Kátar Malene Dam með Theresu Himmer og syni hennar, David Mána, Emily Weiner og Ragnheiði Gestsdóttur.
Kátar Malene Dam með Theresu Himmer og syni hennar, David Mána, Emily Weiner og Ragnheiði Gestsdóttur. — Morgunblaðið/Hanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

„Þessi sýning byggir á hugleiðingum um það hvernig hugmyndir og túlkanir breytast,“ segir Brynja Sveinsdóttir, verkefnastjóri í Gerðarsafni í Kópavogi, um sýninguna Innra, með og á milli eftir myndlistarkonurnar Theresu Himmer, Emily Weiner og Ragnheiði Gestsdóttur. „Sérstaklega byggir hún á því hvernig maður kemur hlutum til skila á milli landamæra, tungumála og jafnvel tíma.“

Þrír ólíkir listamenn

Theresa, Weiner og Ragnheiður eru hver frá sínu landinu og með ólíkan listrænan bakgrunn. Þessi sýning, líkt og fyrri sýning þeirra í Brooklyn fyrir tveimur árum, er eins konar samtal milli listamannanna þriggja. „Við Ragnheiður og Emily vorum í sama myndlistarskóla í New York og hittumst þar árið 2011,“ segir Theresa, sem er frá Danmörku en búsett á Íslandi. „Þetta verkefni byrjaði eiginlega 2015 þegar við fórum að deila á meðal okkar hugmyndum um ólínulegar tímarásir og hvernig tákn og merki ferðast um menningarheima þar sem þau eru notuð í ólíku samhengi. Þetta varð að samsýningu okkar í Soloway-galleríi í Brooklyn haustið 2015. Við vildum allar endilega halda áfram þessu samtali okkar.“

Á sýningunni í Gerðarsafni hefur mikilvægur listamaður bæst í hóp þremenninganna en það er Gerður sjálf. Gerði Helgadóttur (1928-1975) er hér boðið að taka þátt í samtali listamannanna og kallast verk þeirra á sýningunni því á við störf og ævi Gerðar.

„Ég held að samhengi Gerðarsafnsins og ævi Gerðar hafi skipt miklu máli í ramma sýningarinnar og hafi gert uppsetninguna að talsverðri áskorun,“ segir Malene Dam sýningarstjóri. Dam starfar í Kaupmannahöfn og hefur einkum stýrt sýningum sem huga að líðandi stund og femínískri eða hinsegin túlkun á mannkynssögunni. „Hvernig setur maður upp samtal þriggja nútímalistamanna við manneskju sem er ekki lengur á lífi en skildi eftir sig mjög margbreytileg verk?“ spyr hún sig. „Mér finnst við hafa gert það á mjög spennandi hátt, með því að finna það sem okkur fannst áhugavert og fannst tengjast listamönnunum í verkum Gerðar. Allar þrjár tala þær sínu eigin myndmáli og nálgast listina hver á sinn máta. Við sjáum samtal þessara hugsunarmáta og hvernig þeir leitast allir við að lesa í tíma og rúm. Öll verkin á sýningunni vísa til þess hvernig hlutir ferðast í gegnum tíma og rúm og verða hluti af samtölum Þannig verður Gerður hluti af samtalinu.“

Samtal milli jafningja

„Ég nálgast þetta með miklu tilliti til rýmisins,“ segir Theresa, sem er menntuð í arkitektúr. „Það skipti okkur allar máli að samtalið við Gerði yrði samtal milli jafningja. Það átti ekki að setja Gerði upp á stall og tengjast henni á „lóðréttan“ hátt byggðan á kynslóðabili og arfleifð. Ég hafði áhuga á því hvernig saga Gerðar væri túlkuð og sögð; hvernig safnið heldur nafni hennar á lofti og þá leið sem arkitektinn fer í að búa til umgjörð um verk hennar. Hvernig er hægt að túlka safnrýmið sem rammann um ævi og störf Gerðar?“

Theresa segist hafa leitað til vina Gerðar og þá sérstaklega til Elínar Pálmadóttur sem ritaði ævisögu hennar. „Ég ætla að sýna ljósmyndir af verkum Gerðar í heimilislegu og persónulegu umhverfi. Til dæmis er mjög persónulegt safn smáskúlptúra eftir Gerði í íbúð Elínar. Mér finnst áhugavert hvernig húsrýmið verður ramminn utan um verkin; hvernig verkin verða leikmunir í persónulegri frásögn þegar þeir birtast í heimilisrými sem ber öll merki þess að þar sé lifað góðu lífi.“

Safnið var þó einnig notað. „Ég tók upp myndband í sýningarsalnum þar sem ég tek fyrir nálgun Gerðar á hugmyndir heimspekingsins George Gurdjieff, sem hafði mikil áhrif á listahreyfinguna í París þegar Gerður var þar. Gurdjieff skipulagði hugmyndir sínar eftir svokölluðu „enneagrami“ sem ég teiknaði inn í salsrýmið. Í myndbandinu dansar Saga Sigurðardóttir í kringum táknið á gólfinu hugleiðingardans í anda Gurdjieff. Með þessu móti skapast tengsl milli hugmyndafræði Gerðar og safnhúsnæðisins, sem okkur fannst of ótengt Gerði og verkum hennar.“

Tákn í tíð og tíma

„Við vorum allar að hugsa um það hvernig hægt væri að miðla merkingum á milli kynslóða, menninga og tímabila,“ segir Emily Weiner, sem er bandarísk og menntuð í málaralist, „og hvernig tákn sem eiga sér mörg hundruð ára sögu geta skotið upp kollinum í nútímamenningu. Merkingin sem miðlað er gæti verið trúarleg, heiðin eða táknræn – mörg þessara málverka eru mjög fjölræð.“

Weiner tekur eitt málverka sinna til dæmis. „Lítum á þessa píramídamynd og þríhyrningstáknið. Þríhyrningurinn er í senn valdatákn fyrir píramídann en finnst einnig á endurreisnartímanum í myndbyggingu Mónu Lísu og aftan á hverjum einasta bandaríska dollaraseðli sem ramminn utan um hið alsjáandi auga Guðs. Hvernig birtast sömu táknin hvað eftir annað í ólíkum menningarheimum á ólíkum tímabilum?“

Með táknunum vísar Weiner einnig í líf Gerðar og á við hana samtal um listasögu, t.d. með því að vísa til ferðar hennar til Egyptalands með píramídamyndinni. „Þetta fer fram og aftur milli þess að hafa hana til samhengis fyrir verk hennar og verk hennar sem stoðir undir hugmyndir hennar og reynslu,“ segir Weiner. „Þetta hefur nánast verið eins og að vinna með henni persónulega. Ég finn fyrir nærveru Gerðar í vinnustofunni minni.“

Af brjóstmyndum og stigagöngum

Á sýningunni velta listamennirnir einnig fyrir sér mannkynssögunni, hvað fær að vera hluti af henni og hvað ekki. „Mér finnst áhugavert að taka fyrir listasögu og hráefni,“ segir Ragnheiður. „Á Íslandi byrjar sagan öll árið 874 þegar víkingarnir koma. Þar byrjum við okkar tímatal. Samt tengjum við okkur við Grikki, Rómverja og aðrar fornþjóðir við Miðjarðarhafið. En á Íslandi eigum við engar rústir eða forngripi sem tengja okkur við þá menningarsögu, ekki einu sinni byggingarefnin. Ég sé þó tilvísanir í hana í þessari byggingu, sem mér finnst áhugavert. Við búum til þessa frásögn til að styrkja ímynd okkar um það hvaðan við komum og hvert við stefnum.“

Í sýningarsalnum hefur Ragnheiður stillt upp tveimur sjónvarpsskjáum hlið við hlið til að kanna þessi íhugunarefni í samhengi við verk Gerðar. Á öðrum skjánum er upptaka af marmarabrjóstmynd eftir Gerði sem höfð er í geymslu Gerðarsafns og hefur sjaldan verið sýnd almenningi. Á hinum er upptaka af stigagangi í ónefndri íbúð í Beirút þar sem Ragnheiður var í vinnustofudvöl í fyrra.

„Í myndbandinu til hægri eru marmaratröppur,“ segir Ragnheiður. „Við notum þetta byggingarefni lítið á Íslandi. Ekki nema maður eigi peninga. En sunnan við Evrópu og annars staðar í heiminum sér maður marmara úti um allt, líka á stigagangi þar sem fólk hendir ruslinu sínu. Myndavélin fer upp og aftur á bak en við viljum almennt að sagan fari áfram. Við gerum okkur hugmyndir um framfarir, um að fara inn í rými og að kortleggja það svo við getum átt það.“

Listakonurnar þrjár eru sammála um að sýningin sem þær hafa sett upp hafi upp á margt að bjóða og sé túlkanleg á fleiri en eina vegu. Sýningin verður opnuð í dag kl. 15 í Gerðarsafni og stendur til 20. ágúst.