt um að Íslendingar séu farnir að gera sig gildandi í bogfimi á alþjóðlegum vettvangi. Ef frá er talin þátttaka Þorsteins Halldórssonar á Ólympíumótinu í Ríó í fyrra. Gærdagurinn var ljúfur fyrir Helgu Kolbrúnu Magnúsdóttur sem nældi í tvenn verðlaun fyrir Ísland í bogfimi með trissuboga sama daginn á Smáþjóðaleikunum.

Helga vann til bronsverðlauna í liðakeppni blandaðra sveita ásamt Carsten Tarnow en sigraði síðan í einstaklingskeppninni með trissuboga. Helga hafði hafnað í efsta sæti í undankeppninni fyrr í vikunni. Þá tók við úrslitakeppni þar sem keppt er maður á mann með útsláttarfyrirkomulagi þar til tveir standa eftir. Helga fékk andstæðing frá Lúxemborg í úrslitaviðureigninni í gær og sigraði 140:129.

„Fyrir fram vonaðist ég náttúrlega eftir einhverri medalíu og vissi að gaman yrði að ná því. Alla vega taldi ég okkur Íslendinga eiga góða möguleika á því að ná í einhver verðlaun vegna þess að við höfum keppt á stórum mótum eins og HM og heimsbikarmótum. Ég gerði ráð fyrir því að við næðum einhverjum árangri eða vonaðist í það minnsta til þess,“ sagði Helga þegar Morgunblaðið náði tali af henni í gær þegar hún var búinn að láta nudda úr sér þreytuna.

Helga er á sínum fyrstu Smáþjóðaleikum enda hefur ekki verið keppt í greininni á leikunum síðustu skipti að minnsta kosti. Helga er hins vegar enginn nýgræður í íþróttinni. Hún mun á næstunni keppa á heimsbikarmótum í Tyrklandi og Þýskalandi áður en stefnan er tekin á HM í Mexíkó í haust. „Þetta verður stóra árið mitt,“ sagði Helga sem dvaldi í tvo og hálfan mánuð í Eyjaálfu en hún var við æfingar og keppni í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Hún hafði aðeins verið heima á Íslandi í þrjár vikur þegar að Smáþjóðaleikunum kom og mætti því til leiks í hörkuformi. Sjálfstraustið var einnig í góðu lagi eftir að hafa unnið til verðlauna á opna ástralska mótinu og minni mótum í Nýja-Sjálandi.

„Ég elska að keppa í þessum hita og kunni því betur við mig í Nýja-Sjálandi heldur en heima. En auk þess vantar okkur alvöru þjálfun á Íslandi. Við höfum að mestu séð um það sjálf en til að ná lengra þurfum við markvissari þjálfun,“ sagði Helga Kolbrún Magnúsdóttir í samtali við Morgunblaðið.