Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is 79 þingfundir, sem samtals stóðu í rúmlega 383 klukkutíma, voru haldnir á 146. löggjafarþingi, sem frestað var í fyrradag.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

79 þingfundir, sem samtals stóðu í rúmlega 383 klukkutíma, voru haldnir á 146. löggjafarþingi, sem frestað var í fyrradag. Lengsti þingfundurinn var rúmlega 15 og hálf klukkustund og lengsta umræðan varði í rúma 42 tíma, en þá var fjármálaáætlun rædd.

53 frumvörp urðu að lögum, 23 þingsályktunartillögur voru samþykktar og af þeim 305 skriflegu fyrirspurnum sem lagðar voru fram var 192 svarað, samkvæmt samantekt Alþingis.

Þingræður í vetur voru alls 3.902 og athugasemdir 3.653. Samtals töluðu þingmenn í 320 klukkustundir og var meðallengd þingræða 3,6 mínútur. Nýliði í hópi þingmanna var ræðukóngur Alþingis að þessu sinni, það var Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, sem talaði samtals í 933 mínútur í 125 ræðum og 196 athugasemdum. Þetta eru um 16 klukkustundir.

Fast á hæla Kolbeins fylgdi flokkssystir hans, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem talaði mest á síðasta löggjafarþingi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, talaði skemmst allra þingmanna, en hann talaði í 23 mínútur. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði næstminnst.

Í ávarpi sínu við frestun þingfunda sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, að endurskoða þyrfti starfsáætlun Alþingis með tilliti til fjármálaáætlunarinnar. Hún þyrfti meira rými í vinnuskipulagi þingsins. 18