[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is Nauðsynlegt að reyna að komast að því hvar fólk býr svokallaðri óleyfisbúsetu, en með því er átt við búsetu í húsnæði sem er skipulagt undir atvinnustarfsemi.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

Nauðsynlegt að reyna að komast að því hvar fólk býr svokallaðri óleyfisbúsetu, en með því er átt við búsetu í húsnæði sem er skipulagt undir atvinnustarfsemi. Þetta segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarna hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að skortur á upplýsingum um fjölda og staðsetningu íbúa í húsnæði geti torveldað björgunarstörf, t.d. í eldsvoða, en hins vegar sé erfitt að sinna öryggis- og brunavörnum í þágu íbúa sem búa í atvinnuhúsnæði ef ekki er vitað að búið sé í því. Óleyfisbúseta sé annars vegar í húsnæði þar sem að lögheimilisskráning sé möguleg, en hinsvegar þar sem hún sé ekki möguleg.

Almennt er ekki hægt að skrá sig með lögheimili á svæði sem er ekki skilgreint til íbúðar, með undantekningum þó. „Sumt atvinnuhúsnæði hefur t.d. einhvern tímann verið byggt með leyfi fyrir húsvarðaríbúð og þar er lögheimilisskráning möguleg þó svo að svæðið sé skilgreint sem atvinnu- eða iðnaðarsvæði í skipulagi sveitarfélagsins,“ heldur Bjarni áfram.

Niðurstaða könnunar afhent

Tölur sem stjórn Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu fékk afhentar af slökkviliðsstjóra á stjórnarfundi í gærmorgun gefa vísbendingar um að óleyfisbúseta sé að aukast á höfuðborgarsvæðinu að Seltjarnarnesi undanskildu. Lauslega áætlað búi á fjórða þúsund manns óleyfisbúsetu á höfuðborgarsvæðinu skv. þeim. „Nýrri tölurnar eru ekki endanlega staðfestar en gefa sterkar vísbendingar og það ber að horfa á það þannig“ segir Bjarni. Könnun á óleyfisbúsetu hófst eftir að ákveðið var á stjórnarfundi SHS í janúar sl. að óleyfisíbúðir í atvinnuhúsnæði á starfssvæði SHS yrðu kortlagðar og var slökkviliðsstjóra falið það verkefni, en það var framkvæmt í samvinnu við sveitarfélögin. Kannanir sem þessar ná aftur til ársins 2003 en síðast voru gerðar ítarlegar skráningar með eldvarnaskoðun árið 2008. Farið var yfir upplýsingar frá sveitarfélögunum þar sem grunur lék á óleyfisbúsetu og skráningar hjá SHS og líka lögheimilisskráningar og skráningar á Já.is á svæðum og í húsnæði sem er skilgreint til annars en búsetu. Vettvangskannanir voru gerðar með því að fara á atvinnusvæði og ganga götur í leit að vísbendingum eins og ljósi eða „heimilislegum gluggum“ á kvöldin, óhirtu sorpi o.s.frv. Þessar kannanir verði aldrei jafnáreiðanlegar og þegar gerð er eldvarnaskoðun, en upplýsingarnar gefi þó ályktunarbærar vísbendingar.Yfirlit yfir vitneskju um óleyfisbúsetu sé svo lagt fyrir borgar- og bæjarstjóra sveitarfélaganna. Vinna á grundvelli upplýsinganna haldi áfram og ákvörðunar um framhaldið sé að vænta í haust.

Lögin þarfnist skoðunar

Bjarni talar um að skráningar skorti til að aðstoða björgunaraðila við kortlagingu búsetu í byggingum og vísar þar til laga um lögheimili og laga um þjóðskrá sem þarfnist e.t.v. endurskoðunar m.t.t. opinberrar skráningar fólks á heimili sínu. Verst finnst Bjarna þó að heimildir í lögum, til að þvinga eigendur húsnæðis til að fara að tilmælum um endurbætur í þágu aukins öryggis íbúanna, séu ekki nægilega skýrar og vísar til laga um brunavarnir, en ákvörðun um kæru til lögreglu í þeim lögum sé ekki talin nógu traust til sakfellingar og hafi það því lítinn fælingarmátt. Flestir eigendur húsnæðis bregðist hratt og vel við tilmælum um endurbætur, en þó séu til „leiguhákarlar“ sem sinna þeim illa og sýni jafnvel „einbeittan brotavilja“ og dæmi sé um að þeir taki niður upplýsingar sem að eldvarnareftirlitið setji upp íbúunum til upplýsingar. Það geti endað með því að nauðsynlegt sé að loka húsnæðinu sem hafi þær afleiðingar að íbúarnir missi heimili sín.

Gildi lögheimilsskráningar

Takmarkanir á því hvar skrá megi lögheimili geta haft ýmsar afleiðingar fyrir fólk fyrir utan að hafa áhrif á öryggi. Þeir sem ekki geta skráð lögheimili sitt á heimili sínu geta orðið af þjónustu eins og sorphirðu, skólaakstri, grunnskóla fyrir börnin og jafnvel réttindum til félagslegrar aðstoðar í kerfinu.