Örtröð Fjölmenni í Leifsstöð.
Örtröð Fjölmenni í Leifsstöð.
Fyrir þremur dögum hófst næturinnritun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og er innritunin opin frá miðnætti kvöldið fyrir morgunflug. Fyrst um sinn verður þetta einungis í boði fyrir þá farþega Icelandair, WOW og Primera Air sem eiga morgunflug.

Fyrir þremur dögum hófst næturinnritun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og er innritunin opin frá miðnætti kvöldið fyrir morgunflug. Fyrst um sinn verður þetta einungis í boði fyrir þá farþega Icelandair, WOW og Primera Air sem eiga morgunflug. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að næturinnritunin sé viðbrögð við auknu álagi en oft voru hundruð farþega mættir við innritunarborðin á morgnana. „Við vorum oft að eiga við það að nokkur hundruð manns voru að bíða á nóttunni eftir því að geta innritað sig, morguninn eftir myndaðist síðan nokkur örtröð í flugstöðinni. Þetta er því gert til þess að létta á álaginu við innritun og öryggisleit,“ segir Guðni.

Til að byrja með verður næturinnritunin til reynslu út júní og einungis fyrir farþega fyrrgreindra flugfélaga. Guðni segir að fylgst verði með þróuninni í júní og svo tekin ákvörðun um hvort framhald verði á. „Þetta hefur farið ágætlega af stað, á bilinu 300-400 manns hafa nýtt sér þetta fyrstu tvær næturnar. Það er strax munur á ásýndinni í innritunarsal á morgnana.“ aronthordur@mbl.is