Laugardagsgátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Gripur harla góður er. Gengu menn til dóma þar. Með þeim fjölgar maður sér. Munúð þarna stunduð var. Helgi Seljan svarar: Grip má kalla þarfaþing. Þingi gengu dómar frá.

Laugardagsgátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Gripur harla góður er.

Gengu menn til dóma þar.

Með þeim fjölgar maður sér.

Munúð þarna stunduð var.

Helgi Seljan svarar:

Grip má kalla þarfaþing.

Þingi gengu dómar frá.

Djarft mun leika dingaling

dátt við konur þinga má.

Síðan gefur hann þessa skýringu:

Halldóri ég þetta hér með sendi

í þriðju línu á það ég bendi

að þetta milli fóta lendi.

Þannig leysir Guðrún Bjarnadóttir gátuna:

Um bílinn, þarfaþing, ég syng.

Á þingi voru kveðnir dómar.

Kynfæri má kalla þing.

Kærast par í þingum ljómar.

Árni Blöndal á þessa lausn:

Gripurinn er þarfa þing

þá var dómþing víða sett

með ástartólum leikum létt

ljúf er þessi tilfinning.

„Þá er það lausnin,“ svarar Helgi R. Einarsson:

Út í orðastraum mér sting,

stoltið hvetur Mosfelling

og þar leyta allt um kring,

að endingu ég hnýt um þing.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Þing all góður gripur er.

Gengu dómar þingum á.

Með þingum fýrar fjölga sér.

Frétta um ástarþing enn má.

Þá er limra:

Þeim, sem hér þingmennsku stunda

og þyrftu sín orð vel að grunda,

skal fyrst á það bent

að forðast almennt

við Framsókn að minnast á lunda.

Síðan kemur ný gáta eftir Guðund:

Augnaloki lyfti og þá

ljós í myrkrinu ég sá,

samdi gátu, sem er hér,

og sjálfsagt vefst ei fyrir þér:

Af helmingum talinn er hann sá verri.

Hæggengur jafnan um skákreiti fer.

Býtir hann verkum á bújörð hverri.

Bestur í glímu af liðsmönnum er.

Að lokum er limra eftir Helga R. Einarsson um þverhausinn:

Ég veit það af stífninni stafar

að Steini' oní málefnin kafar.

Þrjóskur hann er

og því þverhausinn ber

frá getnaðinum til grafar.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is