Pálmi Jónsson í Hagkaup fæddist á Hofi á Höfðaströnd 3.6. 1923, sonur Jóns Jónssonar, bónda þar, og k.h., Sigurlínu Björnsdóttur. Meðal föðurbræðra Pálma var Pálmi, skrifstofustjóri Kveldúlfs, faðir Elínar Pálmadóttur, fyrrv. blaðakonu og rithöfundar.

Pálmi Jónsson í Hagkaup fæddist á Hofi á Höfðaströnd 3.6. 1923, sonur Jóns Jónssonar, bónda þar, og k.h., Sigurlínu Björnsdóttur.

Meðal föðurbræðra Pálma var Pálmi, skrifstofustjóri Kveldúlfs, faðir Elínar Pálmadóttur, fyrrv. blaðakonu og rithöfundar. Faðir Jóns var Jón á Nautabúi í Skagafirði, bróðir Hannesar, föður Pálma rektors og afa Hannesar Péturssonar skálds. Systir Jóns var Halldóra, amma Þórðar Björnssonar ríkissaksóknara. Sigurlína var systir Andrésar útvarpsstjóra, dóttir Björns Bjarnasonar á Brekku í Seyluhreppi, og Stefaníu, dóttur Ólafs, vinnumanns á Frostastöðum í Blönduhlíð, bróður Jóns, langafa Egils Bjarnasonar, föður Vilhjálms skólastjóra.

Tvíburasystir Pálma var Sólveig, móðir Jóns, forstöðumanns Útflutningsstofu Íslands sem var um skeið framkvæmdastjóri Hagkaups.

Eiginkona Pálma var Jónína Sigríður Gísladóttir verslunarkona sem lést 2008 en þau eignuðust fjögur börn.

Pálmi lauk lögfræðiprófi frá HÍ 1951 og stundaði síðan verslunarstörf í Reykjavík. Hann stofnaði verslunina Hagkaup árið 1959 og starfrækti hana síðan lengst af, fyrst við Miklatorg og síðan í Lækjargötu og í Skeifunni. Undir forystu hans var verslunarmiðstöðin Kringlan reist og opnuð í ágúst 1987.

Með verslunarrekstri sínum hóf Pálmi lágverðsverslun, einkum í matvöruverslun, og hafði meiri áhrif en nokkur einn annar maður á hagkvæmnisþróun í íslenskri verslun, almenningi til hagsbóta.

Hann var valinn maður ársins af DV árið 1987, maður ársins hjá Frjálsri verslun og Stöð 2 árið 1990 og sæmdur riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar 1991. Samkvæmt skoðanakönnunum var Hagkaup oft vinsælasta fyrirtæki landsins á árum áður.

Pálmi lést 4.4. 1991.