Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Eftir Einar S. Hálfdánarson: "Kvörtun til Kristjáns Þórs Júlíussonar menntamálaráðherra vegna meintra lögbrota Helga Seljan, umsjónarmanns Kastljóss."

Nýverið ritaði ég kvörtun til Kristjáns Þórs Júlíussonar menntamálaráðherra sem varðaði stjórn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóra og Helga Seljan, umsjónarmann Kastljóss. Af svari ráðherra má ráða að hann og þeir sem hann fól svo að svara erindinu hafa nokkurn veginn náð að skilja efni þess. Það var sem sé að í Kastljósi 19. október sl. kaus Helgi Seljan, einn umsjónarmanna Kastljóss, að fjalla um mál sem vænta mætti að væri ofarlega á baugi. Málið var sú ákvörðun Seðlabankans að lána Kaupþingi 500 milljónir evra 6. október 2008, eða réttum átta árum fyrr. Meginefni þessarar umfjöllunar voru tveir fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins og ákvarðanir þeirra. Helgi Seljan er ákafur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og notar hvert tækifæri til að koma höggi á flokkinn. Þess vegna á það kannski ekki að koma á óvart að hann kaus að leggja til atlögu viku fyrir kosningar. Í framhaldinu tók Sjálfstæðisflokkurinn dýfu í skoðanakönnunum, sem að vísu varð skammvinn, þvert á tilgang Helga. Ég tiltek hér fyrir neðan tvær orðréttar tilvitnanir í orð Helga Seljan:

„500 milljón evra – eða 75 milljarða króna – lán Seðlabankans til Kaupþings fékkst ekki endurgreitt. Bankinn féll enda þremur dögum eftir að lánið var veitt. FIH bankinn varð eign Seðlabankans sem seldi danska bankann árið 2012. Tap Seðlabankans og ríkissjóðs af lánveitingunni er talið nema 35 milljörðum króna.“ ... „Þá staðreynd að tug milljarða króna tjón varð af láninu, þar sem FIH bankinn danski reyndist ekki eins verðmætur og talið hafði verið í fyrstu þegar hann var seldur árið 2012.“

Af framangreindu máttu áhorfendur ráða að ákvarðanir þessara tveggja fyrrverandi formanna Sjálfstæðisflokksins hefðu valdið Íslandi miklu tjóni. Ýtarlega hefur verið rakið að síðari ákvarðanir Seðlabankans urðu valdar að tjóninu. Þegar bankinn var seldur þeim sem Seðlabankinn taldi leggja fram hagstæðasta tilboð lá fyrir annað tilboð sem sagt var nægja fyrir veðunum. Seðlabankinn kaus að taka tilboði sem virtist enn hagstæðara, en með fyrirvörum um mat á eignum að nokkrum tíma liðnum. Seðlabankinn taldi að bankinn væri það verðmætur að ekki væri tekin áhætta með sölu með þessari aðferð. Annað kom þó á daginn og endurskoðun kaupverðsins reyndist bankanum ákaflega óhagstæð. Starfsmönnum hans er þó mikil vorkunn. Ekki svo löngu eftir þessa endurskoðun var FIH bankinn aftur orðinn mjög svo verðmætur í viðskiptum og mikill happafengur eigendum sínum. Sveitamaðurinn hafði sem sé verið plataður við sölusamningsgerðina. – Hverjir komu að henni? Ekki fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins, svo mikið er víst.

Það er sem sé ósatt að halda því fram að lán Seðlabankans til Kaupþings hafi ekki fengist endurgreitt af völdum þessara tveggja fyrrverandi formanna. Frásögnin var viljandi einfölduð og úr er sleppt hreinum aðalatriðum. Þannig fæst sú mynd dregin upp sem hentar pólitískri sýn Helga Seljan og margendurteknum pólitískum áróðri. Helgi hafði engar nýjar upplýsingar fram að færa um lánið sem hann vildi koma á framfæri í fréttinni. Við því er ekkert að segja að Helgi Seljan sé andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og láti það uppskátt. Ekki einu sinni í Kastljósi. Erlendir þáttastjórnendur gera iðulega sambærilega hluti. En þá er þess jafnan gætt með öðrum hætti að ekki sé hallað á aðrar skoðanir, hvað þá réttu máli hallað. Þessa var alls ekki gætt af Helga, hér sem endranær.

Meint lögbrot Helga Seljan

Og hér kemur að lögum um RÚV og meintum lögbrotum Helga Seljan. Ríkisútvarpið á lögum samkvæmt að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það á að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Það er m.a. á ábyrgð Útvarpsstjóra og stjórnar þess að Ríkisútvarpið taki ekki afstöðu með og á móti einstökum stjórnmálaflokkum. Þá á Ríkisútvarpið að vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum og taka dagskrárákvarðanir á faglegum forsendum. Rétt til andsvara á, svo dæmi sé tekið, að virða skv. þessum reglum. Ég tel einsýnt að Helgi Seljan hafi brotið gegn lögum um Ríkisútvarpið í framangreindum og raunar fleiri efnum.

Útvarpsstjóri setur starfsreglur fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins og skilyrði áminningar og starfsloka. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins og að farið sé að lögum um Ríkisútvarpið. Sé framferði Helga skoðað í ljósi lagaskyldna sem hann ber má að mínu mati ljóslega greina að hann fer ekki að þeim. Því beindi ég því til Útvarpsstjóra og stjórnar að þau gerðu þær ráðstafanir sem þeim ber lögum samkvæmt.

Svör stjórnar Ríkisútvarpsins

Að hálfu stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. var erindi mínu fljótsvarað því að þar segir án frekari raka: „Af því tilefni skal upplýst að stjórnarformaður RÚV telur erindið ekki falla innan starfssviðs stjórnar og beindi því til yfirstjórnar RÚV. Farið hefur verið yfir erindið og fæst ekki ráðið að þau sjónarmið sem vísað er til í erindi þínu eigi við rök að styðjast og mun RÚV ekki aðhafast frekar í málinu.“ Og svo síðar, nokkuð stytt: „Varðandi starfssvið stjórnar þá hefur stjórn RÚV ekki litið svo á að umkvörtunarefni sem varða fréttaflutning, hvað þá einstakan fréttaflutning, séu almennt á verksviði stjórnar, heldur á borði viðkomandi yfirmanna, þ.á m. fréttastjóra og eftir atvikum útvarpsstjóra, enda lýtur þetta að daglegri starfsemi RÚV, sbr. einnig hér reglur um meðferð athugasemda, ábendinga og kvartana vegna umfjöllunar RÚV sem eru aðgengilegar á heimasíðu félagsins (en þar er á hinn bóginn gert ráð fyrir málskoti innan fjögurra vikna frá því að frétt birtist). Rétt er og að taka fram að stjórnarformaður RÚV hefur verið upplýstur um erindi þitt [sem var kannski ekki úr vegi]. RÚV lítur svo á að málinu sé lokið á þessum vettvangi.“ – Svo var nú það.

Í svarinu gætti alvarlegs misskilnings; kvörtunin varðaði meint lögbrot, hvorki meira né minna. Lögbrot sem framið er í mynd „fréttar“ er einfaldlega lögbrot, ekki „umkvörtunarefni sem varða fréttaflutning“. Eftirlit sem miðar að því að koma í veg fyrir og bregðast við lögbrotum félagsins er ein meginskylda stjórnar hvers félags, líka hlutafélags. Ekki síst opinbers hlutafélags. Verði stjórnin þess vör að lögbrot hafi verið framin í félaginu ber henni ótvíræð skylda til að bregðast við. Þetta er grundvallaratriði. Enda segir beinlínis í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 í 10. grein um starfssvið stjórnarinnar að stjórn Ríkisútvarpsins fari með æðsta vald í málefnum þess á milli aðalfunda. Stjórnin beri ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins og að farið sé að lögum um Ríkisútvarpið, að samþykktir þess og ákvæði samnings um fjölmiðlun í almannaþágu séu uppfyllt. Öllu skýrara getur þetta nú ekki orðið.

Nokkur meginatriði

Enginn hefur enn andmælt efnislega í neinu því sem ég sagði í erindi mínu. Svörin eru dæmigerð fyrir Ísland; skjóta sér undan ábyrgð. Ég þykist vita hvað þeim í stjórninni sem betur vita gengur til. Íslenskir vinstrimenn eru jafnan þeirrar skoðunar að lögin séu eitthvað handa okkur sjálfstæðismönnum og völdum framsóknarmönnum. Þeir séu á hinn bóginn ýmist bundnir af lögum, siðferði eða réttlæti, allt eftir hentugleikum hverju sinni. Forystumenn pírata mega þannig stunda bótasvik, villa á sér heimildir og notfæra sér félagsleg úrræði ætluð þeim sem minna mega sín. Það telst varla sæta tíðindum. Hægrimenn eru á hinn bóginn að vonum dauðskelfdir að fara gegn fjölmiðlavaldinu. Það hefur nefnilega sýnt sig að þar er samstaða. „Úlfar gera svín samhlaupa“ var áður sagt.

Svör ráðherra

Það er ekki ofsagt að ráðherra gerir ekki mikið úr valdi sínu í þessu máli. Aðkoma mennta- og menningarmálaráðherra er, samkvæmt svari ráðherrans, að gera samning við Ríkisútvarpið um fjölmiðlun í almannaþágu til fjögurra ára í senn, sem og að fara með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu. Hingað til hefur meðferð eignarhluta íslenska ríkisins verið talin fela í sér mikla ábyrgð. Það er t.d. óhætt að segja að ráðherra og Alþingi hafi tekið málefni Landsbankans mjög föstum tökum þegar yfirstjórnin þótti (með réttu eða röngu) bregðast. Sambærileg dæmi eru mýmörg. Enginn ráðherra horfir aðgerðalaus á lögbrot framin í stofnun sem heyrir undir hann. Hvergi í heiminum. Eina undantekningin er ef hann er samþykkur lögbrotinu, sem ekki er öldungis óþekkt.

Ég er ekki að segja að ég átti mig ekki á svari ráðherrans. Þvert á móti. Það er ekki heiglum hent að ætla að taka sjálfstýringuna úr sambandi hjá RÚV.

Reglur Evrópuráðsins

Það er einnig svo að ekki einungis landslög fjalla um skyldur fjölmiðlanna. Evrópuráðið hefur sett nákvæmar reglur sem að þessu lúta, t.d. Recommendation No. R (99) 15. Fordæmi eru fyrir, t.d. varðandi Ítalíu, að stofnanir Evrópuráðsins hafi látið til sín taka þegar út af hefur brugðið. M.a.s. einstakir fréttamenn RÚV hafa sinnt eftirliti með erlendum fjölmiðlum hvað þetta varðar. Ráðherra hlýtur fjárakornið a.m.k. að vera ábyrgur fyrir því að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi.