Skýr skilaboð Flugmóðurskipin USS Carl Vinson (nær) og USS Ronald Reagan við Kóreuskaga, en á milli þeirra er japanskur tundurspillir.
Skýr skilaboð Flugmóðurskipin USS Carl Vinson (nær) og USS Ronald Reagan við Kóreuskaga, en á milli þeirra er japanskur tundurspillir. — Mynd/Bandaríski sjóherinn
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Tveir bandarískir herskipaflotar undir forystu flugmóðurskipanna USS Carl Vinson og USS Ronald Reagan, sem bæði eru af svonefndri Nimitz-gerð flugmóðurskipa, æfa nú við Kóreuskaga ásamt japönskum herskipum.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Tveir bandarískir herskipaflotar undir forystu flugmóðurskipanna USS Carl Vinson og USS Ronald Reagan, sem bæði eru af svonefndri Nimitz-gerð flugmóðurskipa, æfa nú við Kóreuskaga ásamt japönskum herskipum. Er alls um að ræða 14 herskip af hinum ýmsu gerðum, s.s. tundurspilla og freigátur. Þá má einnig gera ráð fyrir að USS Michigan, einn stærsti kjarnorkukafbátur heims, sé skammt undan.

Fjölmiðill bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Stars and Stripes, greinir frá því að þriðji herskipaflotinn, undir forystu flugmóðurskipsins USS Nimitz, sé einnig væntanlegur á næstunni, en það mun vera afar sjaldgæft að Bandaríkjamenn sendi tvö flugmóðurskip til æfinga á sama stað, hvað þá þrjú. Er þetta öflugasta flotasveit sem sést hefur við Kóreuskaga um langt skeið, en ástæða komu flotadeildanna þangað er tíðar tilraunir stjórnvalda í Pjongjang með langdrægar skotflaugar.

Nimitz ekki í forystu frá 2013

„Þessar flotadeildir, ásamt tveimur japönskum herskipum, nýttu sér tækifæri til að æfa og þróa sameiginlegar aðgerðir,“ segir í tilkynningu 7. flotadeildar bandaríska sjóhersins. „Að geta æft tvær flotadeildir flugmóðurskipa á sama tíma er einstakt tækifæri og ein af mörgum leiðum bandaríska sjóhersins til að stuðla að öryggi, stöðugleika og velmegun á svæðinu,“ segir einnig í tilkynningu.

Flugmóðurskipið USS Nimitz mun hitta tundurspillana USS Kidd og USS Shoup við flotastöðina við San Diego í Bandaríkjunum áður en stefnan er tekin á Kóreuskaga. Líklegt er að fleiri herskip sláist í för eftir því sem nær dregur, en þetta er í fyrsta sinn frá 2013 sem flotadeild siglir undir stjórn USS Nimitz.