Bjarni Kjartansson.
Bjarni Kjartansson.
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

„Vandamálið sem snýr að slökkviliði og björgunarsveitum er að ef að það verður bruni, náttúruhamfarir eða slys þá er ekki vitað hvort fólk sé í hættu inni í húsnæðinu, hvar það er statt eða hversu margir,“ segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Hann segir að þær upplýsingar séu nauðsynlegar til að getað bjargað fólki í bruna og rústum. Jafnframt sé erfitt að fylgjast með því hvort brunavarnir og útgönguleiðir séu fullnægjandi til að tryggja öryggi íbúanna fyrirfram. Niðurstaða könnunar um fjölda fólks sem býr í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var kynnt fyrir stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á fundi hennar í gær. Borgar- og bæjarstjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eiga allir sæti í stjórninni, en slökkviliðsstjóra var falið að gera athugun á búsetu fólks í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Erfitt er að gera sér grein fyrir umfangi óleyfisbúsetu, sem er búseta fólks í atvinnuhúsnæði, þar sem lögheimilisskráningar eru almennt ekki leyfðar í slíku húsnæði. Könnunin var framkvæmd með ábendingum og vettvangskönnunum og jafnvel þó að niðurstöður hennar séu ekki nákvæmar þá gefa þær vísbendingar um að óleyfisbúseta á höfuðborgarsvæðinu sé að aukast frá árinu 2008 þegar eldvarnareftirlitið gerði nákvæma úttekt.