[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umfjöllun um skólamál á Íslandi hefur verið mér hugleikin. Allir þekkja til skóla og margir hafa stór orð um hvernig skólakerfið eigi að vera. Tískuorð í þeirri umræðu síðustu ár hefur verið brottfall .

Umfjöllun um skólamál á Íslandi hefur verið mér hugleikin. Allir þekkja til skóla og margir hafa stór orð um hvernig skólakerfið eigi að vera. Tískuorð í þeirri umræðu síðustu ár hefur verið brottfall .

Mælikvarðinn á brottfall er mjög á reiki og skilgreining hugtaksins líka. Það er ekki til alþjóðleg skilgreining á brottfalli úr námi en OECD miðar við að fólk á aldrinum 20-24 ára sem ekki er í námi og hefur einungis lokið grunnskóla sé fallið brott úr skólakerfinu. Í Bandaríkjunum tengist skilgreining brottfalls ekki ákveðnum aldri heldur hvort viðkomandi hafi lokið framhaldsskóla eða sambærilegu námi. Í skýrslum frá menntamálaráðuneytinu er oftar notað hugtakið brotthvarf og taldir þeir nemendur sem hætta í skóla eftir að önn hefst.

Á haustönn 2014 hættu 790 nemendur? Stærsti hópurinn, 17%, fór að vinna, 15% ákváðu að fara í annan skóla og 9% prósent nemenda nefndu tilgangsleysi eða námsleiða. Stór hópur, 20% af þessum 709 krökkum, hættu vegna andlegra eða líkamlegra veikinda. Það voru um 160 nemendur þessa einu önn sem voru veikir! Ýmsar aðrar ástæður voru hjá 39% nemenda. Þegar talað er um brottfall og eða brotthvarf þá er það ávallt neikvætt fyrir einstaklinginn og samfélagið. Þessi hópur hér að ofan hætti af ýmsum ástæðum og sumt virðist hafa verið harla skynsamlegt val.

Undanfarin ár hefur margoft verið sagt að skólakerfinu þurfi að breyta vegna brottfalls nemenda. Skólunum þarf að breyta vegna þeirra sem ekki eru þar. Er svo gott eftirlit með einstaklingum í okkar samfélagi að við getum sagt til um hve margir eru hættir í skóla, og þá hvers vegna, og hverjir eru tímabundið utan skóla? Hvernig er hægt að skrá námsframvindu ungs fólks sem fer í atvinnumennsku í íþróttum, listamenn, ekki síst tónlistarmenn, sem velja að einbeita sér að list sinni, ungs fólks sem fer að vinna við kvikmyndagerð, gerð tölvuleikja eða forritun og hefur takmarkaða möguleika á formlegu námi í greininni eða þeirra sem einbeita sér að því að stofna og reka fyrirtæki? Teljast þessir einstaklingar brottfall? Veit einhver hvort þeir sækja sér menntun síðar, í öðrum löndum eða á netinu? Er kannski þessi sveigjanleiki sem kallast brottfall líka stærsti kostur íslenska skólakerfisins?

Eftir þessa hugleiðingu hef ég ákveðið að spyrja hvern þann sem talar um brottfall hvaðan hann hafi tölurnar, hvort þetta séu nemendur sem hættu eina önn eða hættu alveg námi, hvort viðmælandinn viti hvað nemendur fóru að gera og hvort þeir hafi skilað sér í annað nám eða starfi við það sem hugur þeirra stóð til? Ég hvet alla til að halda áfram námi og ljúka prófum, jafnvel fimm háskólagráðum, en ég fagna líka brottfallsnemendum sem lokaprófslausir hafa borið uppi hróður þessa lands eins og Birgittu Jónsdóttur, Halldóri Laxness og Hallgrími Péturssyni.

Lilja Magnúsdóttir liljam@simnet.is